Þorrinn gengur í garð með bóndadeginum á föstudaginn en þorrabjórinn flæddi inn á markaðinn fyrir síðustu helgi og þar er að venju af nægu að taka fyrir bjóráhugafólk sem þó er varla búið að rýma fyrir nýjum birgðum eftir allt jólabruggið.

„Þetta er alltaf að verða meira og meira og umfangsmeira eftir því sem árin líða,“ segir Sveinn Waage, bjórsérfræðingur og skólastjóri Bjórskóla.net, um árstíðabundnu bjórbylgjurnar.

„Við sáum fyrst einhvers konar nýja bjóra koma í kringum jólin en núna eru árstíðirnar orðnar fleiri og verða alltaf stærri.“ Sveinn bendir þannig á að eitthvað um 25 tegundir af þorrabjór séu í gangi núna.

„Þetta þorratengda bara núna er mest bjórar en eitthvað brennivín líka en það sem skýrir þetta árstíðabrjálæði er að þar opnast gluggi fyrir minni brugghúsin til að koma með eitthvað nýtt. Sýna sig og sjá aðra, en þannig stendur sölutímabilið í þorrabjórnum frá 13. janúar til 19. febrúar.

Þetta eru rétt rúmlega fimm vikur og svo er það bara búið,“ heldur Sveinn áfram og bendir á að á meðan kerfið í kringum sölu í ÁTVR er við lýði verði þessir árstíðagluggar, jól, þorri, páskar og þess háttar, mikið notaðir til þess að koma með nýjungar á markaðinn.

„Þetta er kannski ástæðan fyrir því að það er svona mikið líf á þessum tímabilum sem er ofboðslega skemmtilegt fyrir bjóráhugafólk. Þetta heldur líka öllum brugghúsum á tánum og það er að myndast svona pláss fyrir árstíðabjóra drjúgan hluta ársins sem er bara hið besta mál.“

Þorramaturinn þykir miskræsilegur en Sveinn segir ekkert lagt sérstaklega upp með að brugga „vondan“ þorrabjór í stíl við það sem er á troginu. „Núna má svo að segja í rauninni allt í þessum árstíðabjórum. Það eru engar sérstakar reglur. Maður hefði til dæmis haldið að súr bjór væri stór partur af þorrabjór, og þeir eru þarna nokkrir, en það er ekki algilt.“

Sveinn bendir á að leikur með tungumálið komi einnig við sögu. „Eins og til dæmis Frýs í æðum bjór, frá Ölvisholti. Það er ekki súr bjór. Og Steðji er með bjór sem heitir Hvalur 2 sem tengist náttúrlega einum frægasta þorrabjór allra tíma þegar þeir muldu hvals­eistu ofan í bjórinn sem ég held að enginn hafi beðið um,“ segir Sveinn og hlær.

„Þeir eru að vísa í hann en eru þarna með venjulegan „dunkel“ sem er bara dökkur lagerbjór ættaður frá Þýskalandi en þarna eru þeir að nota hvalinn.“

Surtur, frá brugghúsinu Borg, er sjálfsagt meðal þekktustu þorrabjóranna en Sveinn telur líklegt að „Captain Morgan“ kynslóðin eigi eftir að eiga erfitt með að standast útgáfu þessa árs, Surt 8.15.

„Surtur hefur komið í alls konar útgáfum en það sem þeir hafa verið að gera er að láta þennan upprunalega liggja í alls konar tunnum og ílátum og hér erum við að tala um eitthvað í líkingu við sykrað og gott romm, sko. Málið með Surt náttúrlega bara að hann og svo margir aðrir Þorrabjórar er að þeir eru sterkir. Sérstaklega Surtur sem er þá kominn um og yfir 10% þannig að ef þú ert að drekka mikið af honum þá geturðu lent í að fara inn í vitlaust hótelherbergi,“ segir Sveinn og hlær.

Þá segir hann aðspurður að möguleikarnir í bjórgerðinni séu óþrjótandi og engin hætta á öðru en að nýjungarnar muni halda áfram að flæða fram. „Ef það er eitthvað sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þá er það að ekki sé verið að reyna á bragðlauka bjóraðdáenda. Ég get alveg lofað því að það eru allt of mörg tækifæri til þess á hverju einasta ári að smakka eitthvað nýtt.“