Fjöldi TikTok-notenda náði einum milljarði í september og TikTok er því er orðið eitt stærsta samskiptaforrit heims. Forritið fór á markað í september 2016 en þar hlaða notendur upp stuttum myndböndum af sjálfum sér. Dansar eru vinsælir en áskoranir af ýmsu tagi og „mæmaður“ söngur eru einnig mjög áberandi.

Tölfræðin segir sína sögu. Samkvæmt gögnum Business Insider eru 67 prósent TikTok notenda líkleg til að leita uppi tónlist á streymisveitum eftir að hafa heyrt hana fyrst á TikTok. Vinsælir TikTok-notendur hala inn tekjur, sem geta hlaupið á gríðarlegum fjárhæðum, í gegnum samninga við tónlistarfólk og útgáfufyrirtæki sem leitast við að koma af stað tískubylgju með tónlist sinni.

Þá hafa TikTok-notendur verið tilnefndir til Grammy-verðlauna fyrir söngleikjatónlist sem samin var fyrir TikTok-miðilinn og frumflutt þar.

Íslendingar á TikTok

„Ég er stundum að semja fyrir aðra og hef verið í verkefnum þar sem maður heyrir að fólk sé spennt fyrir því að gera TikTok-lög,“ segir tónlistarkonan og lagahöfundurinn Hildur Kristín Stefánsdóttir. „Fólk er þannig farið að reyna að semja fyrir TikTok.

Ég hef sjálf verið að semja með fólki sem hugsar þannig, en ég spyr þá: Fyrir hvað er fólk þá að gera þetta. Fyrir frama eða pening?“ Hildur segir að þar séu TikTok-áhrifin farin að hafa áhrif á tónlistina sjálfa, en þá sé fólk farið að einbeita sér að TikTok-vænum kafla og hugsi minna um restina af laginu.

En ætli fólk sér að semja sérstaklega fyrir TikTok þurfi það sjálft að hefja „trend“, búa beinlínis til tískubylgju, og slíkt sé langsótt. Enda telur Hildur að tónlistarfólkið sjálft hafi keyrt fæst slík „æði“ í gang.

Laufey Lín með þeim stærstu

Hildur segist ekki þekkja til þess að margir íslenskir tónlistarmenn hafi náð svokölluðum „viral“ -árangri á TikTok, en nefnir þó Laufeyju Lín sem undantekningu. „Hún gerir ekki þetta týpíska TikTok og er ótrúlega dugleg að setja inn vídeó af sjálfri sér að syngja,“ segir hún. Þegar þetta er skrifað er Laufey Lín með 346 þúsund fylgjendur á TikTok, 260 þúsund á Instagram og 79 þúsund fylgjendur á YouTube.

Pressa á tónlistarfólk

Hildur segir að TikTok og Instagram séu góðir staðir til að fá kynningu. „Ungt fólk af minni kynslóð leitar fyrst að listamönnum á Instagram, frekar en að gúggla þá,“ segir hún.

„Það skiptir máli að vera með prófíl þar sem fólk getur bæði skoðað tónlistina og þig sem persónuleika.“ Hún ítrekar að góð ásýnd á samfélagsmiðlum sé mjög mikilvæg. „Þetta hefur breyst mikið síðan ég var í Rökkurró þegar ég var sautján ára. Við vorum með My­space-aðgang og þá var maður ekkert að setja inn efni á hverjum degi,“ segir Hildur.

„Margir listamenn í dag finna fyrir pressu til að vera áhugaverðir á samfélagsmiðlum, til að sýna að þeir séu áhugaverðir einstaklingar, til að fólk nenni að hlusta á þá,“ segir hún.

Hraðinn mikill á TikTok

Matthías Már Magnússon, aðstoðardagskrárstjóri Rásar 2, kveðst aðspurður markvisst fylgjast með TikTok-tónlist, en segir vissa lagni og klókindi þurfa til að grípa nýjasta efnið jafnóðum. „Þetta er svo ógeðslega mikið,“ segir hann. „Maður fattar þetta yfirleitt eftir á, hraðinn er svo ofboðslegur,“ segir hann.

Matthías segist gjarnan sjá TikTok-lögin birtast á Spotify-topplistum, en þar megi líka sjá áratuga gamla slagara dúkka upp eftir langan dvala, vegna þess að ný kynslóð hafi uppgötvað lagið á TikTok.

„Ég elska að krakkarnir séu að hlusta á eitthvert 70’s- og 80’s-stöff, en fyrir þeim er þetta bara nýtt lag. Þau eru ekkert að pæla í því hvenær það kom út. Nýtt lag fyrir þeim er bara lag sem þau hafa ekki heyrt áður.“

Spotify breytir lagasmíðum

Matthías vill ekki gera mikið úr því að TikTok-áhrifanna gæti í tónlistinni en segist sjá mun á tónlistarmyndböndum. „Þau eru orðin TikTok-dansar. Ameríska poppið er allt með „kóreógröfuðum“ dönsum sem allir eiga að geta gert á TikTok,“ segir Matthías. „Að því leyti er TikTok búið að breyta því hvernig þú kemur tónlistinni á framfæri.“

Hann segist þó greina breytingar á lagasmíðum vegna Spotify. „Intróin í lögin eru styttri og söngurinn byrjar miklu fyrr. Þú færð ekki stefgjöldin fyrr en eftir 30 sekúndur og það telst ekki vera spilun ef þú hlustar í minna en hálfa mínútu,“ segir Matthías. „Það er verið að hlaða öllu í lagið fyrr, viðlagið þarf að grípa þig fyrr.“