Nýjasti jólaórói Styrktar­fé­lags lamaðra og fatlaðra er kominn í ár. Um er að ræða síðasta óróann í seríunni en þeir eru alls 16. Í ár prýðir Þvörusleikir óróann en hann hangir á Oslóartrénu á Austurvelli.

Kerta­sníkir var fyrstur í röðinni en hann kom út árið 2003. Jóla­óróinn er fram­leiddur í tak­mörkuðu upp­lagi en hægt er að nálgast eldri óróa í vef­versluninni.

Jóla­sveinarnir þrettán hafa verið færðir í stál á­samt Grýlu, Leppa­lúða og Jóla­kettinum. Mark­miðið með gerð og sölu jóla­óróanna er að auðga líf fatlaðra barna og ung­menna en allur á­góði af sölunni rennur ó­skiptur til Æfinga­stöðvarinnar sem Styrktar­fé­lagið á og rekur.

Hönnunar­teymið Arnar&Arnar hannaði ó­róann og Kristín Svava Tómas­dóttir samdi kvæði um kappann sem má lesa hér að neðan í heild sinni.

Sala Þvörus­leikis fer fram í gjafa­vöru­verslunum um land allt dagana 2.-16. desember og í net­verslun Styrktar­fé­lags lamaðra og fatlaðra: http://www.jola­or­oinn.is

Það er hægt að hengja óróann á tré eða bera hann sem hálsmen.
Mynd/Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra

Þvörus­leikir

Þú dormar undir sænginni svífandi
milli svefnsins og vökunnar
ilmandi strokin og hrein
flekk­laus
eins og fyrir­ætlanir þínar

þú hefur málað stórar myndir
af lífinu eins og það verður
þegar þú verður betri
þegar þú verður góð
af lífinu þegar það verður fal­legt

en þú getur ekki sofnað
fyrir annarri mynd
á­gengri og lokkandi mynd
af eld­húsinu þar sem enginn gætir
pottsins og þvörunnar

með heiðar­legum hæl­krók
glímir þú við hann
svo hrindingum og spörkum
en aldrei er þessi ó­ró­legi hugur
ó­skiptur

Hann rumskar í myrkrinu
myrkur sjálfur
vekjari syndanna
rifa á auga
væta í munni

þú hefur reynt að skilja
á milli þín og hans
temja skepnuna
vernda þetta smáa
og ber­skjaldaða líf undir lágu þaki

hann lætur ekki segjast
hann gerir usla
aflið í þér
þvengurinn og þvaran
þagnar ekki

uns þú rankar við þér
standandi yfir pottunum
með puttana á kafi í graut
með þvöruna uppi í þér
skepnan ó­ta­min
Kristín Svava Tómas­dóttir