Þótt 80´s-tímabilið geti seint talist töff í hefðbundnum skilningi skammast Þórður Helgi Þórðarson sín nákvæmlega ekki neitt fyrir ást sína á þeirri tónlist níunda áratugarins sem kennd er við nýrómantík og sítt að aftan.

Þórður, sem er þekktastur sem útvarpsmaðurinn Doddi litli á Rás 2 segist með nýja laginu Electro Love vera að taka ofan fyrir tilgerðarlegustu stjörnum níunda áratugarins.

Hann sýnir um leið allar sínar réttu, ef ekki hreinlega bestu, hliðar sem talsmaður áratugarins sem nú er kenndur við „áttuna“ þegar tíska og tónlist eru annars vegar. Lagið er komið á Spotify og myndbandið á YouTube.

„Tónninn í laginu er bara 80´s-ið sem ég fílaði. Ég setti mig bara í stellingar og taldi mér trú um að það væri árið 1984. Þá var ég fimmtán ára hvað ég var að hugsa á þessum tíma. Ég held að ég hafi alveg pælt í því að vélmenni væru að fara að taka yfir heiminn,“ segir Doddi í samtali við Fréttablaðið og bætir við að textinn fjalli um væntanleg yfirráð vélmenna á plánetunni jörð. „Þetta er bara tribbjút á þessa tónlist sem ég hlustaði á þegar ég var krakki. Þetta er nýmóðins tölvupopp beint frá 1984.“

Duran-áhrifin

Þegar Doddi er spurður hvað hann sé eiginlega að meina með tali sínu um tilgerð skellir hann upp úr. „Þetta er náttúrlega áratugur tilgerðarinnar. Það er náttúrlega nóg að horfa á Duran Duran, eða sérstaklega Arcadia,“ segir hann og upplýsir að hliðarverkefni þriggja af fimm meðlima Duran Duran hafi haft afgerandi áhrif á Electro Love.

„Ég fékk eiginlega hugmyndina að laginu eftir að ég stofnaði helvíti fína Facebook-síðu með gleymdum perlum áttunnar og Arcadia komst eitthvað í tísku hjá fólki þar. Ég fór eitthvað að tékka á þessu og horfði á öll þessi myndbönd og þau eru alveg rosaleg!

Og þar fékk ég hugmyndina að því að fara alla leið í tilgerðinni og þetta er eiginlega Arcadia að þakka. Og ást minni á nýrómantíkinni, sem er náttúrlega ansi sterk. Það er allt rosalega tilgerðarlegt í myndböndunum frá því ágæta fólki. Ég elska þetta alveg út af lífinu en ég get samt alveg viðurkennt að þetta er ekki töff.“

Frá ástarfíkn í fantasíu

Doddi er ekki einn á ferð í laginu en eftir að listakonurnar Aldís og Rachel Wish gengu til liðs við hann fyrir röð tilviljana breyttust áherslurnar, lagið og tónlistarmyndbandið þar sem þríeykið reynir að ná stemmningunni sem mátti sjá í myndböndum tölvupoppara tímabilsins og þá sérstaklega þeirra sem voru kenndir við nýómantík.

„Þegar Aldís og Rachel bættust við færðist hugmyndin að myndbandinu smám saman frá Robert Palmer yfir í að bara einhvern svona nýrómantíkur fantasíuheim sem við bjuggum til og þá náttúrlega varð tilgerðin enn meiri.

Doddi segir að upprunalega hugmyndin hafi verið að gera myndbandið að elektrónískri útgáfu af myndbandinu við Addicted to Love með Robert Palmer. „Og fá stelpurnar bara til þess að leika í myndbandinu en það endaði sem einskonar virðingarvottur til myndbandanna sem ný rómantískir tónlistarmenn sendu frá sér snemma á níunda áratug síðustu aldar. Plús nokkur þokkafull dansspor nútímans.“

Doddi og dömurnar

Doddi segist ekkert hafa þekkt Facebook-vinkonur sínar Ingibjörgu Aldísi og Rakel Ósk þegar hann sendi þeim skilaboð. „Ég vissi ekkert hvaða stelpur þetta voru. Ég sá bara fyrir mér að þær væru ógeðslega töff í að vera svona gellur í bandinu hans Robert Palmer og spurði bara hvort þær nenntu að leika í myndbandi hjá mér.“

Skemmst er frá því að segja að báðar slógu þær til og gott betur þar sem Aldís skaut því að Dodda að ef hann vantaði söng þá gæti hún reddað því og endaði með að syngja heilmikið í laginu. Þá kom einnig í ljós að Rakel Ósk hefur gefið út lag sem söngkonan Rachel Wish.

Þegar Doddi samdi texta Electro Love hvarf hann aftur til 1984 í huganum þegar hann var fimmtán ára og gat vel séð fyrir sér að geimverur tækju jörðina yfir.

„Svo hún var auðvitað drifin í lagið líka og úr varð þetta þokkafulla tríó: Doddi, Aldís og Rachel. Þær voru til í þetta allt saman og hugmyndirnar þeirra eru alveg jafn mikið í þessu. Þær komu sjálfar svona málaðar og klæddar í myndbandið, sem er gott vegna þess að budgetið hjá mér er alltaf núll.“

„Ég addaði honum því ég var alltaf að hlusta á hann í leiðinni í vinnunna og fannst hann fyndin. Og ég er fyndin og það var fyndið að hafa samband við hann,“ segir Rakel um upphaf Facebook-vináttu þeirra Dodda.

„Og svo bara er ég allt í einu með túberað hár að leika í vídeó og rappa smá í laginu hans. Allt voða Skemmtilegt. Mér finnst alveg magnað hvað hann er duglegur að framleiða þetta allt að mestu sjálfur. Og svo er hann með frábæra rödd og flottur lagahöfundur,“ segir Rachel.