Til­nefningar til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna og Ís­lensku glæpa­sagna­verð­launanna Blóð­dropans 2022 voru kynntar á Kjarvals­stöðum í kvöld.

Fé­lag ís­lenskra bóka­út­gef­enda (FÍ­BÚT) hefur tekið að sér fram­kvæmd Blóð­dropans og til­nefndar bækur fá nú til­nefningar­miða í sömu stærð og til­nefningar til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna og sömu upp­hæð í verð­laun frá fé­laginu.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra er meðal þeirra sem er til­nefnd til Blóð­dropans á­samt Ragnari Jónas­syni og tók hún á móti til­nefningunni frá kollega sínum Lilju Al­freðs­dóttur, menningar- og við­skipta­ráð­herra.

Bæði verð­laun verða af­hent um mánaða­mótin janúar-febrúar á komandi ári af for­seta Ís­lands, Guðna Th. Jóhannes­syni. Verð­launa­upp­hæðin er ein milljón króna fyrir hvert verð­launa­verk en FÍ­BÚT kostar verð­launin.

„Kosturinn við þessi verð­laun að mínu mati er það að það er alltaf eitt­hvað sem kemur á ó­vart og það er kannski þess vegna sem þau hafa lifað svona lengi,“ segir Heiðar Ingi Svans­son, for­maður FÍ­BÚT, um til­nefningarnar í ár.

„Auð­vitað er þetta mjög sterkt skáld­sagna­ár núna, um það er ekki deilt. Það er held ég eitt­hvað sem við getum verið sam­mála um. Það er til dæmis í þeim flokki mjög erfitt val.“

Lista yfir til­nefndar bækur og höfunda þeirra má sjá hér að neðan á­samt um­sögn dóm­nefndar:

Auð­vitað er þetta mjög sterkt skáld­sagna­ár núna, um það er ekki deilt. Það er held ég eitt­hvað sem við getum verið sam­mála um.

Mynd/Samsett

Til­nefningar til Ís­lensku glæpa­sagna­verð­launanna Blóð­dropans

Eva Björg Ægis­dóttir - Strákar sem meiða

Út­gefandi: Ver­öld

Á­huga­verð saka­mála saga sem tekur á ljótum sam­fé­lags­legum vanda­málum. Hefndin ræður ríkjum þegar draugur for­tíðar bankar upp á. Höfundur skapar raun­sæja mynd þar sem auð­velt er að tengjast per­sónum og at­burðum.

Lilja Sigurðar­dóttir - Drep­s­vart hraun

Út­gefandi: JPV út­gáfa

Æsi­spennandi og skemmti­leg saga sem heldur lesandanum í gíslingu. Höfundur dansar fína línu á milli raun­veru­leikans, vísinda­skáld­skapar og spennu­sögu.

Ragnar Jónas­son og Katrín Jakobs­dóttir - Reykja­vík

Út­gefandi: Ver­öld

Spennandi sögu­leg glæpa­saga með ó­væntum út­spilum. Flæði bókarinnar er gott og sam­starf höfundanna gengur mjög vel upp.

Skúli Sigurðs­son - Stóri bróðir

Út­gefandi: Drápa

Ný rödd hefur kveðið sér hljóðs í heimi ís­lenskra glæpa­sagna og það af fullum krafti. Marg­slungin bók þar sem fjöl­margar sögur fléttast saman frá ó­líkum sjónar­hornum. Bókin er raun­sæ og tekur á mál­efnum sem hafa verið mikið í um­ræðunni.

Stefán Máni - Hungur

Út­gefandi: Sögur út­gáfa

Hrotta­leg glæpa­saga sem fær lesandann til að staldra við og hug­leiða hvort hann eigi að lesa á­fram. Breysk­leikar og á­skoranir sögu­per­sóna tvinnast saman við spennandi sögu­þráðinn.

Dóm­nefnd skipuðu: Sig­ríður Kristjáns­dóttir, for­maður dóm­nefndar, Ás­laug Óttars­dóttir og Einar Ey­steins­son.

Mynd/Samsett

Til­nefningar til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna í flokki barna- og ung­menna­bóka

Arn­dís Þórarins­dóttir - Koll­hnís

Út­gefandi: Mál og menning

Á­huga­verð, þörf og marg­laga saga. Aðal­per­sónan tekst á við flóknar á­skoranir og lesandinn er vakinn til um­hugsunar um mikil­væg mál­efni á borð við ein­hverfu, ein­elti og ó­sætti innan fjöl­skyldu. Textinn flæðir mjög vel, húmorinn er sjaldnast langt undan og rödd sögu­mannsins skýr og á­kveðin þótt hann lesi ekki alltaf rétt í að­stæður.

