Ljóðskáldin Anton Helgi Jónsson, Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir og Alda Björk Valdimarsdóttir koma fram á fyrstu Kveikju haustsins í Borgarbókasafninu Gerðubergi á miðvikudag kl. 20.00. Þar munu þau fjalla um innblástur, sköpunarferli og efnivið í nýlegum ljóðabókum sínum og lesa upp úr nýlegum bókum sínum.

Kveikja er röð hugvekja lista og fræða um eld, innblástur, skrif, skáldskap, hugsun, skynjun og sköpun. Kveikja þessara viðburða sprettur frá goðsögninni um Prómeþeif sem færði fórn þegar hann stal eldinum frá guðunum og gaf mannfólkinu að gjöf. Eftir það var hann fjötraður við klett og örn át úr honum lifrina dag hvern til að refsa honum en á hverri nóttu greri lifrin aftur. Umsjónarmaður hugvekjanna er Soffía Bjarnadóttir.

Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir er leikskáld, þýðandi og dramatúrg og starfar sem listrænn ráðunautur í Þjóðleikhúsinu. Meðal leikrita hennar eru Ég er meistarinn og Hægan, Elektra og í ár sendi hún frá sér sína fyrstu ljóðabók, Skepna í eigin skinni. Alda Björk Valdimarsdóttir, er doktor í almennri bókmenntafræði og dósent í faginu við Háskóla Íslands. Hún sendi frá sér ljóðabókina.

Við sem erum blind og nafnlaus árið 2015 og bókina Við lútum höfði fyrir því sem fellur 2022. Anton Helgi Jónsson hefur verið mikilvirkur á ritvellinum, sent frá sér ljóð, leikrit, skáldsögu og þýðingar. Tíunda ljóðabók hans, Þykjustuleikarnir, kom út fyrr á þessu ári og nýlega hlaut hann Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar.

Viðburðurinn stendur yfir frá klukkan 20.00 til 21.15 í Borgarbókasafninu Gerðubergi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.