Soffía Auður Birgis­dóttir, þýðandi og bók­mennta­fræðingur, þýddi sjálfs­ævi­sögu Virginiu Woolf sem ber heitið Út­línur liðins tíma. Soffía er vel kunnug Virginiu Woolf en hún hefur áður þýtt eftir hana skáld­söguna Or­landó og smá­sögu sem birtist í þýðinga­safninu Smá­sögur heimsins.

„Hún er ein­fald­lega upp­á­halds­höfundurinn minn. Ég skrifaði BA rit­gerð um hana fyrir þrjá­tíu og eitt­hvað árum,“ segir Soffía Auður og hlær.

Breska skáld­konan Virginia Woolf er einn þekktasti rit­höfundur sögunnar en sjálfs­ævi­saga hennar Út­línur liðins tíma (e. Mo­ments of Being) kom ekki út fyrr en 1976, rúmum þremur ára­tugum eftir dauða hennar.

„Hún lýsir bernsku sinni og upp­vaxtar­árum, for­eldrum og syst­kinum, á­tökum á milli kyn­slóða. For­eldrar hennar og sér­stak­lega faðir hennar voru svona dæmi­gerðir full­trúar hins viktoríanska feðra­veldis. En hún og syst­kini hennar, sér­stak­lega Vanessa systir hennar sem var list­málari og yngri bræðurnir, voru nú­tíma­fólk sem gjör­breyttu svo lifnaðar­háttum sínum þegar þau losnuðu undan oki feðra­veldisins þegar faðir þeirra dó,“ segir Soffía Auður.

Breska skáldkonan Virginia Woolf (1882-1941) átti stormasama ævi.
Fréttablaðið/Getty

Geð­ræn veikindi

Virginia Woolf átti erfitt líf og þjáðist nær alla ævi af geð­rænum veikindum. Hún reyndi nokkrum sinnum að taka sitt eigið líf og lést 59 ára að aldri árið 1941 með því að drekkja sér í Ouse-fljótinu. Soffía Auður segir þessa erfið­leika koma glöggt fram í bókinni.

„Það er talið að hennar geð­rænu vanda­mál eigi upp­tök í gríðar­legum á­föllum í æsku sem byrja þegar hún er þrettán ára gömul og missir móður sína. Hún lýsir því náttúr­lega mjög vel í bókinni, þeim á­hrifum sem and­lát móður hennar hafði á hana og allt fjöl­skyldu­lífið. Síðan tveimur árum seinna þá deyr systir hennar sem þá var ný­gift, barns­hafandi og mjög hamingju­söm, það var henni ó­skiljan­legur harm­leikur. Nokkrum árum seinna deyr bróðir hennar 26 ára, þannig þetta eru svona endur­tekin á­föll. Svo fléttast líka inn í kyn­ferðis­leg á­reitni eða mis­notkun sem hún lýsir þarna að­eins, sem stjúp­bróðir hennar beitti hana.“

Elskaði konur og karla

Mikið hefur verið rætt um kyn­hneigð Virginiu Woolf í gegnum tíðina. Hún giftist Leonard Woolf árið 1912, þá þrí­tug, en átti einnig í ástar­sam­böndum við konur, frægast þeirra við rit­höfundinn Vita Sackvil­le-West.

„Þótt hún hefði gifst og átt gott hjóna­band þá var hún kannski meira hneigð til kvenna. Hennar helsta ást­kona var Vita Sackvil­le-West sem hún byggir karakterinn Or­landó að miklu leyti á, hún fléttar eigin­lega saman sinn eigin karakter og karakter Vitu í Or­landó, finnst mér,“ segir Soffía Auður.

Eftir að Lesli­e Stephen, faðir Virginiu Woolf, lést árið 1904 flutti fjöl­skyldan frá Kensington í Blooms­bury-hverfið í vestur­hluta Lundúna. Þar fékk skáld­gáfa Virginiu að blómstra í hinum svo­kallaða Blooms­bury-hóp sem hún var partur af á­samt ýmsum öðrum lista­mönnum.

„Eftir að þau syst­kinin flytja í Blooms­bury-hverfið þá gerast þau bóhemar og stofna hóp lista­manna og fræði­manna sem hittust heima hjá þeim. Þar var sam­kyn­hneigð bara eðli­legur hlutur, fullt af sam­kyn­hneigðu fólki og þótti ekkert mál. Það er mjög merki­legt að lesa það. Að mörgu leyti erum við í­halds­samari held ég en sumir voru á þessum tíma,“ segir Soffía Auður.

Útlínur liðins tíma eftir Virginiu Woolf.
Kápa/Una útgáfuhús

Granít og regn­bogi

Soffía Auður hefur fjallað tölu­vert um ævi­sögur og sjálfs­ævi­sögur á ferli sínum sem bók­mennta­fræðingur. Til að mynda fjallaði doktors­rit­gerð hennar um Þór­berg Þórðar­son og mörk skáld­skapar og sjálfs­ævi­sögu í verkum hans.

„Í þessari bók er Virginia ekki bara að skrifa sjálfs­ævi­sögu eða endur­minningar sínar heldur er hún sí­fellt að velta fyrir sér forminu og hvernig sé hægt að lýsa mann­eskju. Þetta er rit sem er mjög á­huga­vert í því sam­hengi. Hún talar um að það sé ekki hægt að lýsa mann­eskju, að það sé á­líka mögu­legt og að binda saman granít og regn­boga, þar sem stað­reyndirnar eru granítið. Hins vegar sé sú ævi­saga einskis virði sem ekki reynir að nota liti regn­bogans til að varpa ljósi á karakter,“ segir hún.

Líf okkar allra líður að mestu leyti í því sem hún kallar til­vistar­leysi. Svo koma það sem hún kallar til­vistar­augna­blik.

Til­vistar­augna­blik lífsins

Út­línur liðins tíma fjallar að miklu leyti um eðli og gildi lífs hverrar mann­eskju.

„Annað sem hún er að velta fyrir sér, það er að líf okkar allra líður að mestu leyti í því sem hún kallar til­vistar­leysi. Svo koma það sem hún kallar til­vistar­augna­blik, eða mo­ments of being á ensku, sem verða ein­hver svona upp­ljómunar­augna­blik. Og hvernig á að vefa þetta saman? Hún er sí­fellt að velta þessu fyrir sér og ég held að lykil­hug­takið hjá henni séu hug­hrif, þú getur kannski kallað fram ævi þína meira í hug­hrifum og kallað fram minningar í gegnum hug­hrif en líka í gegnum hljóð og lykt, sem er náttúr­lega það sama og Proust talar um,“ segir Soffía Auður.

Hún bætir því við að þessi lífs­speki Virginiu Woolf sé ef til vill upp­spretta þess af hverju hún gerðist rit­höfundur.

„Svo tengir hún þessi til­vistar­augna­blik og segir að alltaf þegar hún upp­lifi eitt­hvað svo­leiðis að þá finni hún svo sterka þörf hjá sér til að lýsa því og vinna úr því og þar liggi grund­völlurinn að því að hún sé rit­höfundur. Hún verði að lýsa þessum augna­blikum og gott ef hún tali ekki um heim­speki sína í þessu sam­hengi.“