Sænski loft­lagsaktív­istinn Greta Thun­berg mun prýða for­síðu fyrsta tölu­blaðs Vogu­e í Skandinavíu en með henni á myndinni er ís­lenski hesturinn Gandalf. „Hún er orðin rödd kyn­slóðar og eitt þekktasta nafn heimsins,“ segir í til­kynningu um málið.

Í við­tali í blaðinu sagði Thun­berg að þegar litið sé yfir mann­kyns­söguna hafi ungir ein­staklingar knúið fram stærstu breytingarnar. „Ef við hefðum ekki trúað því að við gætum gert þessar breytingar, þá værum við ekki að þessu. Það erum við sem höfum ekki gefist upp, höldum í vonina, og erum enn bjartsýn,“ segir Thun­berg.

Að því er kemur fram í til­kynningu sýnir for­síðan sam­spil náttúru, dýra og mannsins en myndin var tekin í skóg­lendi skammt frá Stokk­hólmi. „Ástin og virðingin fyrir náttúru og dýra­lífinu er eitt­hvað sem sam­einar öll fimm Norður­löndin,“ segir Martina Bonni­er, rit­stjóri blaðsins, um málið.

Í fyrsta tölu­blaðinu er lögð megin­á­hersla á náttúru, þar sem kast­ljósinu verður varpað sér­stak­lega á fal­legt landslag og um­hverfi í Norður­löndunum. Thun­berg varð fyrir valinu á for­síðuna fyrir þrot­lausa bar­áttu sína gegn lofts­lags­vánni og segir rit­sjórn blaðsins Thun­berg fanga grunn­gildi þeirra.

Myndin á for­síðunni var tekin af hjónunum Matthias og Iris Alexandrov Klum en þau tóku sitt hvora myndina sem síðan voru settar saman til þess að ná loka­myndinni. Allur fatnaður sem Thun­berg klæðist er úr endur­nýttum og um­hverfis­vænum efnum.

Thunberg og Gandalf á forsíðu blaðsins.
Mynd/Vogue/Alexandrov Klum
Mynd/Vogue/Alexandrov Klum