Elísa­bet Thor­odd­sen - Allt er svart í myrkrinu

Út­gefandi: Bóka­beitan

Vel skrifuð frá­sögn sem fjallar um hin­segin ástir, dul­ræn öfl, anda­glas og drauga. At­burða­rásin er spennandi og sögu­þráðurinn út­hugsaður. Per­sónur þurfa að takast á við flókin verk­efni en í því skyni er mikil­vægt að þau öðlist skilning á for­tíðinni, vinni saman og treysti á sjálfan sig. Sagan er glæsi­leg frum­raun höfundar.

Ei­ríkur Örn Norð­dahl og Elías Rúni, mynd­höfundur - Frankens­leikir

Út­gefandi: Mál og menning

Á­huga­verð og ný­stár­leg saga sem sýnir jóla­sveinana í nýju og ó­væntu ljósi. Per­sónu­sköpunin er for­vitni­leg en við sögu koma upp­á­tækja­samir krakkar, kassa­laga for­eldrar og niður­bútaðir jóla­sveinar. Í verkinu fléttast lista­vel saman kímni, fantasía og hroll­vekja þannig að úr verður frá­sögn sem er allt í senn fyndin, ó­hugnan­leg og grípandi.

Lóa Hlín Hjálm­týs­dóttir - Héra­gerði

Út­gefandi: Salka

Kostu­leg saga þar sem hvers­dagurinn er gerður að ævin­týri. Með gaman­semi og næmni fyrir mann­legum til­finningum er varpað ljósi á flókin fjöl­skyldu­bönd, vand­ræða­legar upp­á­komur og ríku­lega sköpunar­hæfni barna. Vandaðar mynd­lýsingar styðja vel við frá­sögnina og saman mynda þau list­ræn heild sem höfðar til les­enda á öllum aldri.

Sig­rún Eld­járn - Ó­freskjan í mýrinni

Út­gefandi: Mál og menning

Stór­skemmti­leg frá­sögn sem markast af spennu, dul­úð og kátínu. Unnið er á frum­legan hátt með ís­lenska þjóð­trú. Textinn vísar jafnt í for­tíð og nú­tíð, heims­bók­menntir og dægur­menningu þannig að úr verður snjöll og vel­heppnuð blanda. Ríku­legar og fal­legar mynd­lýsingar auðga söguna og sveipa hana töfra­ljóma.

Dóm­nefnd skipuðu: Guð­rún Stein­þórs­dóttir, for­maður dóm­nefndar, Gunnar Björn Mel­sted og Helga Ósk Hreins­dóttir.

Mynd/Samsett

Til­nefningar til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna í flokki fræði­bóka og rita al­menns efnis

Árni Snævarr - Ís­land Babýlon : Dýra­fjarðar­málið og sjálf­stæðis­bar­áttan í nýju ljósi

Út­gefandi: Mál og menning

Skemmti­leg frá­sögn um lítt þekktan kafla í sögunni sem sýnir sjálf­stæðis­bar­áttuna frá nýju sjónar­horni. Höfundur leitast við að setja Ís­land í sam­hengi við byltinga­sögu Evrópu. Þetta er vand­lega unnið verk sem fær les­endur til að endur­meta stöðu Ís­lands í um­heiminum.

Kristín Svava Tómas­dóttir - Far­sótt: Hundrað ár í Þing­holts­stræti 25

Út­gefandi: Sögu­fé­lag

Vandað verk sem veitir inn­sýn í þróun heil­brigðis- og vel­ferðar­mála á Ís­landi. Sagan er vel skrifuð, út frá sjónar­horni húss sem gegndi ó­líkum en mikil­vægum hlut­verkum í þróun nú­tíma sam­fé­lags. Margar eftir­minni­legar per­sónur úr öllum þjóð­fé­lags­hópum koma við sögu og ríku­legt mynd­efni styður vel við frá­sögnina. Fal­leg og fróð­leg bók.

Ragnar Stefáns­son - Hve­nær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarð­skjálfta

Út­gefandi: Skrudda

Stór­fróð­legt yfir­lits­rit um jarð­skjálfta sem lærðir og leikir munu hafa gagn og gaman af. Hér birtist af­rakstur ára­tuga rann­sókna eftir einn af okkar helstu sér­fræðingum um efnið og er hann bjart­sýnn á að unnt verði að segja fyrir um jarð­skjálfta. Með vönduðum texta og lýsandi skýringar­myndum auð­veldar höfundur al­menningi skilning á jarð­skjálftum.

Stefán Ólafs­son - Bar­áttan um bjargirnar: Stjórn­mál og stétta­bar­átta í mótun ís­lensks sam­fé­lags

Út­gefandi: Há­skóla­út­gáfan

Í bókinni greinir höfundur efna­hags­líf, völd og stjórn­mál á Ís­landi með vand­lega rök­studdum mál­flutningi. Greiningin byggir á um­fangs­miklum gögnum sem sett eru fram í skýrum og lýsandi mynd­ritum þar sem þróun á ís­lensku sam­fé­lagi er sett í al­þjóð­legt sam­hengi. Slíkt rit er nauð­syn­legt fyrir stjórn­mála­um­ræðu á Ís­landi.

