Þórunn Antonía minnist bresku söng­konunnar og vin­konu sinnar Amy Winehou­se í dag á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Til­efnið er að söng­konan hefði orðið 38 ára gömul í dag.

Söng­konan lést árið 2011, þá einungis 27 ára gömul úr á­fengis­eitrun. Þórunn minnist hennar með hlýju og lætur þess getið í færslu sinni að bestu vinir Amy hafi beðið sig um að skrifa kafla í bók um söng­konuna.

„Og ég er í Dolce and Gabbana kjólnum sem hún gaf mér,“ skrifar Þórunn í færslunni sem er á ensku. Hún segir það hafa verið blessun að hafa fengið að kynnast hæfi­leika­búnti eins og Whinehou­se.

Þórunn hefur áður tjáð sig um tíma­bilið í lífi sínu þegar hún bjó í Cam­den í London, sama hverfi og söng­konan fræga, í við­tali við Vísi árið 2011.

„Ég þekkti Amy áður en hún varð fræg og hún var yndis­leg stelpa en hrút­leiðin­leg með víni. Þegar fólk nær á­kveðnum frægðarstalli eru bara hýenur í kringum það og engir vinir. Breska pressan elskar dópista og hvetur þá til dáða til þess eins að geta rifið þá niður,“ sagði Þórunn Antonía þá.

Fréttablaðið/Skjáskot