Um þessar mundir stendur Þjóðleikhúsið fyrir opnum, rafrænum leikprufum fyrir börn á aldrinum 9 til 13 ára til að taka þátt í fjölskyldusöngleiknum Draumaþjófnum. Um er að ræða nýtt íslenskt leikverk byggt á samnefndri bók Gunnars Helgasonar í leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur og er leitað að tólf börnum til að leika í verkinu. Stefán Jónsson leikstýrir og aðalhlutverk leika Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. Alls taka 17 leikarar þátt í sýningunni auk barnanna sem óskað er eftir og hljómsveit. Þorvaldur Bjarni semur tónlist og danshöfundur er Lee Proud.
Prufurnar eru rafrænar og geta allir sem hafa aldur til tekið þátt, en börn sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli eru sérstaklega hvött til að sækja um. Upplýsingar og kynningarmyndbönd um prufurnar eru því einnig aðgengilegar á ensku.
Óskað er eftir þremur prufum, dans-, leik- og söngprufu, sem börnin geta tekið upp á síma og sent inn rafrænt með aðstoð foreldra og aðstandenda í gegnum skráningarvef leikhússins. Síðasti skiladagur er sunnudagurinn 20. nóvember. Nánari upplýsingar má finna á vef Þjóðleikhússins.