Ragnhildur, sem er 26 ára gömul og hefur verið í fremstu röð golfkvenna á Íslandi undanfarin ár, kemur til með að spila á LET Access mótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Spurð hvað hafi orðið til þess að hún hafi tekið þá ákvörðun að fara út í atvinnumennsku á þessum tímapunkti segir Ragnhildur:
„Það er búið að blunda í mér í nokkur ár hvenær ég ætti að taka skrefið. Eftir að ég kláraði háskólastyrkinn minn síðasta vor þá vildi ég taka sumarið og haustið sem áhugamaður þar sem það voru svo mörg stórmót í boði eins og heimsmeistaramótið og EM einstaklinga. Þegar þessi mót voru búin þá ákvað ég að spila næsta mót sem atvinnumaður og nú er komið að því,“ segir Ragnhildur.

Reynir við opna bandaríska
Ragnhildur og Guðrún Brá Björgvinsdóttir eru fulltrúar Íslands á LET Access-mótaröðinni í ár og verða þær í eldlínunni á móti á Spáni í næstu viku.
„Dagskráin á mótaröðinni er ekki alveg fullmótuð í mars og apríl. Það er eitt mót í byrjun mars, annað vikuna eftir páska og síðan er mót í maí. Ég ætti að verða með á næstu tveimur mótum en þegar mótið verður í maí verð ég í Bandaríkjunum að útskrifast og í leiðinni ætla ég að taka þátt í úrtökumóti fyrir opna bandaríska meistaramótið,“ segir Ragnhildur.
Finnst þér þú alveg vera tilbúin að takast á við atvinnumennskuna?
„Já mér finnst það og ég tel að tímapunkturinn sé réttur. Ég sá það í úrtökumótunum bæði fyrir LPGA í ágúst og LET Evrópumótaröðina í desember að ég þarf bara aðeins að fínpússa hlutina, hafa trú á því sem ég er að gera og vita í raun að maður eigi heima þarna. Um leið og maður finnur fyrir því er ekkert sem getur stoppað mann.“ Ragnhildur var í æfingaferð með afrekshópi GR á Spáni í síðasta mánuði en undanfarnar vikur hefur hún verið við æfingar í Básum í Grafarholti og í Golfstöðinni Glæsibæ.

„Ég var í tvær vikur á Spáni í janúar en mínir staðir undanfarnar vikur þar sem ég dvel stóran hluta dagsins er í Básum, í Korpu og í Glæsibæ. Ef fólk hefur verið að leita að mér þá hef ég verið á einum af þessum stöðum og þess á milli hef ég farið í World Class.“ Atvinnumennskunni fylgir mikill kostnaður og Ragnhildur segist vera meðvituð um það. „Ég er með góða styrktaraðila eins og er og er alltaf að líta í kringum mig hvort ég geti bætt fleirum við. En ég er líka með gott bakland heima. Ég bý enn þá heima hjá foreldrum mínum og útgjöldin hjá mér dags daglega eru ekki rosalega mikil. Mest útgjöldin eru þegar kemur að þessum ferðalögum.
Tölur liggja vel fyrir mér
Ragnhildur er að ljúka námi við Eastern Kentucky-háskólann í Bandaríkjunum og útskrifast í maí með MBA gráðu í fjármálum.
„Ég hef alltaf haft áhuga á fjármálum og var til að mynda á hagfræðisviði í Verzló. Tölur yfir höfuð liggja vel fyrir mér og ég er stundum kölluð tölfræðivitleysingur úti í Bandaríkjunum. Það hefur sínar góðu og slæmu hliðar,“ segir Ragnhildur og hlær.

Ragnhildur átti góðu gengi að fagna með skólanum á golfvellinum og í fyrra var hún valin íþróttakona háskólans.
„Upphaflega átti ég að klára námið á fjórum árum en þetta endar í fimm árum vegna Covid, sem kom sér bara vel fyrir mig þar sem ég fékk þetta aukaár. Þetta er búinn að vera skemmtilegur tími og það var mikill heiður að verða fyrir valinu sem besta íþróttakona skólans. Það var svona rúsínan í pylsuendanum.
Ragnhildur hefur stundað golfíþróttina frá unga aldri og íþróttir almennt hafa verið fyrirferðarmiklar í nánasta umhverfi hennar. Bróðir hennar er vel kunnur knattspyrnumaður en hann er markvörðurinn Ögmundur Kristinsson, sem hefur verið atvinnumaður í tæpan áratug. Hann er hjá gríska liðinu Olympiakos en Ögmundur á að baki 19 leiki með íslenska Alandsliðinu.

Á nokkra titla í handboltanum
„Ég var fimm eða sex ára gömul þegar ég fékk mínar fyrstu golfkylfur en þá voru tveir bræður mínir byrjaðir í golfinu. Ég var síðan skráð á sumarnámskeið hjá GR og þá var ekki aftur snúið,“ segir Ragnhildur, sem einnig reyndi fyrir sér í handboltanum.
„Ég hætti í handboltanum 18 ára gömul og á nokkra Íslandsmeistaratitla með Fram í 3. og 4. flokki. Íþróttir hafa á mínu heimili verið númer eitt, tvö og þrjú frá því ég man eftir mér en mamma og pabbi hafa alltaf verið með þá skoðun að við þyrftum að mennta okkur. Mamma var í mörg ár liðsstjóri hjá Fram og kvennalandsliðinu í handbolta og Ögmundur bróðir hefur gert það gott á sínum ferli. Við Ögmundur erum dugleg að fylgjast með hvort öðru. Hann er með þeim fyrstu að senda mér skilaboð þegar það gengur vel eða illa og ég sömuleiðis gagnvart honum. Ég reyni að horfa á alla leiki sem hann spilar.“