Þráinn Bertelsson lauk prófi í leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu frá Dramatiska Institutet í Svíþjóð 1977. Að námi loknu stoppaði hann stutt við hjá RÚV áður en hann fór á fullt í kvikmyndagerðina sem var aðalstarf hans, sem handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri, í fimmtán ár.

Fyrstu mynd sína gerði hann 1981 eftir hinum vinsælu barnabókum Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna. Þegar 25 ár voru liðin frá frumsýningu heyrði Fréttablaðið í Þráni.

„Já, bíddu við, er kominn aldarfjórðungur?“ segir Þráinn hugsi. „Ég held að ég hafi ekki séð myndina síðan sumarið 1981 á kvikmyndahátíð á Ítalíu. Ég er nú bara ekki þannig innritaður að ég hafi gaman af því að skoða eða lesa eitthvað sem ég hef búið sjálfur til.“

Þráinn lét þess þó getið að hann hefði fengið stöðugar athugasemdir um myndina þessi 25 ár sem þá voru liðin frá frumsýningu. „Fullorðið fólk sem sá myndina sem krakkar kemur upp að mér og þakkar mér fyrir, þó svo að það ætti frekar að þakka Guðrúnu Helgadóttur og leikurunum. Nú, og svo koma 100 kílóa viðskiptaboltar ljómandi til manns og þakka manni fyrir, mér finnst það óskaplega gaman.“

Þráinn rifjaði einnig upp að hann hafi á sínum tíma fengið nokkra gagnrýni fyrir það metnaðarleysi að eyða tíma sínum í að búa til kvikmynd handa börnum. „Þetta var fyrsta bíómyndin mín og ég ákvað að gera mynd handa börnum vegna þess að mér fannst þörfin vera mest hjá þeim. Ég hef aldrei séð eftir því síðan, en þetta varð til þess að maður var svolítið settur út í horn. Mér var sagt að ég ætti að gera kvikmyndir eins og Ingmar Bergman og fleiri, en ég hafði engan áhuga á því að fara í fötin hans, mér líður vel í mínum.“

Lífsnauðsynlegur grallaraskapur

Eftir Jón Odd og Jón Bjarna lá leið Þráins til Vestmannaeyja þar sem hann tók Nýtt líf upp og vann í raun eftir „dogma“ aðferð frænda vorra í Danmörku allnokkru áður en þeir kynntu þann stíl til sögunnar.

Nýtt líf náði gríðarlegum vinsældum þannig að Þráinn fylgdi myndinni eftir með Dalalífi, sem varð enn vinsælli en fyrirennarinn, og lokaði þríleiknum með Löggulífi.

„Grallaramyndir eins og hin þrjú líf Þráins eru nefnilega nauðsynlegur partur af filmugerð allra landa, og sú niðurlæging sem þessi listiðnaður er lentur í hérlendis gerir slíkar myndir beinlínis lífsnauðsynlegar,“ skrifaði Mörður Árnason í gagnrýni sinni um Löggulíf í Þjóðviljann 1985.

Þráinn ræddi Jón Odd og Jón Bjarna og íslenska kvikmyndalandslagið við Morgunblaðið í aðdraganda frumsýningar sinnar fyrstu bíómyndar í desember 1981.

„Það dásamlega við kvikmyndagerð á íslandi er það, að hér er næstum allt óplægður akur. Það er ekki eins og í Ameríku, þar sem vinsælustu myndirnar núna eru meira og minna endurtekningar á gömlum myndum. Þar eru menn komnir í hring. Við erum ekki komnir í hálfhring, hvað þá meira,“ sagði Þráinn sem tók hringinn með fjölbreytilegum stæl og uppsker nú löngu verðskuldaðan sóma fjórum áratugum síðar.

Framlag Þráins

Þráinn Bertelsson hlaut á sunnudagskvöld Heiðursverðlaun Eddunnar 2022 fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar, eða eins og það var orðað á verðlaunahátíðinni: „Fyrir íslenska kvikmyndagerð og okkur samstarfsfólk þitt hér í salnum verður þú alltaf brautryðjandinn sem komst eins og ferskur vindur inn í fagið með þinn einstaka hæfileika til að segja sögur og upphefja mannlega þáttinn í kómískum og oft pínlegum aðstæðum. Þitt framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar er ómetanlegt.“

Bíómyndirnar sjö sem Þráin gerði eru alls konar.
Fréttablaðið/Samsett

Jón Oddur og Jón Bjarni (1981)

Þráinn byggði sína fyrstu bíómynd á feikivinsælum barnabókum Guðrúnar Helgadóttur um tvíburabræðurna uppátektasömu Jón Odd og Jón Bjarna. Myndin fjallar um það þegar bræðurnir laumast burt úr sumarbúðum með tveimur vinum sínum og lenda þeir í fjölda ævintýra. Þeir komast hins vegar að því að þeir eru ekki einir í heiminum.

