Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir leiðréttir misskilning um að hún ætli sér að flytja frá Hveragerði á næstunni líkt og ýjað var að í frétt mbl.is á dögunum. „Ég sel ekki höllina mína hér sí svona,“ skrifar Þórunn á Facebook síðu sinni.
„Ég elska Hveragerði en ég finn líka mikinn söknuð í gamla hverfið mitt sem hefur örugglega ágerst eftir að hafa farið beint úr fæðingar orlofi í covid “heim”angrun,“ segir Þórunn í samtali við Fréttablaðið.
Þórunn lætur sig dreyma um að vera aðra hverja helgi með fastan samastað í miðbænum. „Þegar ég er barnlaus væri það tilvalið til að rækta sjálfa mig burt frá umhverfinu sem ég er orðin frekar samdauna eftir svona mikla heimveru.“

Ákvarðanir í samráði við barnsfeðurna
Þórunn viðurkennir að það geti verið einangrandi að vera einstæður þrátt fyrir að hún eigi marga að. „Allar ákvarðanir um flutning yrðu að sjálfsögðu teknar í samráði við barnsfeður mína og mín börn.“ Hún hafi aðeins kastað óskinni um flutning til Reykjavíkur fram til að sjá hvort hún myndi rætast.
„Í draumaheimi ætti ég risíbúð í Reykjavík og hús hér,“ bætir hún við. „Ég hef engar ákvarðanir tekið með þetta en finnst sannarlega gaman að hugsa um ný ævintýri.“
Lætur sig dreyma upphátt
„Áramótaheitið mitt er eiginlega að dreyma upphátt segja hvað ég vil og vera óhrædd við ævintýrin sem koma ef maður hlustar á innsæið sitt og talar um draumana,“ segir Þórunn brosandi.
„Þannig ég þigg hér með drauma íbúðina í Vesturbænum geggjaða vinnu með 2 milljónir á mánuði og besta ár lífs míns. Er það ekki svona sem það virkar að secreta?“