Mynd­listar­ráð til­kynnti í dag um til­nefningar til Ís­lensku mynd­listar­verð­launanna. Verð­launin eru nú haldin í sjötta sinn en mark­mið þeirra er að heiðra og vekja at­hygli á því sem vel er gert jafn­framt því að hvetja til nýrrar list­sköpunar.

Verð­launin verða veitt 16. mars við há­tíð­lega at­höfn í Iðnó. Þá verða einnig veitt verð­laun fyrir heiðursviður­kenningu, á­huga­verðasta endur­litið, á­huga­verðustu sam­sýninguna og fyrir út­gefið efni.

Finnbogi Pétursson sýndi á Kleifum á Blönduósi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Finnbogi Pétursson - Flói

Í flokknum Mynd­listar­maður ársins er Finn­bogi Péturs­son til­nefndur fyrir sýninguna Flói á Kleifum sem sett var upp í Hil­lebrandts­húsinu í gamla bænum á Blöndu­ósi. Í rök­stuðningi dóm­nefndar segir meðal annars:

„Finn­bogi hefur lengi leitast við að birta okkur hljóð og bylgjur sem eru alla jafna ó­sýni­legar. Ver­öldin er meira en það sem við blasir; hún hefur líka tíðni, langar bylgjur og stuttar, grunnar og djúpar, og er að því leyti frekar tón­verk en mál­verk.“

Hrafnkell Sigurðsson fyrir framan eitt af verkum sínum á sýningunni Upplausn.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hrafn­kell Sigurðs­son - Upplausn

Hrafn­kell Sigurðs­son er til­nefndur sem mynd­listar­maður ársins fyrir sýninguna Upp­lausn sem sett var upp á yfir 450 aug­lýsinga­skjáum fyrir­tækisins Bill­board víðs vegar um höfuð­borgar­svæðið í verk­efninu Aug­lýsinga­hlé.

„Það er mat dóm­nefndar að með því að nýta aug­lýsinga­skiltin hafa Hrafn­kell og fleiri opnað nýja leið til að miðla mynd­list en Hrafn­kell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skila­boðunum úr sýningar­salnum út í hvers­dags­legan veru­leika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda,“ segir í rök­stuðningi dóm­nefndar.

Ingi­björg Sigur­jóns­dóttir á sýningu sinni De rien í Kling & Bang.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ingi­björg Sigur­jóns­dóttir - De rien

Ingi­björg Sigur­jóns­dóttir er til­nefnd til sömu verð­launa fyrir sýninguna De rien í Kling & Bang. Í rök­stuðningi dóm­nefndar segir meðal annars:

„Á sýningunni De rien, í Kling og Bang í júní 2022 hélt hún upp­teknum hætti með verkum úr jafn au­virði­legum efni­viði og sandi og pappír.

Þótt formið væri dregið niður í ein­földustu gerð varð að standa vörð um verkin á opnuninni svo börn, sem slitu sig úr vörslu for­eldra sinna, þyrluðu þeim ekki upp í byl eða blaða­fjúk þegar þau geystust fram­hjá þeim í eltinga­leik um ganga hús­næðisins. Fljótt á litið virðist ætlun Ingi­bjargar vera að gera sem minnst úr nær engu.“

Rósa Gísla­dóttir á sýningu sinni Loft­skurði í Lista­safni Reykja­víkur, Ásmundarsafni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Rósa Gísla­dóttir

Þá er Rósa Gísla­dóttir til­nefnd fyrir tvær sýningar, annars vegar Loft­skurð í Lista­safni Reykja­víkur og hins vegar Safn Rósu Gísla­dóttur í Lista­safni Einars Jóns­sonar.

„Á fjöru­tíu ára ferli í högg­mynda­list hefur Rósa sýnt víða og hlotið viður­kenningar fyrir. Þó eru verk hennar frekar hljóð­lát, fyrst og fremst hug­leiðingar um efni og form og sam­hengi hlutanna. Í þeim má lesa sam­tal hennar við lista­söguna, einkum við módern­isma og fram­úr­stefnu­list tuttugustu aldar sem enn er til úr­vinnslu á okkar póst­módernísku tímum,“ segir í rök­stuðningi dóm­nefndar.

Ás­gerður Birna Björns­dóttir er tilnefnd til Hvatningarverðlauna.
Mynd/Aðsend

Ás­gerður Birna Björns­dóttir - Snertitaug

Í flokknum Hvatningar­verð­laun er Ás­gerður Birna Björns­dóttir til­nefnd fyrir sýninguna Snertitaug í Lista­safni Reykja­víkur.

„Að mati dóm­nefndar var sýningin á­hrifa­mikil og virkni tækjanna og starf­semi líf­veranna, sem á sér stað að stórum hluta handan beinnar skynjunar mannsins, beindi sjónum að grunn­eigindum lífs og vaxtar á jörðinni og oft á tíðum klunna­legra að­ferða mannsins til þess að virkja þessa orku og stýra henni,“ segir í rök­stuðningi.

Elísa­bet Birta Sveins­dóttir er tilnefnd fyrir sýninguna Mythbust.
Mynd/Aðsend

Elísa­bet Birta Sveins­dóttir - Mythbust

Elísa­bet Birta Sveins­dóttir er einnig til­nefnd í sama flokki fyrir sýninguna Myt­hbust í Kling & Bang. Í rök­stuðningi dóm­nefndar segir meðal annars:

„Elísa­bet Birta tekur fullan þátt í ver­öldinni kringum sig og sýning hennar Myt­hbust í Kling og Bang, sem hún er til­nefnd til hvatningar­verð­launa Mynd­listar­ráðs fyrir, eru harka­legir hnefa­leikar í heimi sem reynir að skil­yrða ein­stak­linginn og þröngva honum til að leika leik hefð­bundinnar hegðunar.“

Egill Logi Jónas­son.
Mynd/Aðsend

Egill Logi Jónas­son - Þitt besta er ekki nóg

Þá er Egill Logi Jónas­son til­nefndur fyrir sýninguna Þitt besta er ekki nóg í Lista­safninu á Akur­eyri.

„Það er mat dóm­nefndar að Agli Loga takist að fanga lundar­fars­lega loft­vog með mál­verkum sínum á sýningunni Þitt besta er ekki nóg í Lista­safninu á Akur­eyri, sem hann bregður upp sem meðali við depurð og drunga, eða til að fagna dá­semdum til­verunnar,“ segir í rök­stuðningi dóm­nefndar.