Héðinn Unn­steins­son, sér­fræðingur í for­sætis­ráðu­neytinu og for­maður Geð­hjálpar er nýjasti gesturinn í Pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Héðinn, sem starfaði um ára­bil hjá Al­þjóða Heil­brigðis­stofnunninni, hefur síðast­liðin 25 ár unnið að geð­heil­brigðis­málum.

Héðinn skrifaði bókina ,,Vertu Úlfur” um reynslu sína af geð­heil­brigðis­kerfinu. Bókin, sem hlaut bók­mennta­verð­laun, var lengi í vinnslu, enda um­fjöllunar­efnið erfitt. Nú hefur einnig verið sett upp leik­verk um efni bókarinnar:

,,Það var mjög sér­stakt að sitja og horfa á loka­rennsli af leik­ritinu. Það var súrrealísk upp­lifun að sitja úti í sal og sjá 25 ár ævi sinnar sett á svið. Ég hélt fyrir augun í korter, en ég er mjög á­nægður með út­komuna og þau gerðu þetta gríðar­lega vel,” segir Héðinn, sem var lengi að skrifa bókina:

,,Ég man að ég byrjaði að skrifa bókina í 3. per­sónu, af því að það var allt of sárs­auka­fullt að skrifa hana í fyrstu per­sónu. Þannig að ég byrjaði bara að skrifa ,,hann” og svo færði ég mig yfir í aðra per­sónu og skrifaði ,,þú” og svo endaði ég loksins í fyrstu per­sónu. Ég var með frá­bæra rit­stjóra sem hjálpuðu mér að ná reiðinni út úr bókinni og tíminn vann mjög mikið með henni líka. Þegar það er verið að fjalla um reynslu af þessu tagi verður að fá að líða á­kveðinn tími.”

Gekk á milli banka og til­kynnti um hrun

Héðinn segir í þættinum meðal annars frá tíma­bili þar sem hann fór í mikið of­lætis­á­stand síðla sumars 2008 og gekk á milli banka og til­kynnti úti­bús­stjórum að bankarnir væru að fara á hausinn.

,,Ég var bara alveg viss um að bankarnir væru að fara. Maður hafði gests auga eftir að hafa búið lengi er­lendis og var vissu um þetta. Þannig að 12. ágúst 2008 fór ég og tók alla peningana mína út úr bankanum og segi við banka­gjald­kerann og úti­bús­stjórann að Kaup­þing sé að fara á hausinn og fer svo líka í Spari­sjóðinn og bið gjald­kerann þar um að vara úti­bús­stjórann við að Spari­sjóðurinn sé líka á leiðinni á hausinn. Eftir það var hringt í pabba og ég var nauðungar­vi­staður eftir þetta. Þetta raun­gerðist svo tveimur mánuðum síðar.

En ég tek það fram að ég var ekki nauðungar­vi­staður út af þessum eina at­burði. En það er samt á­huga­vert að við lofum fjöl­breyti­leikann, en samt erum við alltaf að reyna að steypa alla í sama mótið, inn í þennan þrönga ,,normatíva” ramma sem er bara að hverfa…….Við erum náttúru­lega öll ólík og í raun er lífið ein stór geð­röskun, af því að ef að geð þitt raskast aldrei ertu ekki lifandi. Það er eðli­legt að geðið raskist innan á­kveðinna marka og það er eðli­legt að upp­lifa mis­jafnar til­finningar. En þegar þú ferð út fyrir þennan ,,normatíva” ramma sem er alltaf að þrengjast, þá þarf að gera eitt­hvað í því. Í mínu til­viki var það þannig að í of­lætinu kláruðust bara boð­efnin og svo þegar þung­lyndið kemur í kjöl­farið, þá er bara allt tómt í boð­efna­starf­seminni. Þá þarf maður að muna að jafn­ömur­legt og þetta á­stand er, þá mun það lagast með tímanum.”

Geð­lyfja­bransinn 180 föld fjár­lög ís­lenska ríkisins

Héðinn talar í þættinum um geð­lyfja­við­skipti í heiminum, sem er gríðar­legur bransi:

,,Heildar­velta í geð­lyfja­sölu í heiminum er um það bil 850 milljarðar dala, sem er 180 föld fjár­lög ís­lenska ríkisins á einu áru. Þú getur rekið ís­lenska ríkið í 180 ár fyrir veltu geð­lyfja í heiminum á einu ári. Það er miklu meira að græða á veikindum en heilsu. Þú græðir ekki pening á fólki sem er í jafn­vægi og vill ekki neitt og þarf ekki neitt. Greiningar­kerfið á geð­sjúk­dómum er alltaf að færast lengra og lengra, en að endingu er þetta yfir­leitt hug­lægt mat eins ein­stak­lings á hug­lægu á­standi annars.

Það segir sig sjálft að það getur verið mjög snúið, en þó að það sé mikil við­leitni til staðar erum við aug­ljós­lega komin of langt. Að endingu erum við að leitast við að há­marka vel­líðan okkar og lág­marka van­líðan. Þegar þú færð greiningu getur þú á á­kveðinn hátt ýtt frá þér á­byrgð og fólk er farið að skil­greina sig mjög mikið út frá þessum greiningum.

Ég hitti um daginn unga konu um daginn sem sagði við mig: ,,Ég er með ó­dæmi­gerða ein­hverfu og ADHD” , áður en ég náði að spyrja hana: ,,Fyrir­gefðu, hvað heitir þú?”. Við erum án hugsunar farin að skil­greina okkur út frá þessu. Í mínu til­viki hef ég farið fjórum sinnum í al­var­lega maníu og þung­lyndi í kjöl­farið. Þetta nær yfir um það bil 8% af ævi minni ef ég verð átt­ræður og helst frískur. Þá vaknar spurningin hvort ég eigi að vera með þennan merki­miða geð­hvarfa­sýki á mér líka í 90% af tímanum sem ég var ekki í þessu á­standi?”

Eins og margir óttast Héðinn að á­hrifin af Co­vid-að­gerðunum séu mikil og við eigum eftir að sjá það betur þegar fram í sækir:

,,Þetta á­stand hefur haft á­hrif á geð­heilsu nánast allra, en sér­stak­lega þeirra sem voru ein­angraðir fyrir. Fólk sem býr eitt getur oft orðið fé­lags­lega ein­angrað og á­hættan á því er miklu meiri núna. Meðal­tals­tölur yfir sjálfs­víg síðustu 15 ára er 39 sjálfs­víg á ári. Talan fyrir árið 2020 ætti að koma í sumar og ég hef grun um það að hún sé tölu­vert mikið hærri en þetta meðal­tal. Hún er yfir því, við vitum það, en við vitum ekki hve miklu hærri hún er.”

Í þættinum ræða Héðinn og Sölvi um geð­lækningar, mann­legt eðli, bar­áttu Héðins við geð­hvarfa­sýki og margt margt fleira.