Myndlistarráð tilkynnti í dag um tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna. Verðlaunin eru nú haldin í sjötta sinn en markmið þeirra er að heiðra og vekja athygli á því sem vel er gert jafnframt því að hvetja til nýrrar listsköpunar.
Verðlaunin verða veitt 16. mars við hátíðlega athöfn í Iðnó. Þá verða einnig veitt verðlaun fyrir heiðursviðurkenningu, áhugaverðasta endurlitið, áhugaverðustu samsýninguna og fyrir útgefið efni.

Finnbogi Pétursson - Flói
Í flokknum Myndlistarmaður ársins er Finnbogi Pétursson tilnefndur fyrir sýninguna Flói á Kleifum sem sett var upp í Hillebrandtshúsinu í gamla bænum á Blönduósi. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:
„Finnbogi hefur lengi leitast við að birta okkur hljóð og bylgjur sem eru alla jafna ósýnilegar. Veröldin er meira en það sem við blasir; hún hefur líka tíðni, langar bylgjur og stuttar, grunnar og djúpar, og er að því leyti frekar tónverk en málverk.“

Hrafnkell Sigurðsson - Upplausn
Hrafnkell Sigurðsson er tilnefndur sem myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Upplausn sem sett var upp á yfir 450 auglýsingaskjáum fyrirtækisins Billboard víðs vegar um höfuðborgarsvæðið í verkefninu Auglýsingahlé.
„Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og fleiri opnað nýja leið til að miðla myndlist en Hrafnkell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skilaboðunum úr sýningarsalnum út í hversdagslegan veruleika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir - De rien
Ingibjörg Sigurjónsdóttir er tilnefnd til sömu verðlauna fyrir sýninguna De rien í Kling & Bang. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:
„Á sýningunni De rien, í Kling og Bang í júní 2022 hélt hún uppteknum hætti með verkum úr jafn auvirðilegum efniviði og sandi og pappír.
Þótt formið væri dregið niður í einföldustu gerð varð að standa vörð um verkin á opnuninni svo börn, sem slitu sig úr vörslu foreldra sinna, þyrluðu þeim ekki upp í byl eða blaðafjúk þegar þau geystust framhjá þeim í eltingaleik um ganga húsnæðisins. Fljótt á litið virðist ætlun Ingibjargar vera að gera sem minnst úr nær engu.“

Rósa Gísladóttir
Þá er Rósa Gísladóttir tilnefnd fyrir tvær sýningar, annars vegar Loftskurð í Listasafni Reykjavíkur og hins vegar Safn Rósu Gísladóttur í Listasafni Einars Jónssonar.
„Á fjörutíu ára ferli í höggmyndalist hefur Rósa sýnt víða og hlotið viðurkenningar fyrir. Þó eru verk hennar frekar hljóðlát, fyrst og fremst hugleiðingar um efni og form og samhengi hlutanna. Í þeim má lesa samtal hennar við listasöguna, einkum við módernisma og framúrstefnulist tuttugustu aldar sem enn er til úrvinnslu á okkar póstmódernísku tímum,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Ásgerður Birna Björnsdóttir - Snertitaug
Í flokknum Hvatningarverðlaun er Ásgerður Birna Björnsdóttir tilnefnd fyrir sýninguna Snertitaug í Listasafni Reykjavíkur.
„Að mati dómnefndar var sýningin áhrifamikil og virkni tækjanna og starfsemi lífveranna, sem á sér stað að stórum hluta handan beinnar skynjunar mannsins, beindi sjónum að grunneigindum lífs og vaxtar á jörðinni og oft á tíðum klunnalegra aðferða mannsins til þess að virkja þessa orku og stýra henni,“ segir í rökstuðningi.

Elísabet Birta Sveinsdóttir - Mythbust
Elísabet Birta Sveinsdóttir er einnig tilnefnd í sama flokki fyrir sýninguna Mythbust í Kling & Bang. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:
„Elísabet Birta tekur fullan þátt í veröldinni kringum sig og sýning hennar Mythbust í Kling og Bang, sem hún er tilnefnd til hvatningarverðlauna Myndlistarráðs fyrir, eru harkalegir hnefaleikar í heimi sem reynir að skilyrða einstaklinginn og þröngva honum til að leika leik hefðbundinnar hegðunar.“

Egill Logi Jónasson - Þitt besta er ekki nóg
Þá er Egill Logi Jónasson tilnefndur fyrir sýninguna Þitt besta er ekki nóg í Listasafninu á Akureyri.
„Það er mat dómnefndar að Agli Loga takist að fanga lundarfarslega loftvog með málverkum sínum á sýningunni Þitt besta er ekki nóg í Listasafninu á Akureyri, sem hann bregður upp sem meðali við depurð og drunga, eða til að fagna dásemdum tilverunnar,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.