„Lifum brosandi til þess að deyja glöð, segja Mexíkanar. Það er löngu orðið heimsþekkt hvernig þeir gleðjast yfir þeim sem á undan hafa gengið, fagna lífinu, dauðanum og minnast fólksins síns með litríkri gleði og veisluhöldum,“ segir Svana þegar hún er spurð um tónleikana.

„Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að læra ekki bara eina leið til þess að gera hlutina heldur nokkrar. Vinafólk okkar, Cristina og Rodrigo Ramos frá Mexíkó, bjuggu á Íslandi og kenndu mér margt um það hvernig Mexíkanar hugsa um dauðann og fagna þeim sem eru farnir. Mér finnst við á Íslandi svo góð í að tala um lífið en vanta orð og styrk þegar kemur að dauðanum. Mig langaði til þess að tala aðeins um það og syngja um það líka. Þetta eru samt ekki mjög þungir tónleikar, það er ekkert alltaf erfitt að tala um þá sem eru látnir. Mér finnst til dæmis alltaf gaman að hugsa til ömmu minnar. Hún var stórkostleg,“ útskýrir Svana.

Svana í fallegum kjól og á fingri ber hún hring sem eiginmaðurinn hannaði.

Syngur um heillandi heim

Hún segist ætla að syngja mexíkósk lög eins og Chavela Vargas, Alejandro Fernandez og Lhasa de Sela hafa sungið, smá mariachi og smá ballöður. Þeir sem hafa séð myndina um listakonuna Fridu ættu að kannast við þó nokkur lög. Þetta er töluvert ólíkt öðru sem er annars í boði, mikil tjáning og tilfinningahiti,“ segir hún.

„Maður gerir víst lítið einn þó að ég reyni það stundum. Hinn dásamlegi Guillaume Heurtebize er tónlistarstjórinn og gítarleikari. Hann kvaddi til yndislegt fólk sem hljómar dásamlega saman. Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir spilar í þetta skiptið á fiðlu og getur tekið undir með mér á spænsku, ekki síst af því hún á mann frá Ekvador. Andri Ólafsson spilar á bassa og gefur öllu góða strauma og Eiríkur Rafn Stefánsson spilar á trompet eins og hann hafi verið í mariachibandi alla ævi. Það besta sem söngkona getur lent í eru góðir meðleikarar.

Erla Lilliendahl sér um sviðshönnun og gerir allt það fallega sem fólk mun sjá í Gamla bíó. Ég kynntist henni í gegnum listina hennar en á erlaart.com er hægt að fá nasaþef af snilldinni,“ segir Svana.

Í frægum tónleikahúsum

Svana segir að Herdís Egilsdóttir kennari hafi kynnt ljóð fyrir henni þegar hún var níu ára. Síðan hafi Margrét Pálmadóttir kynnt fyrir henni samhljóm og tjáningu raddarinnar. „Ég byrjaði í söngnámi 14 ára og lauk mastersprófi í tónlist frá LHÍ. Ég setti upp söngleikinn Litla stúlkan með eldspýturnar í Íslensku óperunni og í framhaldi af því vann ég sem aðstoðarleikstjóri og sýningarstjóri við söngleiki á West End í London.

Þegar ég bjó á Spáni söng ég með sinfóníuhljómsveit og hafði afsökun til þess að láta sauma þennan fallega bleika korselett-dívukjól á mig. Eftir að ég lærði að syngja argentínskan tangó þá kynntist ég betur sjálfri mér, styrkleikum og veikleikum, og öðlaðist meira frelsi í tónlistinni. Ég syng ekki lengur í klassískum stíl þó hann sé grunnurinn að því sem ég geri,“ segir Svana sem hefur sungið á flestum sviðum og í nær öllum kirkjum landsins.

Svana er alveg ófeimin við liti og að klæða sig upp á. Hún á örugglega eftir að koma tónleikagestum á óvart.

