Á sunnudaginn frumsýnir skemmtikrafturinn Lárus Blöndal Guðjónsson, einnig þekktur sem Lalli töframaður, sýninguna Lalli og töframaðurinn.

„Þetta er nú eiginlega titlað sem fjölskylduleikrit, sem mér finnst skrýtið. Maður þarf ekkert að vera með fjölskyldu til að koma. Mér finnst líka skrýtið að kalla þetta barnaleikrit, því þetta er alveg jafn mikið fyrir fullorðna. Þetta er í raun fyrir alla á öllum aldri,“ segir Lalli.

Fyrir alla

Hann segist koma fram fyrir breiðan aldurshóp og sýningin sé því ekki gerð með einn ákveðinn hóp í huga.

En um hvað fjallar sýningin?

„Þetta er smá flókið. Hún fjallar um Lalla sem er starfsmaður Tjarnarbíós, sem mætir og er að fara að gera allt klárt fyrir sýningu töframannsins Lalla. Þá kemur í ljós að Lalli töframaður hefur eitthvað ruglast og er mættur allt of seint. Lalli, starfsmaður Tjarnarbíós, þarf þá einhvern veginn að redda því, að setja upp sýningu á meðan allir eru að horfa. Það er mikið um töfra og skemmtilegir hlutir gerast,“ segir Lalli.

Hann segist því vera að leika tvö hliðarsjálf.

„Það eru mörg lög á þessu verki, flókið verk. Fullorðna fólkið á eftir að fyllast af spurningum á leiðinni heim. Um lífið, tilveruna og töfra. Það mun eflaust spyrja sig: „Hvernig getur þetta verið? Hvernig voru tveir Lallar?“ og mun í kjölfarið gruna mig um að eiga eineggja tvíbura,“ segir hann og hlær.

Sýningin hefur verið í bígerð í tvö ár og stóð upphaflega til að frumsýna hana í vor. Því varð þó að fresta vegna heimsfaraldursins. Lalli segir það hafa verið algjört lán í óláni.

„Það er miklu betra að vera að frumsýna núna. Sýningin var tilbúin en af því að henni var frestað gafst tækifæri til að gera hana ennþá betri. Hún er í raun orðin ennþá skemmtilegri.“

Lalli segir sýninguna hafa verið tvö ár í bígerð

Ný plata

Í nóvember kemur út jólaplata frá Lalla.

„Hún er tilbúin og ég er bara að bíða eftir að fá vínylinn. Á henni eru góðir gestir og dásamlegir hljóðfæraleikarar, Purumenn, Ævar Vísindamaður og Heiðrún konan mín. Hún syngur með mér lagið Jólastelpa,“ segir Lalli, sem tók plötuna að mestu leyti upp í sumar.

Lalli byrjaði snemma í töframennskunni og hann segir það alltaf hafa verið planið að gera það að ævistarfi.

„Ég vissi alltaf að ég væri orðinn það djúpt sokkinn í töfrana að ég vissi að þessi þekking myndi aldrei fara og myndi alltaf nýta þetta. Ég fattaði fyrir mörgum árum að minn tilgangur á jörðinni er að gleðja fólk. Það er fullt af fólki að gera alls konar magnaða og merkilega hluti í samfélaginu. Ég áttaði mig bara á því að mitt hlutverk og tilgangur væri að að gleðja fólk.“

Hann segist hafa áttað sig á því hve mikilvægt og gaman það er að koma fólki til að brosa.

„Þar kem ég inn. Ég hef verið spurður í gegnum tíðina við hvað ég vinni. Ég svara alltaf: „Ef það er eitthvað skemmtilegt, þá er ég að vinna í því. Ef þig vantar einhvern í eitthvað sem er skemmtilegt, þá er ég þinn maður,“ segir Lalli og hlær.

Sýningin Lalli og töframaðurinn er sýnd alla sunnudaga í október í Tjarnarbíói. Miða er hægt að nálgast á tix.is.