„Þetta er bara búið að vera frábært sumar og allir túristarnir náttúrlega komnir aftur og við seljum eitthvað í kringum þúsund pylsur á dag í Tryggvagötunni,“ segir Rebekka Ýr Eyþórsdóttir hjá Bæjarins bestu og þrátt fyrir áganginn og langar biðraðirnar segir hún aðspurð þá stöðu að aðföng og hráefni þrjóti aldrei koma upp.

Ferðafólk greip tækifærið í Tryggvagötu í gær þegar bola- og minjagripasalan stóð til boða að kaupa boli og minjagripi við pylsuvagninn í Tryggvagötu í gær.
Fréttablaðið/Oddur Ævar

„Nei, við erum einmitt með mannskap sem fyllir alltaf reglulega á vagnana. Svona um það bil þrisvar, fjórum sinnum á dag þannig að það kemur bara aldrei fyrir að það vanti vörur.“

Bæjarins bestu hafa í seinni tíð fest sig í sessi, við hlið hákarls og brennivíns, sem eitthvað sem erlent ferðafólk verður að smakka í Íslandsheimsóknum sínum og Rebekka segir mörg þeirra einnig kaupa sér Bæjarins bestu boli til minningar um pylsu- eða pulsuátið, allt eftir því hvernig á það er litið.

Túristarnir gátu keypt svona bol á 45 dollara, um 6.100 krónur, í Tryggvagötu í gær.
Mynd/BæjarinsBestu

„Við seljum þennan varning á heimasíðunni okkar og síðan erum við stundum með pop-up stand þar sem við seljum þetta í Tryggvagötunni,“ segir Rebekka, sem vill ekki ganga svo langt að segja bolina vera orðna jafn sjálfsagða minjagripi og tuskulunda þótt túristarnir kaupi þá í mun meira mæli en Íslendingar.