Sýningin Allar leiðir liggja heim, stendur yfir í Þulu galleríi við Laugaveg. Þar er að finna verk eftir Aðalheiði Daly Þórhallsdóttur. Á sýningunni eru níu olíuverk.

Eitt verkanna er sería sem samanstendur af átta myndum en á þær er letraður málshátturinn: Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla. „Þetta er uppáhaldsmálshátturinn minn og hann hefur oft verið mér ofarlega í huga,“ segir Aðalheiður.

„Ég hef átt heima í útlöndum í nær sex ár. Fyrst í Kanada þar sem ég lærði í Ontario College of Art and Design í Toronto og svo flutti ég til Berlínar fyrir rúmu ári. Þegar ég er með heimþrá hugsa ég: Fjarlægðin gerir fjöllin blá. Ísland er ekki eins frábært og þú heldur. Ég held að ég sé eins og margir Íslendingar, eigi í ástar-haturssambandi við landið okkar. Samt eru fjöllin stórkostleg og mennirnir eru alveg ágætir.“

Aðalheiður segir að rauði þráðurinn í sýningunni sé heimilið. „Ég missti landvistarleyfi í Kanada vegna tæknilegra mistaka og þá var fótunum dálítið kippt undan mér. Það var mjög sérstök tilfinning að missa heimilið, en þarna hafði ég átt heima í fimm ár. Í Berlín vildi ég skapa nýja tilfinningu fyrir því að vera heima. Ég fór í litlar búðir og leitaði að hlutum eins og fallegum bolla sem ég gæti gert að mínum, sett í tóma íbúð og lífgað þannig upp á hana.

Þegar kórónaveiran skall á í Þýskalandi var ég í göngufæri við stúdíóið mitt, og þar sem ég var ein mátti ég fara þangað. Það eina sem kom upp í huga minn var heimilið og þess vegna eru myndirnar af hlutum sem eru á heimilum: blómavösum, skeiðum og alls kyns smáhlutum.“

Málverk Aðalheiðar hafa verið á sýningum bæði í Evrópu og Norður-Ameríku og eru verk hennar í einkaeigu víðs vegar. Árið 2018 var Aðalheiður valin til að sýna verk sín í Kaupmannahöfn í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands, ásamt fleiri íslenskum myndlistarmönnum. Hún býr, eins og áður segir, í Berlín en stefnir á að flytja heim. Sýning hennar í Þulu stendur til 11. október.