Aðalhlutverk: Páll Jósefs Sævarsson, Vilhelm Jósefs Sævarsson, Steinunn Jóhannesdóttir, Egill Ólafsson.

Nýtt líf (1983)

Þráinn kynnir þjóðina fyrir lukku­riddurunum Þór og Danna sem freista gæfunnar í verbúð í Eyjum. Þar kynnast þeir kynlegum kvistum og spennandi fólki eins og Víglundi verkstjóra, bónusvíkingnum Axel, ungfrú Snæfells- og Hnappadalssýslu, Maríu Lundadóttur, svo nokkur séu nefnd. Þeir félagar hittu þjóðina í hjartastað og vinsældirnar urðu til þess að ný líf þeirra og ævintýri voru rétt að byrja.

Aðalhlutverk: Eggert Þorleifsson, Karl Ágúst Úlfsson, Elva Ósk Ólafsdóttir.

Dalalíf (1984)

Eftir að hafa brennt flestar brýr að baki sér í Reykjavík ákveða svikahrapparnir og meintu búfræðingarnir Þór og Danni að hverfa út á land þar sem þeir taka að sér að passa upp á bóndabæ. Þar taka þeir sér ýmislegt fyrir hendur; viðra hænurnar, mála kindurnar og dreifa áburði yfir hreinan þvott.

Aðalhlutverk: Eggert Þorleifsson, Karl Ágúst Úlfsson, Hrafnhildur Valbjörnsdóttir, Sigurður Sigurjónsson.

Skammdegi (1985)

Hér kveður við mun alvarlegri tón en í fyrri myndum Þráins. Ung ekkja hefur erft helming eignar á vesturhluta landsins, en hinn helminginn á mágur hennar. Hún er tilbúin til þess að neyta allra bragða til þess að fá máginn til þess að selja sinn hluta en ekki líður á löngu þar til henni finnst einhver ókunnug manneskja sitja um hana og að lífi hennar sé ógnað.

Aðalhlutverk: María Sigurðardóttir, Eggert Þorleifsson, Ragnheiður Elfa Arnardóttir, Hallmar Sigurðsson.

Löggulíf (1985)

Enn skjóta vandræðagemlingarnir Danni og Þór upp kollinum og reka nú gæludýraþjónustu auk þess sem þeir hafa uppi mikilfengleg áform um að reyna að selja alþjóðlegum fálka­smyglara kjúklinga dulbúna sem fálkaunga. Tilviljanir verða síðan til þess að þeir eru skyndilega orðnir lögregluþjónar.

Aðalhlutverk: Eggert Þorleifsson, Karl Ágúst Úlfsson, Smári Baldursson, Lilja Þórisdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Flosi Ólafsson.

Magnús (1989)

Verðlaunamyndin Magnús fjallar um samnefndan lögfræðing sem kippir sér ekki upp við að láta bera út ekkju og munaðarleysingja en bregður í brún þegar hann fær skyndilega að vita að hann sé haldinn alvarlegum sjúkdómi.

Aðalhlutverk: Eggert Þorleifsson, Karl Ágúst Úlfsson, Smári Baldursson, Lilja Þórisdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Flosi Ólafsson.

Einkalíf (1995)

Einkalíf fjallar um þrjú ungmenni, sem komast yfir kvikmyndatökuvél og taka til við að gera heimildarmynd um foreldra sína og ættingja sem virðast við fyrstu sýn vera ofur venjulegt fólk. Þegar einkalíf fólksins er hins vegar komið í fókus myndavélarinnar kemur í ljós að undir yfirborðinu leynast skrautlegir persónuleikar sem hafa sína margvíslegu djöfla að draga.

Aðalhlutverk: Dóra Takefusa, Gottskálk Dagur Sigurðsson, Karl Ágúst Úlfsson, Ólafur Egilsson.

Sigla himinfley (1994)

Þráinn leikstýrði sjónvarpsþáttunum Sigla himinfley eftir eigin handriti. Þættirnir voru að mestu teknir upp í Vestmannaeyjum og Ríkissjónvarpið sýndi þá 1994. Sigla himinfley er meðal vinsælustu þátta íslenskrar sjónvarpssögu eins og kom berlega í ljós sextán árum eftir frumsýningu þegar DVD-útgáfa þáttanna náði metsölu hjá Eymundsson.

„Jú, það kemur mér svo sannarlega á óvart,“ sagði Þráinn 2006 þegar Fréttablaðið spurði hann hvort þetta kæmi honum ekki á óvart. „Mér þykir auðvitað óskaplega vænt um það, sérstaklega vegna þess að það er nú þannig með flesta hluti í nútímanum að þeir eiga sér ákveðinn líftíma sem er heldur skammur. Sjónvarpsmynd sem lifir einhver ár er orðið svolítið furðuverk,“ sagði Þráin og bætti við að honum þætti „voða gaman að þetta skuli vera svona endingargott.“