„Þokan er hætt og mun ekki snúa aftur,“ þetta skrifaði Alexsandra Bernharð fyrrum meðstjórnandi í hlaðvarpinu Þokan á Instagram-síðu sinni í gær.

Líkt og fyrr hefur verið fjallað um greindi áhrifavaldurinn og ljósmyndarinn Helgi Ómarsson frá andlegu ofbeldi sem hann varð vitni að þegar hann hlustaði á þættina sem þær Alexsandra og Þórunn Ívarsdóttir vinkona hennar héldu úti.

Hljóðbrot af ummælum Þórunnar í garð Alexsöndru í þáttunum fóru á milli manna og voru harðlega gagnrýnd. Í kjölfarið fóru vinkonurnar í frí og hafa ekki snúið aftur með þættina.

Nú er ljóst að þættirnir muni ekki koma til með að snúa aftur. Alexsandra deildi fréttunum með fylgjendum sínum á Instagram í gær og þakkaði hún hlustendum fyrir síðustu ár og fyrir að hafa verið partur af ferðalaginu.

Þá segist Alexsandra jafnframt ætla einbeita sér alveg að sínum Instagram-miðli á næstunni.

Sjálf sagðist Þórunn vera komin í sjálfsvinnu vegna málsins með utanaðkomandi aðila. „Ég er búin að leyfa mér að líða og vildi bara þakka ykkur sem hafið hugsað til mín og vitið hvaða manneskju ég hef að geyma. Ég þarf vikur jafnvel mánuði kannski ár til að átta mig aftur á því hver ég er. Ég er bara ábyrgð fyrir sjálfri mér,“ skrifaði Þórunn á Instagram-síðu sína fyrir stuttu.

Þórunn bað vinkonu sína jafnframt afsökunar á framkomu sinni og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir málinu fyrr en að bent hafi verið á það.

Sjálf sagðist Alexsandra í samtali við Fréttablaðið vera í áfalli eftir að umræðan um málið hófst og að hún hafi hreinlega ekki áttað sig á því sem hafði fengið að viðgangast í þáttum þeirra vinkvenna.

Hér má sjá tilkynninguna sem Alexsandra sett inn á Instagram-síðu sína í gær.
Fréttablaðið/Skjáskot