Utanvegahlaup er hlaup utan hefðbundinna vega úr malbiki; hlaup á mjúku undirlendi úti í náttúrunni, jafnt á jafnsléttu sem og fjallahlaup,“ útskýrir Melkorka Árný Kvaran, landsliðskona í utanvegahlaupum.

Melkorka, ásamt átta öðrum landsliðsmönnum- og konum, er á leið á heimsmeistaramótið í utanvegahlaupi sem fram fer í Miranda do Corvo í Portúgal 8. júní. Það er stærsta heimsmeistaramótið sem haldið hefur verið með um 450 hlaupurum frá 55 þjóðum.

„Í Portúgal bíður okkar 44 kílómetra fjallahlaup með 2.200 metra hækkun. Hlaupið er virkilega krefjandi og tæknilega erfitt. Það má reikna með að hitastigið verði að minnsta kosti 20°C en við erum tilbúin í verkefnið og margir mjög vanir því að hlaupa í krefjandi aðstæðum,“ upplýsir Melkorka um keppnina sem haldin er af Samtökum utanvegahlaupa (ITRA), Samtökum ofurhlaupara (IAU) og Alþjóðlega frjálsíþróttasambandinu (IAAF). Íslenskir hlauparar eru valdir út frá alþjóðlegu stigakerfi ITRA og þeir hlauparar sem hafa flestu stigin mynda landsliðið hverju sinni.

„Ræst er í hlaupið að morgni dags og er hlaupinu lokið sama dag. Hröðustu tímar þriggja karla og þriggja kvenna í hverju landsliði er lagðir saman og ráða úrslitum þegar kemur að því að verða heimsmeistari landsliða,“ upplýsir Melkorka.

Hlaupandi í hjúkrun

Melkorka fór að daðra við utanvegahlaup árið 1999 þegar hún var við nám í Íþróttaháskólanum á Laugavatni en sem barn lagði hún stund á fimleika og dans.

„Ég hafði aldrei löngun til að hlaupa á uppvaxtarárunum og enn er gert grín að því hvað ég kveinaði mikið yfir því að hlaupa erfiðan fjallahringinn á Laugarvatni sem ég færi sennilega létt með í dag,“ segir Melkorka hlæjandi.

Í vetur hefur hún reimað á sig hlaupaskóna klukkan sex á virkum morgnum, hlaupið viðstöðulaust í 60 til 75 mínútur og lagt allt að 16 kílómetra að baki áður en hún hefur mætt í hjúkrunarnám sitt í háskólanum.

„Ég er í háskólaleikfimi fyrir hugann. Frá unga aldri hefur blundað í mér löngun til að verða hjúkrunarfræðingur svo ég dreif mig í námið á gamals aldri og útskrifast að ári,“ segir Melkorka sem er einnig menntaður íþróttakennari og matvælafræðingur.

„Það verður gott að búa að hlaupunum á risastórum spítalanum þar sem vegalengdirnar eru miklar,“ segir Melkorka reynslunni ríkari eftir starfsnámið á Landspítala.

„Ég hleyp fimm sinnum í viku en fer svo í jóga og styrktaræfingar sem er nauðsyn með hlaupum. Það eru bein tengsl á milli aukins styrks í fótum og hraða og því gott að vera með fótastyrk ef markmið er að bæta sig í hraða. Í jóga er hugað að liðleika og teygjum sem fyrirbyggja meiðsl auk þess sem maður fær góðan miðjustyrk í bak- og kviðvöðvum sem er nauðsynlegt í ósléttum utanvegahlaups.“

Landsliðskonurnar Elísabet Margeirsdóttir, Melkorka Árný Kvaran og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir æfa hér saman fyrir HM í Portúgal MYND/STEFÁN

Fjölskylduvænt sport

Árangur undanfarinna ára sýnir að Ísland hefur á að skipa mjög öflugum hlaupurum sem geta veitt þeim allra bestu í heimi verðuga keppni. Keppnin í Portúgal er einstaklings- og landsliðakeppni og einkar ánægjulegt hversu eftirtektarverður árangur íslenskra utanvegahlaupara er í vaxandi íþrótt um allan heim.

„Utanvegahlaup fara oft betur með líkamann og stoðkerfið og sjálf finn ég mikinn mun á því hversu harðara er fyrir skrokkinn að hlaupa á malbiki,“ segir Melkorka sem tók þátt í götumaraþonum áður en hún sneri sér að utanvegahlaupi fyrir fimm árum.

„Hlaupin gefa mér svo margt. Þetta er fjölskylduvænt sport og hentugt þegar tíminn er af skornum skammti með þrjú börn og mann í vaktavinnu. Þá er ég haldin miklu útiblæti og því snúast hlaupin líka um útiveru. Maður getur líka stundað hlaup hvar sem er og veit ég fátt betra en að reima á mig hlaupaskó í útlöndum og kortleggja borgirnar á tveimur jafnfljótum. Félagsskapurinn er dásamlegur en mér finnst líka gott að upplifa umhverfið ein með sjálfri mér. Það er mín hugleiðsla.“

Frjálsíþróttasambandið valdi eftirfarandi hlaupara til keppni á mótinu:

Ingvar Hjartarson, Sigurjón Erni Sturluson, Þorberg Inga Jónsson, Örvar Steingrímsson, Önnu Berglindi Pálmadóttir, Elísabetu Margeirsdóttur, Melkorku Árnýju Kvaran, Rannveigu Oddsdóttur og Þórdísi Jónu Hrafnkelsdóttur. Liðsstjóri verður Friðleifur Friðleifsson.

Í aðdraganda heimsmeistaramótsins hefur hluti landsliðshópsins hist til að æfa saman og gera sér glaðan dag, eins og að fá sér ís.