Að­dá­endur sjón­varps­þáttanna The Crown ættu að geta andað léttar þar sem þriðja þátta­röðin var gerð að­gengi­lega á streymis­veitu Net­flix í dag. Um er að ræða næst dýrustu sjón­varps­þætti sögunnar enda er svið­setning þáttanna að mati flestra ó­að­finnan­leg.

Þátta­röðin inni­heldur tíu þætti og á sá fyrsti að hefjast árið 1964. Á­horf­endum gefst síðan tæki­færi til að fylgjast með þrettán ár í lífi drottningar. Það gengur ýmis­legt á í Bret­landi á þessum árum þegar breska hag­kerfið staðnaði og ung­linga­hreyfingar hófu mót­mæli með til­heyrandi hippa­tísku og bítla­músík. Í fram­haldinu kom upp um­ræða um opin­beran kostnað af konungs­fjöl­skyldunni. Elísa­bet drottning gaf ekki kost á sér í við­töl við þess konar spurningum og hélt sig mikið í Windsor.

Claire Foy fór með hlutverk Elísabetar í fyrri þáttaröðum.

Þotu­lið leikara túlkar konungs­fjöl­skylduna

Það þykir sterkt út­spil hjá Net­flix að skipta út leik­konum fyrir þriðju þátta­röðina og ráða jafn öflugan karakter og Oli­viu Col­man sem er marg­verð­launuð. Í fyrri þátta­röðum var það leik­konan Claire Foy sem fór með hlut­verk drottningar sem þá var ung og brot­hætt. Í þessum þáttum hefur hún komið sér upp sterkari skel og Olivia Col­man þykir minna mikið á Elísa­betu í út­liti.

Breska leik­konan, Emma Corrin, verður í hlut­verki Díönu prinsessu í þáttunum og Josh O'Connor túlkar Karl Breta­prins á full­orðins­árum. Það þykir ljóst að ekki allir munu fá að sofa í nótt þar sem þættirnir tíu koma allir út á sama tíma og er því af nægu að taka.