Lilja Dögg Al­freðs­dóttir, menningar­ráð­herra, af­henti Ný­ræktar­styrki rétt í þessu til höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á rit­vellinum. Guð­mundur Magnús­son, Nína Ólafs­dóttir og Örvar Smára­son hlutu öll styrk sem nemur hálfri milljón króna. Af­hendingin fór fram í Gunnars­húsi og er það Mið­stöð ís­lenskra bók­mennta (MÍB) sem veitir styrkina.

Sex­tíu hand­rit bárust og að sögn MÍB eru verkin sem hljóta viður­kenninguna í ár afar fjöl­breytt. Um er að ræða eina ljóða­bók, eina skáld­saga og eitt smá­sagna­safn og yrkis­efnin eru af ýmsum toga; bar­áttan við geð­sjúk­dóma, ægi­vald náttúrunnar á heim­skauta­slóðum og mörk hins hvers­dags­lega og hins furðu­lega í lífi okkar.

Ný­ræktar­styrkir hafa verið veittir frá árinu 2008, á bilinu tveir til fimm styrkir á ári. Valið er úr inn­sendum hand­ritum og að valinu standa bók­mennta­ráð­gjafar Mið­stöðvar ís­lenskra bók­mennta, með sam­þykki stjórnar. Ráð­gjafar í ár voru þau Hanna Steinunn Þor­leifs­dóttir og Ingi Björn Guðna­son. Lesa má nánar um verð­launa­höfundana og verk þeirra hér að neðan.

Talandi steinar eftir Guð­mund Magnús­son

Í um­sögn bók­mennta­ráð­gjafa um verkið segir meðal annars að það sé „ljóða­bálkur þar sem lýst er á á­hrifa­ríkan hátt dvöl ljóð­mælanda á geð­deild og viður­eign hans við sálar­angist og söknuð.“

Höfundur er sagður yrkja af næmni og skilningi á við­fangs­efninu og þá er mynd­máli bókarinnar lýst sem lág­stemmdu en sterku.

„Þetta heild­stæða verk býr yfir fram­vindu um leið og hvert ljóð stendur sjálf­stætt sem sjón­hending inn í til­veru þeirra sem glíma við geð­sjúk­dóma.“

Guð­mundur Magnús­son (f. 1981) er kvik­mynda­gerðar­maður og skáld fæddur og upp­alinn í Garðinum á Suður­nesjum. Hann gefur út tíma­ritið Skip­hóll tvisvar á ári og hefur áður sent frá sér smá­sögur í tíma­ritum. Talandi steinar mun koma út á vegum bóka­út­gáfunnar Bjarts.

Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafs­dóttur

Í um­sögn bók­mennta­ráð­gjafa segir að skáld­sagan „lýsir á næman og grípandi hátt ægi­valdi náttúrunnar á heim­skauta­slóðum, þar sem manneskjan ein má sín lítils.“

„Höfundur skapar á­þreifan­lega nánd við ó­vægin náttúru­öflin, teiknar upp harða lífs­bar­áttu í ís­köldu vetrar­ríki og elur á ó­vissu um nánustu fram­tíð.“

Nína Ólafs­dóttir (f. 1986) er líf­fræðingur og rit­höfundur bú­sett á Norður­landi. Hún lauk B.Sc. prófi í líf­fræði frá Há­skóla Ís­lands 2013 og M.Sc. prófi frá Há­skólanum á Hólum 2015 með á­herslu á vatna­vist­fræði. Hún hefur starfað sem leið­sögu­maður með fram öðrum verk­efnum frá 2019 og starfaði áður sem líf­fræðingur á Haf­rann­sóknar­stofnun.

Svefn­gríman eftir Örvar Smára­son

Svefn­gríman er smá­sagna­safn sem hefur að geyma átta sögur sem dansa á mörkum hvers­dags­legra frá­sagna og furðu­sagna.

„Höfundur hefur gott vald á smá­sagna­forminu, vinnur mark­visst með af­mörkuð sögu­svið og sam­spil per­sónanna við ólík rými. Hann hefur næmt auga fyrir smá­at­riðum sem vega þó þungt í heildar­mynd hverrar sögu fyrir sig. Sögurnar eru harm­rænar og sárs­auka­fullar en um leið hafa þær húmorískan undir­tón,“ segir í um­sögn bók­mennta­ráð­gjafa um verkið.

Örvar Smára­son (f. 1977) er ljóð­skáld, rit­höfundur, tón­listar­maður og tón­skáld. Hann er menntaður í hand­ritas­krifum frá kvik­mynda­skólanum FAMU í Prag, er með BA gráðu frá Há­skóla Ís­lands í kvik­mynda­fræði og út­skrifaðist úr meistara­námi í rit­list vorið 2021. Hann hefur áður sent frá sér tvær bækur árið 2005 í sam­starfi við Ný­hil, nóvelluna Úfin, strokin og ljóða­bókina Gamall þrjótur, nýir tímar. Örvar er stofnandi hljóm­sveitarinnar múm og einn stofn­með­lima hljóm­sveitarinnar FM Belfast.