Listamennirnir eru Halla Einarsdóttir, Hanna Kristín Birgisdóttir og Smári Rúnar Róbertsson. Sýningarstjóri er Fritz Hendrik.

Smári Rúnar Róbertsson, sem býr og starfar í Amsterdam, sýnir málverk og skúlptúra.

„Verkin snúast um tvær íslenskar þjóðsögur lesnar annars vegar sem slitrótt upplifun yfirmanns og leigusala sem hálfkláruð málverk, og hins vegar hlutgerð upplifun mín sem starfsmaður og leigjandi með skúlptúrunum. Á milli sagnanna er svo málverkið Yfirmaður minn og leigusali mála af mér mynd. Í grunninn er ég að velta fyrir mér hlutverki mínu í þessum trekant. Ást þeirra er óendurgoldin ást, þar sem ég er bæði viðfangsefni löngunar, sem og einfaldlega farvegur fyrir ástríðu þeirra á milli,“ segir Smári.

„Þjóðsögurnar tvær eru Átján barna faðir í Álfheimum og Mannsskinnsskórnir, þar sem leigjandi og starfsmaður koma við sögu.“ Skúlptúr sem teygir sig upp í loft ber nafn þjóðsögunnar Átján barna faðir í Álfheimum og er gerður úr potti, sleif og kústsköftum. „Þarna vinn ég út frá því að þjóðsagan sé heimild um skúlptúr eða öfugur ekfrasis,“ segir Smári. „Sama dag og ég byrjaði að vinna þennan skúlptúr hringdi vinur minn, listamaðurinn Hreinn Friðfinnsson, í mig. Ég sagði honum að ég væri búinn að vera vesenast með risastóran gaur í pinkulitlum potti og hann fer strax að segja mér hvernig hann endurgerði sjálfur sama skúlptúr sjötíu og eitthvað, en fullvissar mig strax um það að engin muni eftir honum og það sé ekki einu sinni til stök ljósmynd, sem sagt bókstaflega úr sögunni. Fullkomið fyrir sögu úr munnlegri hefð, endursögð og endurgerð, taktfastur frasi.“

Kvenkyns fangar

Halla Einarsdóttir býr og starfar í Rotterdam. Hún sýnir skúlptúra, hljóðverk og gjörning.

„Skúlptúrinn Hoodwink vísar í hettur nýttar til þess að hylja fyrir sjón og þannig teyma ránfugla, sem og það að fæðast í sigurkufli sem sögulega hefur verið álitið forboði skyggnigáfu. Skúlptúrinn og þessi þemu um sjón, umsjón og stjórnun, eru virkjuð enn fremur í gjörningnum sem fylgir örðugu sambandi þriggja kvenna: The Falconer (sem teymir ránfugla), dóttur hennar (byggð á fyrsta kvenkyns lögregluþjóni Íslands sem þekkt var fyrir grófa meðferð á konum) og ljósmóður (byggð á franskri 16. aldar ljósmóður að nafni Louise Bourgeois),“ segir Halla.

„Með skúlptúrunum og hljóðverkinu Cochineal, Cinnabar er ég svo að skoða það að roðna, þetta skrýtna líkamlega viðbragð við skömm, sektarkennd og löngun sem hefur stundum verið talin hulin ráðgáta innan sálfræðinnar,“ segir Halla. „Verkið skoðar einnig brotakennda sögu kinnalitar og aftur byggði ég persónur verksins á sögulegum konum – í þetta skiptið ýmsum kvenkyns föngum. Ein kvennanna er til dæmis byggð á ítalskri konu frá miðöldum sem viðurkenndi eftir pyntingar að hafa selt eitur í formi kinnalitar og ilmvatns til kvenna sem vildu eitra fyrir eiginmönnum sínum. Önnur, byggð á þekktum fanga sem réttarhöld standa yfir þessa dagana fyrir mansal, segir frá förðun sinni í fangelsinu og samskiptum sínum við rottu í holræsinu. Hljóðverkið er svo spilað út frá skúlptúrunum tveimur sem standa á gólfinu og vísa í holræsislok og nútíma kinnaliti.“

Mannsskinnsskórnir eftir Smára Rúnar Róbertsson.
Fréttablaðið/Anton Brink

Drumbur á ferðalagi

Hanna Kristín Birgisdóttir býr í Bergen. Hún sýnir verkið The Log Log sem er hluti af tveggja ára rannsóknarvinnu sem snýst um það að koma drumbi fyrir á íshellu í Fram-sundi og láta hann reka að Íslandsströndum á þremur til fimm árum.

„Á þessari sýningu eru tveir prufudrumbar sem eru holaðir að innan, þyngdir að neðan og léttir að ofan til að þeir geti flotið lóðréttir í sjónum. Þeir eru tengdir við GPS-staðsetningarbúnað,“ segir Hanna. „Eftir sýninguna munu þeir fara með skipum út á sjó þar sem þeir eru látnir síga í hafið. Ég mun fylgjast með þeim og sjá hvernig þeim gengur í sjónum. Þetta er tilraunaferð áður en aðaldrumburinn fer í sitt langa ferðalag með rannsóknarskipi til Framsunds við Svalbarða og verður komið fyrir í ísnum þar.“

Hanna vinnur verkið með aðstoð frá haffræðingi við Háskóla Íslands og jarðeðlisfræðingi í háskólanum í Bergen, Global Drifter Program og ýmsum einstaklingum. „Við erum í sameiningu að þróa leiðir til að láta þetta ganga upp. Svo verður í fyllingu tímans til sérstök vefsíða um verkefnið þar sem hægt verður að fylgjast með drumbunum í sjónum,“ segir Hanna.

Á sýningunni eru einnig tvær ljósmyndir. Önnur sýnir tvær konur haldandi á trjádrumbi á milli sín. Sú mynd varð innblástur að verkinu The Log Log. „Ég ákvað að sækja trjádrumb og mynda en vegna þess hversu langan tíma það tók að fá þann drumb þá þróaðist hugmyndin upp í þetta umfangsmikla verkefni. Þannig að það má segja að ég hafi elt drumbinn,“ segir Hanna. n