„Við erum eiginlega að koma úr öllum áttum, flestar frá Íslandi en nokkrar okkar hafa nýlokið við klettagöngu í ítölsku Dolomítunum Ein okkar var að taka þátt í þríþraut í Lausenne í Sviss,“ segir Birna Bragadóttir en eins og heyra má hafa þær ekki beint nýtt undanfarnar vikur til slökunar.

Förum bara af stað ef veður leyfir

Hópurinn Marglytturnar sem samanstendur af Birnu ásamt þeim Sigrúnu Þ. Geirsdóttur, Brynhildi Ólafsdóttur, Þóreyju Vilhjálmsdóttur, Sigurlaugu Maríu Jónsdóttur og Halldóru Gyðu Matthíasdóttur heldur nú til á hóteli við sjóinn svo hægt sé að taka sundspretti á meðan beðið er eftir að veðurgluggi opnist.

„Það fer algerlega eftir veðri hvenær við förum af stað og skipstjóri á bátnum sem siglir með okkur segir til með það. Við eigum fyrsta sundrétt dagana 4-10 september sem þýðir að við förum út í fyrstar um leið og veður leyfir. Við erum tilbúnar hér um leið og kallið kemur.“

Marglyttur.jpg

Við getum ekki beðið

Á meðan þær bíða kallsins verður áhersla lögð á að nýta tímann til sjósunds og prófa þannig aðstæður við Englandsströnd. „Við hittum Peter skipstjóra nú í morgun til að ræða útlitið og niðurstaðan var að veðrið lítur ekki nægilega vel út. Það er bræla eins og er og við erum nú að horfa á veðurglugga fyrir laugardag og sunnudag til að hefja sundið. Við tökum stöðuna með áhöfninni tvisvar á dag þar sem veðrið og aðstæður breytast hratt."

Birna segir þær gríðarlegar ánægðar með að vera komnar á áfangastað enda hafi undirbúningurinn tekið tvö ár. „Við erum spenntar fyrir sundinu, liðsandinn er góður og við getum ekki beðið eftir því að fara af stað.“

Nú er þó að bíða átekta enda ómögulegt að hafa stjórn á veðrinu. „Við vitum vel að það er ekki farið af stað nema veður leyfi. Það er líka alltaf mikilvægt að gæta fyllsta öryggis og bera virðingu fyrir náttúrunni,“ segir Birna að lokum.

70186673_2582490261772115_6562008582819151872_n.jpg

Marglyttur vilja vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar og hvetja landsmenn til að styðja við boðsundið yfir Ermarsundið þannig að hægt verði að safna fjárhæð sem getur skipt máli fyrir Bláa herinn.

Hægt er að heita á Marglyttur og styðja þannig Bláa herinn í AUR appinu í síma 7889966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-650972, kt.250766-5219. Framlögin renna óskipt til Bláa hersins.