Söng­konan Þórunn Antonía Magnús­dóttir leið­réttir mis­skilning um að hún ætli sér að flytja frá Hvera­gerði á næstunni líkt og ýjað var að í frétt mbl.is á dögunum. „Ég sel ekki höllina mína hér sí svona,“ skrifar Þórunn á Face­book síðu sinni.

„Ég elska Hvera­gerði en ég finn líka mikinn söknuð í gamla hverfið mitt sem hefur örugg­lega á­gerst eftir að hafa farið beint úr fæðingar or­lofi í co­vid “heim”angrun,“ segir Þórunn í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þórunn lætur sig dreyma um að vera aðra hverja helgi með fastan sama­stað í mið­bænum. „Þegar ég er barn­laus væri það til­valið til að rækta sjálfa mig burt frá um­hverfinu sem ég er orðin frekar sam­dauna eftir svona mikla heim­veru.“

Þórunn Antonía lætur sig dreyma á nýju ári.
Instagram/Skjáskot

Ákvarðanir í samráði við barnsfeðurna

Þórunn viður­kennir að það geti verið ein­angrandi að vera ein­stæður þrátt fyrir að hún eigi marga að. „Allar á­kvarðanir um flutning yrðu að sjálf­sögðu teknar í sam­ráði við barns­feður mína og mín börn.“ Hún hafi að­eins kastað óskinni um flutning til Reykjavíkur fram til að sjá hvort hún myndi rætast.

„Í drauma­heimi ætti ég ris­í­búð í Reykja­vík og hús hér,“ bætir hún við. „Ég hef engar á­kvarðanir tekið með þetta en finnst sannar­lega gaman að hugsa um ný ævin­týri.“

Lætur sig dreyma upphátt

„Ára­móta­heitið mitt er eigin­lega að dreyma upp­hátt segja hvað ég vil og vera ó­hrædd við ævin­týrin sem koma ef maður hlustar á inn­sæið sitt og talar um draumana,“ segir Þórunn brosandi.

„Þannig ég þigg hér með drauma í­búðina í Vestur­bænum geggjaða vinnu með 2 milljónir á mánuði og besta ár lífs míns. Er það ekki svona sem það virkar að secreta?“