Bráðin er nýjasta spennusaga Yrsu Sigurðardóttur. Uppi á öræfum er leitað að hópi fólks sem er saknað. Um leið gerast undarlegir atburðir á ratsjárstöðinni á Stokksnesi.

„Kveikjan að sögunni er mál sem gerðist um 1960 í Úralfjöllum og er ein af þessum frægu óleystu ráðgátum. Jarðfræðinemar fóru með kennara sínum í göngu yfir fjöllin um vetur og skiluðu sér ekki til baka. Leit hófst og tjald sem þau höfðu verið í fannst skorið að innan. Fólkið hafði ruðst út um miðja nótt og fannst látið hér og þar. Sum dóu úr ofkælingu, önnur voru mjög lemstruð. Það hefur aldrei fundist nein skýring á þessu.

Það hefur mallað lengi í mér að nýta þetta í sögu og þá sérstaklega það hvað gæti orðið til þess að fólk ryki út í opinn dauðann úr því litla skjóli sem það þó hafði,“ segir Yrsa.

Draugagangur kemur nokkuð við sögu í bókinni, en ein vinsælasta og besta bók Yrsu Ég man þig byggðist að stórum hluta á draugagangi. „Fyrir höfund er mjög gaman að nota draugakonseptið því það býður upp á að glæpur eða misgjörðir úr fortíð fái úrlausn. Langbest er að láta svona aðstæður ekki gerast í borgarumhverfi með útilýsingu, gsm-síma og neti. Það gerir upplifunina allavega ekki eins sterka.“

Yrsa segist vera mjög jarðbundin manneskja en bætir við: „Ég væri alveg til í að hafa drauga úti um allt. Þeir mættu sannarlega koma inn í mitt hús.“

Dómharðir kettir

Bráðin er ekki eina bók Yrsu þetta árið. Eftir sautján ára hlé sendir hún frá sér gamansama barnabók, Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin. Síðasta barnabók hennar Biobörn hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2003. „Ég hef lengi ætlað að skrifa barnabók og svo fékk ég svo góða hugmynd að ég ákvað að drífa í því. Ég hugsa að næstu árin muni ég senda frá mér tvær bækur, glæpasögu og barnabók.“

Dóttir Yrsu, Kristín Sól Ólafsdóttir, er höfundur mynda í bókinni. „Þetta var mjög skemmtilegt því ég gat unnið þetta með dóttur minni. Fyrir nokkru fékk ég senda fréttamynd sem var tekin þegar ég vann barnabókaverðlaunin árið 2003 og á þeirri mynd er dóttir mín með mér. Ekki hafði ég hugmynd þá um að næsta barnabók sem ég myndi skrifa væri með aðstoð hennar.“

Aðalpersónan í Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin er köttur, sem segir söguna. „Þannig get ég lýst heimilislífinu, börnunum og því sem á gengur með augum einhvers sem sér hlutina allt öðruvísi og ekki eins raunsætt og ef um manneskju væri að ræða.“

Köttur kemur einnig nokkuð við sögu í Bráðinni og því liggur beinast við að spyrja Yrsu hvort hún sé kattakona. „Ég átti kött sem dó fyrir ári síðan. Kannski hefur hann að hluta verið kveikjan að þessum köttum í sögunum tveimur. Kettir eru skemmtilegir og maður hefur á tilfinningunni að þeir séu fremur dómharðir.“

Ný sería næst

Yrsa segist vera farin að leggja drög að næstu spennubók. „Það verður fyrsta bókin í splunkunýrri seríu. Ég hef greinilega ekki þolinmæði í meira en sex bækur í sömu seríu og verð að hætta áður en ég fæ leið á persónunum. Það er líka alltaf gaman að byrja á einhverju nýju. Það kemur í veg fyrir að maður endurtaki sig.“