Guðni er alinn upp á stóru heimili, Brúnastöðum í Hraungerðishreppi, þar sem allur matur var nýttur, settur í súr, reyk eða saltaður. Hann var því snemma vaninn á þorramatinn. Guðni segist ekki hafa verið ýkja hrifinn af súrmat sem barn og ekki heldur hafragraut en matarsmekkurinn hafi breyst með aldrinum. „Mysan var notuð til að sýra matinn þegar ég var að alast upp. Þetta var hversdagsmatur Íslendinga í þúsund ár eða þar til tæknin kom með ísskápa og frystikistur,“ segir hann og bætir við að þorrablótin hafi hins vegar verið hafin til vegs og virðingar með miklum hugsjónaeldi, rómantík og fornaldardýrkun hjá stúdentum í Kaupmannahöfn fyrir 150 árum. „Síðan hófst þorraævintýri séra Halldórs Gröndal í Naustinu árið 1958. Ég heiðraði hann fyrir þorrablótin á mínu fyrsta ráðherraári á Búnaðarþingi,“ upplýsir Guðni og rifjar upp hvernig Halldór hafi borið þorramatinn fram í trogum og auglýst í blöðum:

Nú er þorrablót

„Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.“

„Þarna fékk þorramaturinn nýjan tón og þorrablótin urðu að tískubylgju. Frá þessum tíma eru þorrablótin orðin að árshátíð í hverjum einasta hreppi og bæjarfélögum um allt Ísland auk þess sem átthagafélögin koma saman hér í Reykjavík. Menn og konur borða þennan forna mat sem margir eiga enn minningar um frá æskuheimilum. Yngra fólkið hefur líka tekið upp þennan sið. Þorrablótin voru auðvitað í anda heiðinna manna og dýrkun við Óðin og Þór. Með matnum var drukkinn Svartidauði eða íslenskt brennivín og skálað fyrir þjóðerninu og landinu en aldrei kónginum.“

Mysan er orkudrykkur

Guðni minnir á að þorrinn og góan hafi oft verið ógnvænlegur tími hér á landi. „Menn þurftu að þreyja þorrann og góuna. Við þekkjum öll lagið Þorraþræl – Nú er frost á Fróni, frýs í æðum blóð, sem sungið er á öllum þorrablótum. Þorradagur var dagur karlmannsins og góudagur var dagur konunnar sem enn tíðkast. Bændur sögðu að stutt væri í einmánuð með hækkandi sól og að blessuð kýrin bæri. Þá kæmi mjólkin og barnið lifði af.“

Guðni minnir á að þorrablótin hafi auðvitað verið í anda heiðinna manna og dýrkun við Óðin og Þór. FRÉTTABLAÐI

Guðni segir að það að geyma matinn í mysu, eins og gert var í gamla daga, sé góð geymsluaðferð og bæti matinn og mysan sé besti orkudrykkurinn. „Hún inniheldur hollasta prótín sem völ er á í veröldinni,“ segir hann. „Mysan byggir upp vöðva og visku. Það má segja að mysan, sem var svaladrykkur okkar krakkanna og fólksins sem unnum á engjum áður fyrr, hafi verið orkudrykkur kynslóðanna. Þegar komið var með mysuna á heitum sumardögum færðist í alla líf og þróttur. Það er skömm að því að ekki séu gerðir orkudrykkir úr mysu í stað þessara sykurdrullu sem er óholl og með alls kyns öðrum aukaefnum sem eru slæm fyrir heilsuna,“ segir Guðni með sinni alkunnu djúpu röddu og leggur áherslu á orð sín ekki síður en í ræðumennskunni.

Eins og þrumuguðinn Þór

„Þorrablótin eru magnaðar menningarsamkomur. Þar er sungið, dansað og fluttar ræður. Ég var til dæmis á stærsta þorrablóti heimsins í fyrra í Kópavogi með Ara Eldjárn, þeim meistara, þrettán hundruð manns. Einnig hef ég mætt á stærstu þorrablót íþróttafélaganna, það þarf kraft og snerpu til að ávarpa þau. Það eru ekki allir sem fá hljóð í þúsund manna sal. Þá byrjar maður gjarnan á hinum forna sið: Hljóðs bið ég þá sem mig heyra og sjá, blóta vilja enn hinir bestu menn því skal þetta mót vera þorrablót, en þetta er upphaf ljóðs eftir Davíð Stefánsson. Það er gott að hafa kröftuga rödd þegar maður ávarpar gesti þorrablóta, rétt eins og þrumuguðinn Þór,“ segir Guðni og minnist sauðkindarinnar sem leggur mikið til á blótunum. „Þarna situr fólk oft í fallegum klæðum hennar, glæsilegum lopapeysum sem eru orðnar tískuvara um allan heim, og étur sauðkindina upp til agna. Það eru sviðakjammar, sviðalappir, sviðasulta, saltað og reykt kjöt, súrsaðir bringukollar og hrútspungar. Svo má ekki gleyma kæsta hákarl­inum, brennivíninu og bjórnum sem lengi var bannaður. Þarna höldum við Íslendingar í gamla hefð, fögnum því að styttist í vorið sem er ákaflega skemmtilegt og brýtur upp vetrardrungann og skammdegið.“

Halda hátíð fyrir bóndann

Guðni segir að fólk leggi mikið á sig fyrir þorrablótin, æfð séu leikrit og annálar í sveitum landsins og upp spretti listamenn og skáld. Blótin séu einstök tilhlökkunarefni í sveitum og unga fólkið sem flutt er burtu flykkist í heimahagana til að taka þátt í gleðinni. „Mér þykir allur þorramatur góður. Hangikjöt er alltaf gott og súrsaðir hrútspungar eru kóngamatur, sviðin og sviðasultan. Þá er hákarlinn hollur og góður svo það er erfitt að gera upp á milli,“ segir Guðni þegar hann er spurður um uppáhaldsmatinn. Hann þvertekur fyrir að þorramaturinn sé frekar karlayndi. „Nei, nei, konur eru alveg vitlausar í þorramatinn. Þær setja líka svip á þorrann og halda bónda sínum hátíð. Síðan kemur góan og þá halda kvenfélögin víða hátíðir,“ segir Guðni og viðurkennir að eiginkonan færi honum alltaf gjöf á bóndadaginn. „Ég færi henni síðan blómvönd á konudaginn eins og myndarlegir eiginmenn eiga að gera.“