Borgarleikhúsið frumsýnir laugardaginn 20. febrúar Sölumaður deyr, hið fræga leikrit Arthurs Miller, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Meðal leikara er Rakel Ýr Stefánsdóttir. Hún útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2019 og fer nú með fyrsta hlutverk sitt í atvinnuleikhúsi.

„Það er virkilega gaman að leika í þessu leikriti og kafa ofan í það, sérstaklega að fá tækifæri að vinna með Kristínu leikstjóra sem er virkilega klár og mikil fyrirmynd. Þetta er tímalaust verk um fjölskyldubönd og samfélag og maður fer beint inn í líf og hugarheim persóna,“ segir Rakel Ýr.

Aðalpersóna leikritsins er sölumaðurinn Willy Loman sem er sagt upp vinnunni og reynir að átta sig á hvað fór úrskeiðis í lífi hans. Leikritið var frumsýnt árið 1949 og hlaut Pulitzer-verðlaunin og Tony- verðlaunin. Það er orðið sígilt og er reglulega sett á svið víða um heim.

Áhugaverður karakter

Jóhann Sigurðarson fer með hlutverk Willy Loman og Sigrún Edda Björnsdóttir leikur Lindu, eiginkonu hans. Rakel Ýr fer með hlutverk yngsta barns þeirra, Happy. Miller skrifaði hlutverkið sem karlmannshlutverk en því er nú breytt í kvenhlutverk. „Það passar óskaplega vel við samtímann að Happy sé kvenkyns. Ég held að okkur í leikhópnum finnst nánast að Miller hafi gefið Kristínu hugboð í draumi um að þetta ætti að vera svona,“ segir Rakel. „Happy er yngsta barnið í fjölskyldunni sem berst fyrir að fá athygli. Hún býr yfir miklum lífskrafti og vilja til að ná langt. Hún vill gera allt til að standa undir væntingum föður síns og fjölskyldunnar.

,,Happy verður afar áhugaverður kvenkyns karakter í samtíma þar sem eru miklar kröfur um útlit og ímynd kvenna bæði út á við, í lífsstíl og á samfélagsmiðlum. Karakterinn sem kona öðlast nýjar leiðir sem hún getur notfært sér til að komast langt í lífinu.“

Áskoranir á hverjum degi

Rakel Ýr segist hlakka mjög til frumsýningar. „Ég er á nýjum vinnustað og fæst við nýjar áskoranir á hverjum degi. Það verður dásamlegt að frumsýna með öllu þessu stórkostlega fólki sem ég er að vinna með. Ég er búin að læra svo mikið á þessum tíma. Það er ómetanlegur skóli að fylgjast með starfi hússins og einnig Jóa og Sigrúnu Eddu vinna og eiga í samtali við þau. Ég hef síðan lært alveg gríðarlega mikið af Kristínu, sem er einstakur fræðibrunnur af lífi og listum.“