Alex Schulman segist alltaf hafa skrifað. „Sem barn skrifaði ég heilan helling af sögum með hryllingsívafi. Þar dó fólk á hroðalegan hátt. Ég var ellefu ára þegar ég ákvað að verða rithöfundur. Ég vann hörðum höndum að því, en því miður varð ég ekki rithöfundur fyrr en tuttugu árum síðar.“

Hann vann um tíma sem kvikmyndagagnrýnandi og segir kvikmyndir hafa haft mikil áhrif á skrif sín. „Í öllum bókum mínum, og alveg sérstaklega í Eftirlifendum, skrifa ég kaflana nánast eins og kvikmyndaatriði. Þeir eru á vissan hátt grafískir. Ég sé fyrir mér mynd, reyni að lýsa henni og vinn út frá henni. Ég legg líka mikla vinnu í samtöl, vil að þau séu eins eðlileg og mögulegt er.“

Sterkt augnablik

Schulman hefur sent frá sér sjálfsævisögulegar bækur sem fjalla um föður hans, móður og eiginkonu. Spurður hvort það sé eitthvað sjálfsævisögulegt í þessari bók segir hann: „Stundum spyr ég mig hvað sé ekki sjálfævisögulegt í henni. Þessi saga er mjög persónuleg. Móðir mín lést fyrir fimm árum. Daginn fyrir jarðarförina hitti ég bræður mína tvo í íbúð móður okkar til að kanna hvort þar væru hlutir sem við gætum átt til minningar um hana. Í skúffu fundum við umslag sem á stóð: Til sona minna, ef ég dey. Eitt sterkasta augnablik ævi minnar var að sitja þarna á rúmi móður minnar, með bræður mína tvo við hlið mér, og lesa þessi skilaboð hennar. Nokkrum árum síðar hugsaði ég að þarna væri góður rammi fyrir sögu. Þannig að sagan hverfist um þetta augnablik úr raunveruleikanum.“

Eftirlifendurnir fjallar um erfiða æsku og flókið samband milli bræðra. „Fyrir mér er samband mitt og bræðra minna ráðgáta. Ég og bræður mínir tveir vorum mjög nánir í æsku. Við deildum öllu. Hvernig gat það gerst að við erum núna nánast eins og ókunnugir? Hvað kom fyrir okkur? Ég hugsa mikið um þetta. Í hádegismat með bræðrum mínum spurði ég þann eldri: „Hvernig gengur sambandið við kærustuna?“ Hann svaraði: „Við hættum saman.“ Ég komst í uppnám, fannst þetta svo dapurlegt hans vegna og spurði hvernig honum liði. Hann saup á bjórnum og sagði: „Það er í góðu lagi með mig. Við hættum saman fyrir sex mánuðum.“ Þegar ég yfirgaf veitingastaðinn fann ég fyrir depurð – mér fannst ég nánast ekkert vita um bróður minn. Það var sársaukafullt. Og þegar ég skrifa vil ég finna fyrir einhverju. Svo ég byrjaði að skrifa um þrjá bræður sem fjarlægjast hver annan eftir áfall í æsku.“

Það skýrir sig síðan sjálft að Schulman skuli tileinka bræðrum sínum bókina. „Á vissan hátt er ég að segja sögu okkar,“ segir hann.

Æskudraumur rættist

Bókin hefur verið seld til rúmlega þrjátíu landa og höfundurinn segir velgengni hennar skipta sig miklu máli. „Þarna rættist æskudraumur. Það er sturlað að þetta skuli hafa gerst. Hér er ég að ræða við íslenskan blaðamann um bókina. Það er nokkuð sem ég hefði ekki getað ímyndað mér. En líf mitt er enn hið sama. Ég varð ekki forríkur. Ég ferðast ekki um heiminn og gisti á lúxushótelum og skrif mín hafa ekkert breyst. Allt er við hið sama, ég reyni bara að finna tíma til að skrifa milli þess sem ég sinni börnunum mínum.“

Hann viðurkennir að það verði ekki auðvelt að fylgja þessari metsölubók eftir. „Það er stór áskorun en ég get ekki verið að velta mér upp úr því. Ég verð að einbeita mér að því sem ég vil skrifa, ekki því sem ég held að aðrir vilji lesa. Ég hef séð vini og félaga reyna það – það mistekst alltaf.“

Hann er hálfnaður með nýja bók sem er fjölskyldusaga. „Hún er bæði minni saga og meiri saga en Eftirlifendurnir. Minni í þeim skilningi að hún gerist um borð í lest og stærri því þar segir frá nokkrum kynslóðum í sömu fjölskyldu. Vonandi kemur hún út í Svíþjóð innan árs og vonandi verður hún þýdd á íslensku.