Karl Olgeirsson og orgeltríó hans gefa í dag út rafræna smáskífu með endurhljóðblöndun á laginu Allt í fína sem Raggi Bjarna og Ragga Gröndal sungu fyrir nokkrum misserum.

„Árið 2017 gáfum við út plötuna „Happy Hour með Ragga Bjarna“ og árið eftir héldum við stórtónleika í Háskólabíói og það var eiginlega fyrir tilviljun að ég rakst á upptöku af þessum tónleikum okkar þegar ég var eitthvað að taka til í Dropboxinu mínu,“ segir Karl í samtali við Fréttablaðið.

„Tónleikarnir voru teknir upp fyrir Sjónvarp Símans og sýndir fyrir réttum tveimur árum og þar sungu þau Ragga Gröndal og Raggi lagið Allt í fína. Og þegar þessi dúett með Röggu og Ragga kom upp, þá small bara eitthvað og mér fannst þetta eiga svo vel við núna,“ segir Karl.

Hlýlegur boðskapur

„Bæði af því að Raggi er nýfarinn og síðan er það bara boðskapurinn. Það er eitthvað svo hlýlegt að heyra hann segja að það verði allt í lagi,“ segir Karl um söng Ragga sem hann telur rétt að endurnýja nú þegar taugar fólks eru víða þandar til hins ýtrasta.

„Ég heyrði í strákunum í tríóinu með hvort það væri ekki bara sniðugt að mixa þetta almennilega og senda þetta frá okkur,“ segir Karl um félaga sína Ásgeir J. Ásgeirsson gítarleikara og trommarann Ólaf Hólm sem að vonum voru til í tuskið.

„Ég mixaði það bara upp á nýtt eins og þetta væri bara nýtt lag og það er að detta inn á þessar streymis­veitur, Spotify, YouTube og félaga, og svo fer það bara í útvarpið og fær vonandi einhverja spilun.“

„Er ekki allt í fína?“

„Ég hef verið píanóleikari Milljónamæringanna síðan árið 2000 og oftar en ekki söng Raggi með okkur. Hann kom gjarnan þegar ballið var hálfnað, tók nokkur lög og lét sig svo hverfa,“ segir Karl þegar hann rifjar upp það ævintýri sem var að spila með sínum góða fallna félaga.

„Hann átti það til að gleyma ráðningum og við urðum að hringja í hann samdægurs svo hann myndi örugglega mæta,“ heldur Karl áfram og segir að stundum hafi það gerst að Raggi var ekki mættur þegar hljómsveitin steig á svið. „Maður varð stressaður en svo mætti hann iðulega með bros á vör og sagði: „Er ekki allt í fína?“ og sá frasi varð mér innblástur að laginu.“

Æðisleg minning

Karl segir Ragga einnig oft hafa spurt hvort það væri „ekki allt í góðu?“ og þessi spurning hafi oftar en ekki verið það fyrsta sem hann sagði þegar hann steig á svið. „Þá var það „er ekki allt í góðu?“ eða „er ekki allt í fína?“. Þetta er eitthvað svona sem amma mín hefði sagt og er bara svo næs,“ segir Karl og rifjar upp að í fyrradag hafi verið liðin slétt tvö ár frá því tónleikarnir voru sýndir í Sjónvarpi Símans.

Karl segir Ragnheiði Gröndal vera náttúruafl þannig að það eru engir smá kraftar sem Orgeltríóið leysti úr læðingi.

„Tónleikarnir voru útgáfutónleikar plötunnar sem við gerðum með Ragga og voru haldnir í janúar 2018. Þeir áttu fyrst að vera í byrjun október 2017 en við urðum að fresta þeim vegna þess að Raggi veiktist og fékk slæma lungnabólgu. Þannig að við vorum voðalega glaðir að geta haldið þessa tónleika þarna nokkrum mánuðum síðar,“ segir Karl.

„Maður fann það alveg, því ég hafði unnið með Ragga svo lengi, að það var farið að draga af honum en þetta var svo gaman. Hann hafði svo gaman af þessu og setti svo mikinn metnað í þetta þannig að þetta er bara æðisleg minning.“

Náttúruaflið Ragga

Raggi Bjarna var goðsögn í lifanda lífi og Karl dregur ekkert úr því að þegar Ragnheiður Gröndal hafi slegist með í för hafi undur átt sér stað á sviðinu. „Ragga er ein af þessum fáu sem eru bara eins og náttúruafl. Hún bara breytir öllu í kringum sig. Þannig að það var alveg geggjað að hafa hana með,“ segir Karl og bætir við að hún bæti einhverju alveg sérstöku við lagið þegar hún syngur það.