Útvarpskonan og lögfræðingurinn Þórdís Valsdóttir segir frá því hvernig hreyfing hefur bjargað hennar andlegu heilsu í nýjasta hlaðvarpsþætti 360 gráður heilsa í umsjón Rafns Franklín.

„Maður smellir fingri til að fá lyf, síðan er ekki eins auðvelt að hætta á þeim,“ upplýsir Þórdís sem hætti að nota kvíða- og þunglyndislyf fyrir ári siðan.

„það verður vendipunktur þegar ég byrja að taka geðlyf fyrir fjórum árum síðan, það var kannski svona lágpunktur myndi ég segja, og þegar maður nær botninum þá er eina leiðin upp, það var svolítið þannig í mínu tilfelli,“ segir Þórdís og bætir við að hún hafi ætlað vera á lyfjum í eitt ár og áttaði sig ekki að bara það eitt að fara út að ganga hefði getað haft góð andleg áhrif á hana.

Gekk á vegg og bað um aðstoð

Þórdís rifjar upp æskuna og hún hafi átt frekar leiðinlega sögu, ef svo má segja, „ég hef lent í ýmsum áföllum og misst nána ástvini og fleira, það var kannski búið að byggjast upp í lengri tíma og þetta hefur verið suðupunktur að einhverju leiti,“ segir Þórdís sem var á þeim tíma í krefjandi námi og hafði þá nýlega verið búin að eignast annað barn sitt „ harkið sem því fylgir að vera í námsmaður með lítil börn og hugsa um heimilli þá sauð upp úr og eiginlega gekk ég á vegg,“ upplýsir hún og segist hafa þá leitað til læknis og farið á lyf.

Þórdís missti systir sína á unglingsárum sem og að hún varð ófrísk mjög ung. Hún misst það barn langt gengin á meðgöngu og tók þessi verkefni á hnefanum og ýtti þeim í raun til hliðar.

“Ég hrósaði sjálfri mér fyrir að vera rosalega sterk,“ segir hún og bætir við að hún man varla eftir þessum árum í lífi hennar sem eru enn í móðu.

Uppljómun með hreyfingu

Vegferð Þórdísar hefur leitt hana á góðan stað, hún hefur fundið bata á andlegri líðan með hreyfingu og útiveru, en hún byrjaði að hreyfa sig markvisst fyrir einu og hálfur ári síðan.

„Það var algjör vendipunktur þegar ég uppgötvaði hvað hreyfing getur gert mikið, það var eins og uppljómun.“ segir Þórdís.

„Ég byrjaði að hreyfa mig út í kringum þetta heimsfaraldursævintýri, að fara út að ganga, út að hlaupa og fara á fjöll, þar fann ég mína fjöl,“ upplýsir Þórdís og bætir við að það að vera úti gefur henni bæði súrefnið, endorfínið og sólarljósið.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.