„Ég hef komið fram á tónleikum á Spáni, Argentínu og haldið tangó-show í Noregi. Ég hef búið mikið erlendis þannig að þessi ferill er svolítið gloppóttur hjá mér. Ég hef komið fram á Act Alone, Listasöfnum, Menningarnótt, Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Tíbrá, Óperudögum og alls kyns hátíðum og veislum. Ég setti líka upp verk eftir sjálfa mig í Tjarnarbíói árið 2019 sem heitir Í hennar sporum. Mér þykir rosalega vænt um þá reynslu. Á næsta ári leik ég svo aðalhlutverki í nýrri íslenskri bíómynd. Þetta líf er alltaf að koma á óvart,“ segir hún og bætir við að Covid hafi komið í veg fyrir tónleika undanfarið ár. „Það var mjög erfitt að fara aftur af stað eftir alla þessa kyrrsetu raddbandanna en jafnframt minnir það á hversu söngurinn gerir manni gott.“

Undraheimur listarinnar

Þegar Svana er spurð hvort hún hugsi mikið út í klæðnað á sviðinu, svarar hún því játandi. „Mér finnst svo gaman að fá að fara „í búninga“ og á stórt safn kjóla, um 50 handgerða hatta og stórt safn af skóm. Ekkert allt keypt, sumt af mörkuðum, sumt gefið. Að fá að stíga inn í undraheim listarinnar þar sem allt glansar er fyrir mig vandræðalega mikilvægt. Það er svo allt í lagi að það séu átök í tónlistinni sjálfri, þá eru bara andstæðurnar skýrari,“ segir hún.

Svana hefur verið í mikilli vinnutörn undanfarin þrjú ár en hún rekur OsteoStrong ásamt manni sínum. Þegar hún er spurð hvort hún hafi tíma til að hugsa um fatastíl dagsdaglega, segist hún velja sér einfaldar, snöggar og þægilegar lausnir. „Ég á sömu buxurnar í fimm litum og kannski sex boli sem ég skipti út en lífga upp á þetta með fallegum skartgripum. Eiginmaðurinn minn Örn Helgason hóf nýlega að hanna skartgripi úr silfri eins og þennan rosalega töff þríhyrning sem ég er með á fingrinum við gráa kjólinn með appelsínugulu röndunum. Örn er engum líkur og uppáhalds hönnuðurinn minn í dag,“ segir Svana en þau hjónin eru sannarlega listræn og skapandi.

Svana kynnir tónleikana með óhefðbundinni mynd af sér: MYND/Þorri. Förðun/Vera Líndal. Grafísk hönnun /Eva Maria Vadillo

Heillandi glamúr

„Mér finnst eiginlega skemmtilegast að vera alveg rosalega-ofboðslega-rjómatertu-mega-fín með hatt og á háum hælum og með vandræðalega stóra hálsfesti. Hins vegar er það ekki beint veruleikinn með ung börn og fullt af skyldum. Þá vil ég helst bara vera heima í Polarn & Pyret náttkjólnum mínum og með úfið hár. Mér leiðast alveg rosalega venjuleg hversdagsföt og á erfitt með að kaupa mér eitthvað sem er agalega praktískt þó að ég viti að það sé gott fyrir mig. Þar hefur mamma mín alveg bjargað mér í gegnum tíðina. Bara leiðir mig að réttu skónum og gallabuxunum og svo geng ég í því þar til á það kemur gat sem ekki er hægt að bæta. Ég var að eignast vetrarpeysu frá Björgu í Spaksmannsspjörum og þá veit ég að ég verð smart og mér hlýtt í allan vetur.

Ég hef engan sérstakan áhuga á tísku sem hugtakinu um eitthvert afl sem ákveður í hverju þú átt að vera hverju sinni. Sem betur fer er það hugtak hægt og hægt að hverfa. Ég hef mikinn áhuga á góðri hönnun og fallegum fötum/skóm/skarti sem leyfir manni að sýna umhverfinu hvernig manni líður eða hvað maður vill segja með nærveru sinni. Vinir mínir Hugrún og Magni í KronKron hafa heldur betur sýnt þetta fallega með því að bera virðingu fyrir öllu því flotta handbragði sem er á bak við listina þeirra sem við fáum að ganga í. Ég keypti stígvél hjá þeim í KronKron í fyrra sem höfðu dottið á bak við á lagernum og týnst í 15 ár. Mér fannst það gera þau enn betri,“ segir Svana en tónleikarnir hennar, Líf og dauði, verða í Gamla bíói föstudaginn 29. október.