„Mig hafði dreymt um það síðan ég var í háskóla í Þýskalandi að þýða þessa óvenjulegu bók. Ég hreifst af henni mjög ungur, ekki síst vegna þeirrar mögnuðu ástarsögu sem hún hefur að geyma“, segir Arthúr Björgvin.

Hölderlin er fyrst og fremst þekktur sem ljóðskáld. „Hannes Pétursson hefur þýtt talsvert af ljóðum eftir hann, Helgi Hálfdanarson sömuleiðis og Kristján Árnason hefur þýtt eitt kvæði. Svo má ekki gleyma Steingrími Thorsteinssyni sem þýddi hann fyrstur manna á íslensku í ljóðasafninu Svanhvít sem kom út árið 1877, með þýðingum eftir hann og Matthías Jochumsson,“ segir Arthúr Björgvin.

Óður til ástarinnar

Hýperíon er eina prósaverkið sem Hölderlin lauk við. „Þetta er ein merkasta saga rómantískra bókmennta í Þýskalandi. Sagan ber þess skýrt merki að vera skrifuð af ljóðskáldi og hefur verið kölluð lengsta prósaljóð á þýsku. Ég gerði mér sérstakt far um að miðla þeim ljóðræna blæ sem er á sögunni og laga textann að orðfæri rómantískra skálda okkar Íslendinga á 19. öld. Þar sótti ég meðal annars innblástur í ljóð þeirra Jónasar Hallgrímssonar og Steingríms Thorsteinssonar. Það var mjög heillandi verkefni að koma þessum texta í íslenskan búning. Íslenskan er sérdeilis móttækileg fyrir rómantískum texta af þessu tagi, enda bæði „orða frjósöm móðir“ og blæbrigðarík.“

Hýperíon gerist á Grikklandi og segir sögu ungs manns á 18. öld. „Verkið er andóf gegn vissum öfgum upplýsingastefnunnar, þar sem skynsemi og skilningur áttu að fara með öll völd og fegurðin og listin voru gerðar hornreka. Hýperíon er tilfinningaþrunginn lofsöngur um fegurðina, skáldskapinn og náttúruna, og um leið heillandi óður til ástarinnar,“ segir Arthúr Björgvin.

Tímalausir töfrar

Ástin í lífi Hölderlins sjálfs endurspeglast í bókinni. „Þegar Höld­erlin var heimiliskennari hjá bankastjórahjónum í Frankfurt varð hann ástfanginn af eiginkonu bankastjórans. Þetta var eitt frægasta ástarævintýri þýskra bókmennta og endaði með skelfingu, þegar hinn kokkálaði eiginmaður komst að því hvað var á seyði. Hölderlin og ástkona hans héldu þó áfram að hittast á laun og hann reisti henni fjölmarga minnisvarða í ljóðum sínum.

Fyrirmynd stóru ástarinnar í lífi unga mannsins sem flækist um Grikkland í sögunni Hýperíon, er bersýnilega Susette Gontard, ástkona Hölderlins sjálfs. Skömmu eftir að sambandi þeirra lauk veslaðist Susette upp og dó og ekki löngu seinna veiktist Hölderlin á geði. Hann var settur á spítala í bænum Tübingen. Einn daginn kom smiður til læknanna og sagði: „Þessi maður skrifaði Hýperíon. Hann er snillingur og má ekki veslast upp á spítala. Má ég taka hann heim til mín?“ Hölderlin bjó sem hugstola maður á heimili þessa velgjörðarmanns síns í rúma þrjá áratugi,“ segir Arthúr Björgvin og bætir við: „Bókin sem hafði þessi djúpu áhrif á handverksmann á bökkum árinnar Neckar fyrir tvö hundruð árum, býr enn yfir tímalausum töfrum sem ég tel að muni heilla íslenska lesendur.“