Það eru ekki margir leikarar sem tekst að leika sömu per­sónuna tvisvar sinnum á lífs­leiðinni, hvað þá sömu per­sónu á nýjum aldri en Þor­valdur Davíð Kristjáns­son fer með hlut­verk ljónsins Simba í annað skiptið á ævinni í endur­gerð af kvik­myndinni Lion King sem kemur út í næstu viku.

Eins og al­þjóð lík­legast veit fór Þor­valdur með hlut­verk hins unga Simba í ís­lensku tal­setningunni af upp­runa­legu teikni­myndinni sem kom út árið 1994 en að þessu sinni fer hann með hlut­verk ljónsins þegar það er komið á full­orðins­árin. Lion King er ein af ást­sælustu teikni­myndum Dis­n­ey og var lengi vel sú vin­sælasta hér­lendis í kvik­mynda­húsum.

Þor­valdur segir í samtali við Fréttablaðið það vera mikinn heiður að fá að taka þátt í tal­setningunni af endur­gerðinni. „Mér þykir auð­vitað mjög vænt um upp­runa­lega myndina og það var rosa­lega gaman að fá að taka þátt í þessari út­gáfu,“ segir Þor­valdur léttur í bragði.

„Sér­stak­lega að fá að lesa fyrir í rauninni sama hlut­verk og ég var í þegar ég var yngri en núna sem eldri maður. Og ég vona bara að fólk verði á­nægt með þessa nýju út­gáfu,“ segir Þor­valdur.

Hann segist spurður finna það hjá mörgum að þeir minnist gömlu myndarinnar með hlýju. „Ég held að gamla myndin lifi sterkt í minningunni hjá mörgum og ég hef fundið það í gegnum tíðina að fólki þykir vænt um hana,“ segir Þor­valdur.

„Enda er sagan líka af­skap­lega fal­leg, sér­stak­lega þessi upp­vaxtar­saga hjá Simba og sam­bandið á milli föður og sonar. Svo er tón­listin auð­vitað ó­trú­lega sterk og myndin auð­vitað kemur út á gull­aldar­árum Dis­n­ey,“ segir Þorvaldur. Endurgerðin er frumsýnd hérlendis á miðvikudaginn í næstu viku.