„Ég er svo sannar­lega til í að ræða rækju­kok­teilinn allan daginn,“ svarar Ólafur Örn Steinunnar Ólafs­son, veitinga­maður á Brút, að­spurður um nýjustu við­bótina á mat­seðli Brút, rækju­kok­teilinn.

Rétturinn var fastur liður í jóla­haldi lands­manna um ára­bil. Vin­sældirnar hafa dalað seinni ár en nú rís hann á ný af fullum krafti.

„Rækju­kok­teillinn var svo­lítið of­notaður. Ég er svo gamall að þegar ég var að læra til þjóns þá var rækju­kok­teill á mat­seðlinum. Hann seldist mikið og vel og hefur verið á jóla­borðum lands­manna, og er víða enn þá, af því að jólin snúast um hefðir.“

Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson, veitingamaður á Brút segir að það sé kominn tími á að rækjukokteilinn snúi aftur.

Að sögn Ólafs hefur hann reynt árum saman að koma rækju­kok­teilnum í tísku. „Það hefur ekki tekist fyrr en núna.“

Spurður um á­stæður þess, svarar hann: „Ég veit það ekki. Kannski höfum við ekki verið til­búin í kombakkið strax. Eins og öll tíska fer í hringi. Kannski erum við að upp­götva að þó að þetta hafi verið hall­æris­legt í ein­hvern tíma, þá er þetta ó­geðs­lega góður matur, skilurðu.“

Á Brút er rækju­kok­teillinn borinn fram með bleikri sósu hússins. „Við erum að­eins búin að poppa hana upp, það er smá chili í henni og hún er pínku bragð­meiri. En þetta er samt svona gamal­dags rækju­kok­teil­sósa. Svo eyddum við tölu­verðu púðri í að finna réttu rækjuna, þær þurfa að vera stórar. Við fundum frá­bærar risa­stórar rækjur, og notum avókadó og vegan kavíar úr þara.“