Tónlistarmenn og jaðarlistahópar eru ekki par sáttir við að tónlistarstaðurinn og barinn Húrra muni víkja fyrir sportbar. Fáir staðir eru eftir á höfuðborgarsvæðinu fyrir tónleikahöld og sýningar. Listamenn segja að ástandið hafi versnað eftir að NASA hætti rekstri og Tónlistarþróunarmiðstöðin, eða TÞM, hætti að halda tónleika. Á síðustu árum hafa margir tónleikastaðir hætt rekstri en þar má nefna NASA, Faktorý, Sirkus og Broadway. Íslenska rokkbarinn í Hafnarfirði hefur fært sig um set og Hellirinn hefur hætt tónleikahöldum. Húrra hefur verið sérstaklega mikilvægur fyrir jaðarlistasenuna

Tónleikastaðir að hverfa

Ingi Þórisson tónlistarmaður segir að það hafi verið skellur að heyra að sportbar muni koma í staðinn fyrir tónleikastaðinn og barinn Húrra.

„Húrra hefur alltaf verið einn af stærri tónleikastöðunum í bænum. Tónleikastaðir eru að hverfa. Þetta hefur verið að gerast hægt og bítandi síðan TÞM hættu að halda tónleika og jaðartónlistarsenan hefur fengið að kenna á því,“ segir Ingi í samtali við Fréttablaðið. Ingi hefur verið viðloðandi tónlistarsenuna í meira en áratug.

„Við þurfum ekki á öðrum sporbar að halda en okkur vantar tónleikastaði.“

Mikill missir fyrir tónlistarlífið

Geoffrey Þór Huntington-Williams, fyrrum framkvæmdastjóri Húrra, segir mikilvægt að líta björtum augum til framtíðar sama hvað. Hann segir það erfitt að reka tónleikastaði í Reykjavík.

„Það er mikill missir fyrir tónlistarlíf í Reykjavík að Húrra sé að breytast í sportbar og hafi ekki náð að halda áframhaldandi rekstri í þáverandi mynd. Við þurfum ekki á öðrum sporbar að halda en okkur vantar tónleikastaði. En á sama tíma gætu aðrir staðir eins og Iðnó og Hressó fengið meira vægi,“ segir Geoffrey í samtali við Fréttablaðið. Hann vinnur nú sem rekstraraðili Priksins og er einnig bókari.

Geoffrey segir að sama hvað muni sköpun og listalíf halda áfram. Hann segist horfa vongóður til framtíðar, þá sérstaklega hvað varðar verkefni Reykjavíkurborgar um að gera Reykjavík að tónlistarborg. Tónlistarborgin er verkefni sem María Rut Reyn­is­dótt­ir heldur utan um. Hlut­verk Maríu Rut­ar er skapa hag­stæð skil­yrði fyr­ir tón­list­ar­starf­semi í borginni. Tónleikahaldarar geta sótt um styrki til að bæta aðstöðu sína.

Landsbyggðin stendur sig betur

Tónleikastaðir hýsa einnig sýningar jaðarlistahópa, enda er nánd við áhorfendur ómissandi fyrir kabarett sýningar og stærð sviðanna fullkomin á stöðum á borð við Húrra og Gaukinn.

Margrét Erla Maack, betur þekkt sem Magga Maack, er brautryðjandi í kabarett- og burlesque senu Íslands og hefur ferðast um allt Ísland í sumar með kabarettsýningar. Magga segir ástandið talsvert betra á landsbyggðinni en í Reykjavík. Hún nefnir sérstaklega Græna hattinn á Akureyri, Havarí í Berufirði og Edinborgarhúsið á Ísafirði. Hún segir alltaf vanta upp á tónleikastaði á höfuðborgarsvæðinu.

„Það eru alls konar staðir til en það er alltaf eitthvað að; á einum stað vantar búningsherbergi, á öðrum er ekki hægt að rukka inn, svo er slæmt aðgengi á mörgum stöðum. Sumir staðir eru fullkomnir fyrir tónleikahald en slæmir fyrir sjónræna skemmtun,“ segir Magga.

„Það geta ekki allir verið í Hörpunni,“ bætir hún við.

Allir taka undir að Gaukurinn sé í dag einn besti staðurinn fyrir tónleikahöld og er staðurinn að vinna í því að bæta aðgengið. Gaukurinn er staðsettur fyrir ofan Húrra. Þar er ágætt hljóðkerfi, búningsherbergi og eru daglegir viðburðir með kabarett sýningum, dragsýningum og tónleikum.