Þor­steinn Gunnars­son - Nes­stofa við Sel­tjörn: Saga hússins, endur­reisn og byggingar­list

Út­gefandi: Þjóð­minja­safn Ís­lands

Hús okkar fyrsta land­læknis, sem byggt var á árunum 1761-1767 á sér merki­lega sögu. Ritið á erindi til allra sem er um­hugað um hús­verndun og varð­veislu menningar­arfsins. Líkt og við byggingu og endur­gerð Nes­stofu hefur höfundur verksins nostrað við hvert smá­at­riði. Með vandaðri fram­setningu mynda les­endur sterk tengsl við húsið, íbúa þess, starf­semi og sögu.

Dóm­nefnd skipuðu: Skúli Páls­son, for­maður dóm­nefndar, Margrét Auðuns­dóttir og Sara Hrund Helgu­dóttir.

Mynd/Samsett

Til­nefningar til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna í flokki skáld­verka

Auður Ava Ólafs­dóttir - Eden

Út­gefandi: Bene­dikt bóka­út­gáfa

Grípandi sam­tíma­saga um lífið, á­skoranir þess en ekki síður fegurð hvers­dags­leikans. Verk sem á­varpar mikil­vægi þess að rækta nær­um­hverfi sitt á sama tíma og huga þarf að náunganum. Höfundur fangar grósku mann­legs eðlis af ein­stakri næmni. Sagan endur­speglar á vandaðan hátt mis­munandi kima sam­fé­lagsins og mót­byr dag­legs lífs. Frá­sögn sem vekur hug­hrif og sam­kennd lesandans en skilur jafn­framt eftir á­leitnar spurningar.

Dagur Hjartar­son - Ljósa­gangur

Út­gefandi: JPV út­gáfa

Höfundur nær á ein­stakan hátt að skapa verk sveipað eigin­leikum ljóðs og skáld­sögu. Í reyk­vískum veru­leika fléttast lög­mál eðlis­fræðinnar og ástarinnar saman á ó­venju­legan hátt þar sem lesandinn hittir fyrir ó­lík­legar hetjur og skúrka. Spennan rís takt­fast með fram­vindu sögunnar og heldur lesandanum hug­föngnum og fullum eftir­væntingar. Sagan er frum­leg, spennandi og í takt við stíl­brögð ljóð­listarinnar skilur hún eftir rými til hug­leiðinga.

Kristín Ei­ríks­dóttir - Tól

Út­gefandi: JPV út­gáfa

Á­hrifa­mikið sam­tíma­verk um napran raun­veru­leika sem mörgum er hulinn. Fram­setningin er frum­leg og tekst að vera nær­gætin en stuðandi á sama tíma. Lesanda er gefin inn­sýn í breysk­leika ein­stak­lingsins í sam­fé­lagi sem oft er van­búið til þess að bregðast við. Án þess að setja sig í dómara­sætið nær höfundur að varpa fram spurningum sem skilja mikið eftir sig. Marg­laga verk sem lætur engan ó­snortinn.

Pedro Gunn­laugur Garcia - Lungu

Út­gefandi: Bjartur

Töfrandi og vel fléttað verk sem teygir anga sína vítt og breitt í tíma; fullt af frá­sagnar­gleði og fjöl­skrúðugum per­sónum. Sagan rýnir í sam­fé­lagið á frum­legan hátt þar sem fram­vinda verksins og af­drif per­sóna kemur sí­fellt á ó­vart. Höfundur heldur vel á þræðinum í ættar­sögu sem tekst á við mis­munandi við­horf kyn­slóða til lífsins og á­skorana þess. Verk sem spyr á­leitinna spurninga og dvelur lengi hjá lesandanum.

Sig­ríður Haga­lín Björns­dóttir - Hamingja þessa heims: Riddara­saga

Út­gefandi: Bene­dikt bóka­út­gáfa

Höfundur fetar nýja slóð frá fyrri verkum sínum og freistar þess að fylla upp í tíma­bil Ís­lands­sögunnar sem lítið er vitað um. Vísanir í annála, blæ­brigði og stíll skapa metnaðar­fullt verk sem skrifað er af virðingu fyrir því liðna, jafnt per­sónum sem tíðar­anda. Það. Það fléttast sömu­leiðis saman við mál­efni sam­tímans á frum­legan hátt. Úr verður grípandi, heild­stætt verk sem fangar at­hygli les­enda um sam­fé­lagið og þróun þess, allt frá fyrri tímum til dagsins í dag.

Dóm­nefnd skipuðu: Kamilla Guð­munds­dóttir, for­maður dóm­nefndar, Andri Yrkill Vals­son og Þor­valdur Davíð Kristjáns­son.