Þór Guðnason, einkaþjálfari og jógakennari til 20 ára, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar. Í viðtalinu er komið víða við en Þór vinnur nú með hugvíkkandi efni. Hann var sjálfur kominn á mjög erfiðan stað fyrir nokkrum árum þrátt fyrir áratugi af vinnu við að hjálpa öðrum við að bæta heilsuna.
„Ég er með þann eiginleika að geta gengið algjörlega fram af mér ef ég er með ástríðu fyrir einhverju. Ég vann mig næstum því til dauða þegar ég var að byggja Primal Iceland. Ég verð alltaf stoltur af því að hafa tekið þátt í að stofna Primal og finnst frábært að sjá það sem Einar Carl og aðrir eru að gera þar núna. En ég var sjálfur orðinn gríðarlega þunglyndur þegar ég var að vinna þar eftir að hafa gengið svona langt fram af mér. Það héldu allir að ég væri í frábærum málum, en ég var svo þunglyndur að nánast alla daga hugsaði ég um að ég vildi ekki lifa og jafnvel bara að klára þetta. Þetta var líklega sambland af áföllum í æsku og því að ég hafði keyrt mig tvisvar sinnum mjög illa í „burnout”,” segir Þór meðal annars í viðtalinu.
Þjáðst sjálfur alla ævi
Hann segist hafa þurft að kafa djúpt og ferðast inn í frumskóga Amazon til að finna loksins frelsi og hamingju á ný.
„Ég hef verið að reyna að hjálpa fólki síðan ég var 22 ára gamall. En ég hef í raun þjáðst sjálfur alla ævi og sé núna að ég skammaðist mín fyrir mína eigin sögu og mína eigin líðan. Ég hef fengið tækifæri til að heila sjálfan mig eftir að ég uppgötvaði plöntukennara í Suður-Ameríku. Ég var með mikið af sárum á sálinni, gömul áföll og fleira, sem ég hef loksins náð að sjá almennilega og fengið tækifæri til að laga sjálfan mig. Inni í þessum ferðalögum með hugvíkkandi efni fékk ég að endurupplifa marga þessa hluti og gat melt þá sem fullorðinn einstaklingur. Ég fékk til dæmis að upplifa það aftur þegar ég drukknaði næstum því 12 ára gamall og gat loksins losað öll þau áhrif sem það hafði á mig. Ég hef líka fengið að melta alla skömmina sem ég gekk með árum saman og er loksins búinn að upplifa alvöru frelsi.“
Upplifði kraftaverk
Hann talar í þættinum opinskátt um vinnu sína með plöntur og hugvíkkandi efni. Þegar þátturinn var tekinn upp var hann nýkominn frá Mexíkó:
„Ég hef verið að starfa með plöntur bæði hér heima og erlendis og var núna nýlega beðinn um að fara með einstakling í meðferð til Mexíkó sem var mjög langt leiddur í fíkn. Við fórum saman og unnum með plöntukennara sem heitir Ibogain og kemur frá Afríku. Opíum- og heróínfíklar virðast oft ná að stíga út úr meðferð með þessa plöntu og ná að losna við sína fíkn. Nú er Fentanyl-faraldur um heiminn og opíóðar eru að rústa mannslífum um allan heim. Þetta er ein erfiðasta fíkn sem til er og mjög margir lifa hana ekki af. Það var mjög vel hlúð að okkur í meðferðastöðinni í Tijuana í Mexíkó og ég upplifði ekkert minna en kraftaverk. Þessi einstaklingur er núna nokkrum vikum seinna enn laus við morfín og það er ekkert annað en kraftaverk,” segir Þór sem undirstrikar samt að það þurfi að taka þessi efni alvarlega og meðhöndla þau af virðingu.
„Það segir sig sjálft að það þarf að meðhöndla þessar plöntur af mikilli virðingu og það þarf að gera þetta í algjörlega réttum aðstæðum undir réttri handleiðslu. Þetta eru gríðarlega öflug hjálpartæki sem fólk um allan heim hefur notað í árþúsundir til að tengjast náttúrunni og sjálfu sér, en við verðum að nálgast þetta af virðingu. Ég mæli ekki með þessu fyrir neinn, nema fólk sé búið að kynna sér málið mjög vel og viti nákvæmlega hvað það er að gera. En fyrir mér er það siðferðislega rétt að hjálpa fólki að tengjast náttúrunni aftur og þess vegna tala ég um þetta opinskátt, þó að mörg af þessum efnum séu ennþá ólögleg,” segir Þór sem segir það eina sem hann hafi þurft að hugsa varðandi það að tala um þetta opinberlega vera fjölskyldan sín.
„Ég á þrjár dætur og ég hafði mestar áhyggjur af þeirra viðbrögðum og vina þeirra og þurfti að tala við þær persónulega áður og bað þær um að hlusta á þetta. En þegar ég talaði við 15 ára dóttur mína fann ég að ég gat talað inn í hjartað á henni. Hún man eftir mér þegar ég var að bugast úr þunglyndi og hún sér alveg að ég er allt annar maður í dag og hef allt aðra viðveru og er bæði betri faðir og betri manneskja almennt. Ef einhver vill loka mig inni fyrir að tala um þetta opinberlega verður það bara að vera þannig. Ég ætla að taka fulla ábyrgð á því sem ég geri og vil ekki fela það. Ég vil bera ábyrgð á öllu sem hefur átt sér stað í mínu lífi og ef eitthvað hefði verið öðruvísi sæti ég ekki í þessum stól. Ég er kominn á þann stað núna að ég verð að vera heill í öllu sem ég geri.”
Þáttinn með Þór og alla aðra þætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á heimasíðunni: www.solvitryggva.is