Tríóið Guitar Islancio hefur gefið út vínilplötuna Þjóðlög. Segja má að platan sé lokaútgáfa í trílógíu sem Jón Rafnsson bassaleikari er í forsvari fyrir.

„Árið 2017 kom út geisladiskur með þessu sama nafni, Þjóðlög, og árið 2019 kom bókin Þjóðlög í útsetningu Guitar Islancio og nú er komin vínilplata sem heitir Þjóðlög,“ segir Jón, en auk hans eru í tríóinu Gunnar Þórðarson og Björn Thoroddsen.

Á vínilplötunni eru tólf lög. „Þetta eru þjóðlög sem öll hafa komið út á geisladiskum tríósins sem eru allir ófáanlegir. Þetta eru þekkt lög eins og Krummi svaf í klettagjá, Guð gaf mér eyra, Sofðu unga ástin mín og Þorraþrællinn. Svo er þarna ný útgáfa af Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns,“ segir Jón.

Guitar Islancio, sem var stofnað árið 1998, hefur vakið athygli erlendis. „Við höfum spilað þessa íslensku þjóðlagatónlist úti um allan heim og lögin hafa verið gefin út í Kanada, Japan og fleiri löndum. Tónlistin höfðar greinilega til margra. Fólki finnst hún skemmtileg,“ segir Jón. Bókin Þjóðlög, tuttugu og tvö íslensk þjóðlög á nótum og með hljómum fyrir gítar og píanó, hefur einnig gert lukku og er komin í sölu mjög víða erlendis, til dæmis í Þýskalandi og Svíþjóð.

Þjóðlagaverkefninu er nú lokið en tríóið starfar áfram og þjóðlögin munu fylgja því sem hluti af tónleikadagskrá. Þórður Árnason, gítarleikari og fyrrverandi Stuðmaður, hefur leikið undanfarið með tríóinu í stað Gunnars Þórðarsonar og mun væntanlega halda því áfram. „Við erum að grúska í alls kyns skemmtilegu efni, íslenskum og erlendum lögum, en ekki er enn ljóst hvað af því mun rata í útgáfu,“ segir Jón.

Tónleikahald bíður betri tíma en seinna á árinu eru áætlaðir tónleikar í Kaldalóni í Hörpu með sænska djass- og þjóðlagaleikaranum Jonas Knutsson og væntanlega fleiri gestum.