Breska sjarmatröllið David Gandy hefur lengi vermt topplistann yfir vinsælustu karlfyrirsætur heims. Hann hefur allan pakkann, eins og þar segir, býr yfir gamaldags karlmannlegum sjarma í fasi og framkomu og er með ómótstæðileg andlit sem tískubransinn og heimurinn elskar að horfa á. David var árum saman andlit Dolce & Gabbana en hefur síðan unnið með stærstu merkjum í bransanum, þar á meðal Hugo Boss, Zara og H&M. David hannar líka sína eigin nærfata- og náttfatalínu.

David Gandry.

Sean O’Pry trónar líka á topplistanum yfir karlfyrirsætur heimsins. Hann er hlédrægur Bandaríkjamaður, þekktur fyrir ísblá augu og áberandi augabrúnir. Sean þykir hafa fullkomið andlit fyrir tískubransann og með ómótstæðilegum sjarma hefur hann landað ótal tískuherferðum, prýtt forsíður helstu tískublaða og gengið tískupallana fyrir frægustu tískuhönnuðina. Hann hefur undanfarin ár vermt listann yfir launahæstu karlfyrirsætur heims enda unnið fyrir marga af þeim stærstu; svo sem Armani, Ralph Lauren, Calvin Klein.

Lucky Blue Smith.

Lucky Blue Smith er gríðarvinsælt módel, ekki síst hjá yngri kynslóðinni sem fylgir honum eftir á Instagram og getur lagt orð í belg við heillandi útlit hans, tískumyndir og persónulegt líf. Lucky Blue er með stingandi ljósblá augu og ljóst, úfið hár, og minnir svolítið á eilífðartöffarann James Dean. Hann þykir tignarlegur í framkomu, með óaðfinnanlegan stíl, gengur reglulega tískupallana og hefur meðal annars unnið fyrir Calvin Klein, Tommy Hilfiger og Dolce & Gabbana.

Jon Kortajarena.

Spænska fyrirsætan Jon Kortajarena er líka á toppnum. Hann varð andlit Cavalli átján ára og með það sama eftirsóttur innan tískubransans. Í kjölfarið fékk hann vinnu hjá Versace, Armani, Diesel og fleiri virtum hönnuðum. Jon hefur einnig sést í kvikmyndum, sjónvarpi og tónlistarmyndböndum, enda sláandi karlmannlegur gaur með skarpa andlitsdrætti, há kinnbein og þykkar augabrúnir sem myndavélin elskar og heimurinn með.