Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, Gísli Einars­son sjón­varps­maður og Hall­grímur Ólafs­son leikari voru í hópi 177 ein­stak­linga sem stukku í sjóinn í góða veðrinu á Akra­nesi í dag.

Til­efnið var á­heita­söfnun fyrir Svein­björn Reyr sem lenti í al­var­legu slysi í fyrra og er mark­miðið að kaupa sér­smíðað raf­hjól fyrir hann. Það var hópur sem gengur undir nafninu Ár­gangur 71 á Akra­nesi sem stóð fyrir þessum skemmti­lega við­burði og var mark­miðið að fá að minnsta kosti 71 stökkvara til að stökkva í sjóinn af smá­báta­bryggju­svæðinu á Akra­nesi.

Sem fyrr segir stukku þó 177 ein­staklingar og var sá yngsti fimm ára. Þór­dís Kol­brún reið á vaðið en Gísli Einars­son rak lestina þegar hann stökk út í í rauðum jakka­fötum.

Fjöldi þekktra Skaga­manna tók þátt í við­burðinum en auk þeirra sem nefndir eru hér að framan má nefna sjálfan bæjar­stjórann, Sæ­var Frey Þráins­son, út­varps­manninn Óla Palla, veður­frétta­manninn Theo­dór Frey Her­vars­son, Bjarn­heiði Halls­dóttur, for­mann Sam­taka ferða­þjónustunnar og nokkra bæjar­full­trúa.

Ár­gangur 71 á Akra­nesi, eða Club 71, er fé­lags­skapur sem staðið hefur fyrir ýmsum góð­gerðar­málum og menningar­við­burðum á Akra­nesi síðustu árin. Ber þar hæst Þorra­blót Skaga­manna sem hópurinn kom í gang og sá um í 10 ár en þessi við­burður hefur gefið af sér nokkrar miljónir ár­lega sem runnið hafa ó­skipt til góð­gerðar- og í­þrótta­mála á Akra­nesi.

Einnig mætti nefna Brekku­söng bæjar­há­tíðarinnar Írskra daga sem er bæjar­há­tíð Akra­nes, en þennan við­burð sækja þúsundir manna. Ýmsir ein­stakir við­burðir hafa verið haldnir á vegum fé­lags­skaparins í gegnum tíðina en hópurinn fékk Menningar­verð­laun Akra­nes­kaup­staðar árið 2017.

Frá vinstri: Þórdís Kolbrún ráðherra, Pétur Magnússon úr Árgangi 71, Sigrún formaður Björgunarfélags Akraness, dætur Sveinbjörs og Guðný eiginkona hans, Sveinbjörn sjálfur, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness og Hallgrímur Ólafsson leikari.
Mynd/Aðsend
Hallgrímur leikari sýndi listir sínar á bryggjunni.
Mynd/Aðsend