„Þetta bara sló í gegn og var mjög skemmtilegt,“ segir grínarinn Þórhallur Þórhallsson, sem var í hópi íslenskra grínista sem gerðu strandhögg í Færeyjum að undirlagi Dávs í Dali, færeysks kollega sem hefur verið að troða upp í Reykjavík.

„Honum datt í hug að það gæti verið sniðugt að vera með uppistand í Færeyjum og við fórum til Þórshafnar og urðum fyrst til að vera með uppistand á ensku í Færeyjum. Þannig að við vissum ekkert hvort fólk myndi yfirhöfuð mæta eða hefði einhvern áhuga á þessu, en við vorum með þrjár fullar sýningar þannig að þetta gekk mjög vel.“

Þórhallur og Eggert Smári, félagi hans, ákváðu síðan að nýta ferðina með því að taka nokkra daga í Kaupmannahöfn og freista þess að troða þar upp. „Við vissum ekkert hvort við myndum komast á svið eða ekki og leituðum bara að svokölluðum „open mike“ kvöldum.“


Þeim var bent á að fara á Comedy Zoo, sem reyndist þegar á hólminn var komið vera stærsti uppistandsklúbburinn í Danmörku. „Við mættum þangað og spurðum eigandann hvort það væri nokkur séns á að við tveir fengjum að hoppa upp á svið.“
Sá taldi að það ætti að vera í lagi og Þórhallur endaði óvænt með hljóðnemann fyrir 160 manna sal. „Ég er sendur þarna á sviðið og á eftir mér er Frank Hvam,“ segir Þórhallur og hlær. „Bara stærsta grínstjarna Danmerkur. Þannig að það var eiginlega svolítið klikkað að hann skyldi hleypa okkur upp á svið.

Frank er náttúrlega snillingur. Hann var á heimavelli þannig að það varð allt vitlaust þegar hann byrjaði. Alltaf góður,“ segir Þórhallur, sem náði að kasta kveðju á Klovn-stjörnuna baksviðs áður en hann fór á svið að gera grín að gestgjöfunum, Dönum, og dönskukennslu í íslenskum skólum. „Þeir tóku vel í það.“

Frank Hvam er þekktastur fyrir fílfagang í þáttunum Klovn ásamt félaga sínum Casper Christensen og átti að vonum salinn í Comedy Zoo.

Heimkomnir halda þeir félagar áfram að skemmta, en á sunnudagskvöld heldur Þórhallur áfram að hita upp. Núna á Spot í Kópavogi fyrir kanadíska grínistann Mark Hughes. „Hann var valinn fyndnasti grínistinn í Vancouver. Þetta er strákur sem var í mikilli neyslu og talar mikið um það að hann var í fangelsi en er búinn að vera edrú núna í einhver fimmtán ár, þannig að hann hefur frá ýmsu að segja.

Eggert Smári er að skipuleggja þetta og honum fannst viðeigandi að fyndnasti maður Íslands á ónefndu ári myndi skemmta með honum,“ segir Þórhallur og hlær. „Þannig að þema kvöldsins er svona svolítið fyndnasti maður Vancouver og fyndnasti maður Íslands.“

Skemmtunin á Spot hefst klukkan 21 á sunnudagskvöld og miðar eru seldir á thesecretcellar.is en heimasíðan er opin þótt búið sé að loka Secret Cellar, sem var lengi varnarþing íslenskra uppistandsgrínara.