Aðspurð hvort hún versli mikið á netinu segir Steinunn: „Ég hef verið að kaupa snyrtivörur og krem frá íslenskum vefsíðum því ég kann ekkert á svoleiðis og finnst betra að vera heima og lesa texta um vöruna en að vera eins og bjáni í búðinni að spyrja hvort eitthvað sé augnskuggi eða kinnalitur.

Ég kaupi líka eiginlega allan mat frá Heimkaup og sama með gjafir ef ég er til dæmis að fara í afmæli. Bækurnar sem mig langar í og er verið að auglýsa á þeim bókasíðum sem ég fylgist með eru sjaldan til á Íslandi. Því kaupi ég bækur frá Book Depository. Ég nota líka erlendar vefverslanir mikið til að kaupa bækur fyrir son minn því hann elskar ofurhetjur og það er ótrúlega lítið úrval af ofurhetjubókum fyrir yngri börn á Íslandi.

Ég myndi kaupa leikföng á netinu nema ég hef ekki fundið neina almennilega síðu fyrir ungan ofurhetju- og Star Wars áhugamann. Svo er ég með smá veikleika gagnvart 70% rýmingarsölum á fötum þar sem er enginn heimsendingakostnaður. Ég er virkilega hrifin af því að versla á netinu en mér finnst sendingarkostnaður mjög fráhrindandi,“ segir Steinunn, sem starfar sem umsjónarmaður Listasalar Mosfellsbæjar. Hún er guðfræði-, myndlistar- og ritlistarmenntuð.

Skórnir virkuðu mun gylltari á myndinni á vefsíðunni en þeir voru í raun og voru líkari skónum á vinstri myndinni.
Mynd/Aðsend.

Þannig að nú er ég 38 ára gömul kona í bleikum skóm... og þeir eru með glimmerreimum líka!

Bleikir skór á afslætti

Steinunn segist hafa gert ýmis vafasöm kaup á netinu og ein af þeim eru götuskór sem hún fékk á góðum afslætti. „Mig vantaði götuskó og sá að það var einhver rosa útsala í einni vefversluninni. Ég fann eina sem virkuðu ljósbrúnir eða jafnvel aðeins gylltir á myndinni. Það var bara til eitt par eftir sem var einmitt mín stærð. Mér fannst þeir flottir svo ég pantaði skóna. Þegar ég fór að sækja þá kom í ljós að þeir eru bleikir og sanseraðir. Glampinn frá áferðinni hefur greinilega blekkt myndavélina. Þannig að nú er ég 38 ára gömul kona í bleikum skóm... og þeir eru með glimmerreimum líka!“

Steinunn segir að hún hafi þó ekki skilað skónum þrátt fyrir áfallið. „Ég nennti ekki að senda þá til baka þannig að ég fór að nota þá og núna elska ég þá. Ég hef aldrei fengið eins mikið af hrósi fyrir skó á ævi minni!“ Aðspurð hvort þessi kaup hafi fengið hana til þess að stíga enn frekar út fyrir þægindarammann þegar kemur að tísku, neitar hún. „Ég veit ekki alveg með það en ég er stolt yfir því að geta „púllað off“ svona flippaða skó!