Þjóðleikhúsið hefur boðað til málþings, líkt og fyrirhugað var, þar sem samtal um hlutverk lista og inngildingu jaðarhópa í listum mun eiga sér stað

Málþingið ber titilinn Samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum, og fer fram á á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 11. október klukkan 17. Þetta kemur fram í tilkynningu frá leikhúsinu.

Viðbruðurinn verður haldinn í samstarfi við ÖBÍ, Þroskahjálp, Bandalag íslenskra listamanna, Sviðslistasamband Íslands og Listaháskóla Íslands.

Ástæðuna fyrir því að þetta málþing er haldið má rekja til umræðu sem myndaðist í kringum leiksýninguna Sem á himni, en í henni leikur ófatlaður einstaklingur fatlaða persónu.

„Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað um leikhúsið og sviðsetningu raunveruleikans í listum. Kastljósinu hefur sérstaklega verið beint að inngildingu og sýnileika fatlaðs fólks og annarra minnihlutahópa í listum. Umræðan er sprottin af skoðanaskiptum um framsetningu á leikpersónu, sem er ungur fatlaður maður, í sýningunni Sem á himni.“ segir í tilkynningu Þjóðleikhússins.

tilkynningunni segir jafnframt að Þjóðleikhúsið fagni þeirri umræðu sem hafi átt sér stað og styður baráttu fatlaðra einstaklinga fyrir mannréttindum. Þá verði starfshópur með breiðri þátttöku settur á stofn við Þjóðleikhúsið sem mun hafa það að markmiði að móta stefnu og framtíðarsýn á sviði inngildingar og þátttöku jaðarsettra hópa í leikhúsinu.

„Listafólk vill leggja við hlustir og eiga samtal við sem flesta í samfélaginu með það að markmiði að auka skilning, víkka sjóndeildarhringinn og brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða. Því vonast skipuleggjendur eftir þátttöku allra sem áhuga hafa á uppbyggilegu samtali um þetta brennandi málefni.“