Tónleikar *** og hálf

Kórinn Við­lag söng lög úr ýmsum áttum
Tón­listar­stjórn, kór­stjórn, undir­leikur og píanó­leikur: Axel Ingi Árna­son.
Leik­stjórn: Agnes Wild
Gaflar­a­leik­húsið
þriðju­daginn 8. júní

Ís­lenskur grín­isti sagði einu sinni að fúga væri það þegar hljóð­færin koma inn eitt og eitt í einu og á­heyr­endur fara út einn og einn í einu. Meistari fúgunnar var Bach, en margir aðrir hafa spreytt sig á að semja fúgur, sem eru eins konar keðju­söngur á sterum. Sjálfur Glenn Gould samdi fúgu, sem er sungin. Textinn er húmorískur og fjallar um það að semja fúgu og þau vanda­mál sem þá koma upp.
Svipuð hug­mynd lá til grund­vallar ó­venju­legra kór­tón­leika sem voru haldnir í Gaflar­a­leik­húsinu á þriðju­dags­kvöldið. Tón­listin var öll úr söng­leikjum og Dis­n­ey-myndum. Textanum hafði þó verið breytt og var um það að stofna kór fyrir söng­leikja­nörda, um sím­töl til efni­legra söngvara, söng­prufur, sam­band stjórnanda og kór­með­lima, rifrildi og meting, en líka kær­leika og vin­áttu.

Ekki sundur­laust

Stjórnandi kórsins var Axel Ingi Árna­son og hann var allt í öllu, spilaði á píanó og sá um tón­listar­stjórn. Lögin voru eftir höfunda á borð við Charles Strou­se, Alan Men­ken, Marc Shaiman og marga fleiri. Söng­leikja­tón­list er í rauninni ó­sköp keim­lík að forminu til, hún hefur á­kveðna stígandi, sem birtist í fjöl­breyttari hljóma­gangi en gengur og gerist í poppinu. Stígandin er þó alltaf svipuð og kemur sjaldnast á ó­vart. Þetta eru klisjur á klisjur ofan, sem er í fínu lagi, því tón­list þarf ekki alltaf að vera ein­hver intellektúal rembingur.
Hvert einasta lag var flutt af gríðar­legri inn­lifun. Þetta voru ekki bara tón­leikar, heldur hafði dag­skráin á sér söng­leikja­yfir­bragð, með alls konar leik­rænum til­þrifum. Þau virkuðu eðli­lega undir leik­stjórn Agnesar Wild. Agnes og Axel Ingi sömdu ein­mitt hand­rit tón­leikanna. Sviðs­hreyfingarnar, sem voru undir stjórn Birnu Björns­dóttur og Katrínar Mistar Haralds­dóttur, voru af­slappaðar og flæðandi, og heildar­myndin því falleg.

Mis­góður söngur

Söngurinn sjálfur var dá­lítið mis­jafn. Ein­söngs­strófur nokkurra kór­með­lima komu ekki nægi­lega vel út, en heil ein­söngs­lög, sem voru í höndunum á ó­líkum söngvurum, voru yfir­leitt for­kunnar­fögur. Kór­söngurinn sjálfur var nokkuð hrár, og hefði þurft að fága meira; stundum var nánast eins og hver syngi með sínu nefi. Inn á milli var hann hins vegar prýði­legur.
Textinn var skondinn og maður skellti upp úr oftar en einu sinni. Hann var rauði þráðurinn í sýningunni, límið sem hélt öllu saman. Stemningin var góð á tón­leikunum; þau voru ófá húrra­hrópin og blístrin. Í heimildar­mynd um þunga­rokks­hljóm­sveitina Metalli­ca, Some Kind of Monster, kemur fram að hljóm­sveitin ferðast með geð­lækni með­ferðis. Hljóm­sveitar­með­limir eru búnir að vera svo lengi starfandi að þeir þola ekki hver annan lengur og þurfa geð­lækni til að fúnkera. Sú var örugg­lega ekki raunin hér.