Hljóm­sveitirnar Á móti sól og Papar leiða saman hesta sína í Reið­höllinni í Víði­dal á laugar­dags­kvöld þar sem ætlunin er að bregðast við sveita­balla­skorti á mölinni með al­vöru réttar­balli í póst­númeri 110.

„Sko, þetta kom nú bara út úr því að við Palli Papi vorum að ræða hvernig það væri allt í einu komið í tísku að fara á ball og það virðist vera að Ís­lendingar vilji helst bara fara á ball núna eftir far­aldurinn.

Fólk vill bara fara að skemmta sér ær­lega með vinum sínum og ætli það sé nú ekki upp­runa­lega leiðin til að skemmta sér, að fara á sveita­ball?“ segir Magni, söngvari þeirrar þraut­reyndu hljóm­sveitar Á móti sól.

„Þetta er það sem þjóðin er alin upp við og við vorum eitt­hvað að tala um að það eru réttar­böll úti um allt. Verið að slá í böll alls staðar þannig að okkur fannst bara vanta eitt í Reykja­vík.“

Þá hafi bara legið beinast við að fara í Víði­dalinn enda hafi Reið­höllin marg­sannað sig með tón­leikum og böllum. „Þannig að það var bara á­kveðið að slá í klárana,“ segir Magni.

Sjóaðir reynslu­boltar

„Þetta er sko geggjaður við­burður sko,“ segir Beggi, söngvari Papanna. „Að geta tekið leigu­bíl bara úr mið­bænum í 20 mínútur til að komast á al­vöru þunga­vigtar­sveita­ball eins og þau gerast best. Það er náttúr­lega geggjað,“ heldur hann á­fram og telur ó­hætt að tala um endur­komu sveita­ballanna.

„Er það ekki svo­lítið þannig? Maður er búinn að heyra svo marga, sér­stak­lega þá sem eru að­eins yngri, tala um að þeim finnst þau svo­lítið hafa misst af þessari stemningu.“

Þegar talið best að langri reynslu hljóm­sveitanna tveggja vefst töl­fræðin ekki fyrir söngvurunum. „Ég hugsa að saman­lagt séu þessi bönd með vel yfir þúsund böll eða eitt­hvað undir beltinu. Bara grín­laust,“ hlær Magni.

„Ef þú marg­faldar það með þremur til fjórum klukku­tímum á ball þá eru þetta svo­lítið margir klukku­tímar sem við erum búnir að standa uppi á sviði þannig að við vitum alveg hvað við erum að gera. Það er náttúr­lega alveg klikkað að spila á þessum böllum. Þetta er svona með því skemmti­legasta sem maður kemst í.“

Eldri en Hlölla­bátar

„Við erum að tala um 70 ára reynslu af því að leika á böllum í þessum böndum. Sko, Paparnir eru eldri en Hlölla­bátar, held ég,“ segir Beggi og hlær.

„Paparnir eru bara vél og það hefur aldrei vafist fyrir neinum hver til­gangur Papanna er. Það er að skemmta fólki. Það er bara það sem Paparnir standa fyrir og það er allt lagt undir til þess að skemmta þeim sem mæta.“

Húsið opnar klukkan 21 og ballið stendur til þrjú um nóttina og þrátt fyrir að vera á aldur við Hlölla­báta hafa böndin engar á­hyggjur af því að halda djammið ekki út til enda.

„Það eru tvær hljóm­sveitir,“ segir Magni um á­lags­dreifinguna á ballinu. Við eigum eftir að kasta upp á hverjir byrja en við förum í gang klukkan hálf ellefu og það er bara ball í fjóra klukku­tíma.

Það er tvö­falt sett, sko. Það eru tvö trommu­sett og bara tvennt af öllu þannig að það er engin skipting og menn geta bara labbað inn og byrjað um leið og hinir slá af lagið. Það eru sko engin grið.“

Stærsta bjór­bákn Evrópu

Magni telur því rétt að fólk mæti í rétta gallanum og miði allan út­ganginn við að það verði auð­velt að dansa. „Ég held nú að þetta sé svona lopa­peysu-gúmmítúttu­ball. Er það ekki?

Þetta er sveita­ball. Þannig að fólk þarf að mæta í ein­hverju sem er gott að dansa í því við erum ekkert að fara að stoppa. Í guðanna bænum ekki fara að mæta í ein­hverjum gala-kjól. Það er ekki boðið til setunnar þótt það verði náttúr­lega að sjálf­sögðu stólar og borð þarna.“

Hermt er að á staðnum verði stærsti bjór­gámur í Evrópu. Sá hinn sami og var í Hjarta Hafnar­fjarðar í sumar en Magni treystir sér ekki til að svara fyrir gáminn.

„Ég fékk nú skoðunar­ferð um þetta kvikindi áðan. Það er ekkert djók. Þetta er eitt­hvert amerískt bákn sem inni­heldur held ég 50 dælur og ég held að það sé hægt að vera með ein­hverja 100 kúta til­búna í einu. Þetta er ein­hver al­gjör geð­veiki sko. Þannig að þarna mun bjór flæða eins og vín, eins og maðurinn sagði. Þetta verður eitt­hvað,“ segir Magni.

„Já, ég er fyrst og fremst alinn upp í ball­bransanum og byrjaði að skemmta fólki 1998 og þá snerist allt um að skemmta fólki. Það bara lá við að lögin væru mátuð við það hvort hægt væri að dansa við þau áður en þú valdir þau inn á prógrammið,“ segir Beggi.

„Ég kem svona úr þessari iðn­grein þar sem fyrst og síðast snerist það alltaf um að skemmta fólki. Metnaðurinn lá í því þannig að fyrir mig er það náttúr­lega geggjað að koma svona inn í Papana af því að þetta er ná­kvæm­lega það sem þetta snýst um hjá þeim og gerir það að verkum að ég er náttúr­lega búinn að sofa með rifu á öðru auganu af spenningi fyrir laugar­dags­kvöldinu.“

Miðar á ballið eru seldir á tix.isog sem fyrr segir er það haldið í Reið­höllinni í Víði­dal að kvöldi laugar­dagsins 24. septem­ber. Aldurs­tak­mark er 20 ár og tekið fram að ó­heimilt sé að koma með drykki inn á svæðið.