Listin að lifa felst í hugsun okkar, hegðun og tilfinningum. Þaðan sprettur allt hitt. Viðhorf, vonir, væntingar, þarfir og þrár. Ef okkur langar til að breyta, bæta og sækja fram á einn eða annan veg þá þarf jú að gera einmitt það, BREYTA, ekki satt! 

Hvernig er dagskipulagið þitt?

Líf okkar púslast saman úr sólarhringum, á eftir nóttinni kemur dagur, 365 dagar í ári, 52 vikur, 12 mánuðir. Hefur þú pælt nýlega í hversdagslega dagskipulaginu þínu, virkilega skoðað það? Er eitthvað þar sem þyrfti að breyta og þú gætir breytt, bara ef þú færir í það? 

Ertu að nýta svefntímann í einmitt það, sofa, af skynsemi og virðingu við þig, þína eigin heilsu og líðan? Þú veist alveg að hvíld og svefn er lykill að viti, virkni og vellíðan daginn langan. 

Þú ert lánsamur/lánsöm, þú býrð á Íslandi, þú ert ekki flóttamaður sem þarf að reyna að ná svefni undir bekk á götu í París eða íbúi í Sýrlandi sem kúrir á pappakassa undir sprengdu veggborti. Þú átt rúm, sæng og kodda, andaðu af ró og dýpt, taktu eftir því hvernig loftið streymir örlítið svalt í gegnun nefið og fylgdu því ofan í lungun. Taktu eftir öndunarhreyfingunni í eigin líkama og bara fylgstu með henni, aftur og aftur þar til svefninn sígur á brá.

Hvar geturðu grisjað og forgangsraðað?

Gætir þú fært vinnuhegðunina þína dags daglega í heilsusamlegri átt? Grisjað, forgangsraðað, dregið úr orkunýtingu þinni á vinnustað en samt sinnt þínu starfi vel? Komið á föstum andrýmum, pásum og næringarstundum en samt verið góður starfsmaður? Hagrætt, lagfært, verið betur við stýrið í starfi, ertu ef til vill að gera eitthvað í vinnunni sem engum nýtist og bætir ekki líf þitt eða annarra? Hverju má sleppa? Það má alltaf sleppa einhverju, í alvöru! 

Pældu í því, hvað er það í þínum verkferli, venjum og siðum á vinnustað sem má bara fara? Yfirfullt dagskipulag í vinnu þar sem hvert atriðið flæðir yfir annað er eins og kássulegur diskur sem ofskammtað hefur verið á af stóru hlaðborði. Ekkert er eins og það á að vera, hver rétturinn mengar annan, ekkert nær að njóta sín, allt fellur í meðalmennskuna hvert af annars völdum. Grisjaðu núna!

Einnota tími

Hvað gerist svo eftir vinnu á virkum dögum? Sóar þú ósjálfrátt dýrmæta einnota tímanum þínum í eitthvað? Kannski af gömlum vana, kannski ósjálfrátt, kannski út af utanaðkomandi þrýstingi? Viltu það? Hvað með aðeins minna tölvu-, og síma hangs, færri mínútur á mánuði í verslun, einfaldara heimilislíf og verk? Viltu meiri tónlist, fleiri ferðir í heitu pottana eða gönguferðir undir stjörnum og sól ? Viltu fleiri stundir fyrir huggulegheit undir teppi, til að púsla, lesa, baka eða sitja á steini við sjóinn?

Sóar þú tíma þínum umhugsunarlaust í allskonar samskipti sem ekkert gefa, hvorki þér né hinum? Hverjir eru mikilvægustu persónurnar í lífi þínu, þeir sem þú elskar mest?  Bíða þeir á hliðarlínunni á meðan þú ert inni á velli lífsins að sparka á milli tilgangslausum spjallboltum um allt og ekkert? Pólitískt gagnslaust þras, neikvæðar vangaveltur um um smáviðburði  í þjóðlífinu eða kjánalegt skens sem á að vera grín?

Fara þessi gagnslausu samskipti sem engu skila neinum fram maður á mann, í símanum eða á netinu? Ertu í félagsskap, klúbbum eða verkefnum sem engu skila þér lengur? Tenglsum sem einu sinn voru ef til vill gefandi og gagnleg og skemmtilegar stundir en teppa bara tíma þinn í dag, tíma sem þú gætir varið í notaleg, uppbyggjandi, kát, hlý og skemmtileg samskipti við þá sem þú elskar mest?

Pældu í því!

Svörin eru örugglega eins mismunandi og við erum mörg en tími okkar allra hér á jörð er einnota. Tíminn til að skoða dagskipulagið sitt frá a-ö er núna. Atferli þitt og hegðun yfir daginn er lífið þitt, í dögum þínum liggja sóknarfærin. Viltu betri heilsu, líkamlega, andlega og félagslega? Fleiri gleðistundir, meiri hamingju og sælu? Dýpri sátt, frið, ró, farsæld og lífsgæði? 

Njótið dagsins, já einmitt, hvernig?