Fjölmargir hafa minnst Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar og stjórnmálakonu sem lést snemma í morgun, 86 ára að aldri.
„Hún var borgarlistamaður og þjóðargersemi og ól okkur öll upp í gegnum bækur sínar. Rithöfundur, borgarfulltrúi og þingkona. Sannur brautryðjandi og þannig mætti raunar áfram telja, segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í minningarorðum sínum um hana á Facebook.
Hann fangar í færslu sinni það sem svo margir lesendur bóka hennar á öllum aldri hafa orðað í færslum sínum á samfélagsmiðlum í dag.
„Guðrún setti börn í hásæti bóka sinna og frásagna og var löngu á undan sinni samtíð.“
„Hún brá ljósi á lífið, líf barna og venjulegra fjölskyldna, ekki síst borgarlífið og Reykjavík með glettni, húmor og einstakri frásagnargáfu. Guðrún setti börn í hásæti bóka sinna og frásagna og var löngu á undan sinni samtíð í heimi íslenskra barnabóka. Hún var bara svo ótrúlega skörp, snjöll og hnittin,“ segir Dagur.
Dagur játar einnig hve stressaður hann var áður en hann sló á þráðinn til Guðrúnar fyrir nokkrum árum til að fá leyfi hjá henni til þess að stofnuð yrðu á vegum Reykjavíkurborgar, barnabókaverðlaun í hennar nafni.
„Ég man enn hvað ég var stressaður áður en ég hringdi í hana til að biðja um leyfi. Og ánægjuna og þakklætið þegar hún féllst á erindið. Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur munu sannarlega halda áfram.“
Borgarstjóri minnist einnig stjórnmálaferils Guðrúnar og þakkar henni fyrir að gera borgina og Ísland að betra samfélagi, fyrir konur og karla en sérstaklega börn og unglinga.
„Guðrún átti hvað stærstan þátt að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins, þegar það gerðist í fyrsta skipti árið 1978. Það var afrek. Þar naut hún gáfna sinna, réttsýni, mælsku og ómælds sjarma sem talaði beint inn í hjarta fólks og lét aldrei eiga neitt inni hjá sér - að óþörfu.“

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála minnist Guðrúnar fyrir lofsvert framlag til barnabókmennta.
„Segja má að Guðrún hafi með verkum sínum snert hvert einasta heimili landsins. Þannig munu til dæmis uppátækjasömu tvíburarnir Jón Oddur og Jón Bjarni, með sínu hreina og tæra barnslega sakleysi, eiga sér stað í hugum og hjörtum landsmanna um aldur og ævi.“
Bauð öllum leikurum í pylsupartý
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri rifjar bæði upp sínar eigin æskuminningar um bækur Guðrúnar og samstarf við hana við uppsetningu á Óvitum hjá Leikfélagi Akureyrar árið 2007.
„Það er ógleymanlegt þegar hún, að frumsýningu lokinni, hitti börnin sem tóku þátt í sýningunni. Þar jós hún börnin og okkur öll hlýju, hvatningu og lofi. Manngæskan og húmorinn var allsráðandi. Minningin um Guðrúnu Helgadóttur mun lifa og það munu sögur hennar svo sannarlega gera líka.“
„Og Guðrún svo skemmtileg og hlý við okkur leikarabörnin, bauð okkur í pylsupartý heim til sín.“
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og þingkonan Helga Vala Helgadóttir minnist þess einnig þegar þær léku í uppsetningu Þjóðleikhússins á Óvitum.
„Ég lék ásamt skara annara barna í frumuppfærslu á leikriti hennar Óvitar sem var einstakt á alla lundu þar sem hlutverkum barna og fullorðinna var snúið á hvolf sem leiddi auðvitað til þess að fá alveg nýtt sjónarhorn á tilveru barna og fullorðinna. Brilljant alveg hreint. Og Guðrún svo skemmtileg og hlý við okkur leikarabörnin, bauð okkur í pylsupartý heim til sín.“
Steinunn Ólína staldrar einnig við húmor Guðrúnar „sem skrifaði fyrir börnin eins og þau væru hugsandi verur. Jón Oddur og Jón Bjarni! Guðrún skrifaði um tilveruna og hafði í heiðri manngildin mest og best og bjó að auki yfir leiftrandi húmor og innsæi sem gladdi lesendur og ekki síður þá sem upp lásu fyrir yngri lesendur.“
Ætlaði að verða heimsfræg og brauðfæða Hafnfirðinga
Í andlátsfregn um Guðrúnu á vef Fréttablaðsins fyrr í dag er rifjað upp viðtal við hana í sunnudagsblaði Morgunblaðsins árið 2016, Þar segir hún meðal annars frá því að hún hefði snemma ákveðið hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór.
„Það fór ekkert á milli mála að ég ætlaði að verða heimsfræg kvikmyndaleikkona. Því ég las í blöðunum að þær væru svo ægilega ríkar og þá ætlaði ég að vera svo góð og gefa peninga út og suður öllu fátæka fólkinu í Hafnarfirði. Mikið lifandi skelfing var ég nú ákveðin í þessu. Beið dag hvern eftir að verða uppgötvuð. En svo fór það nú þannig að ég var aldrei uppgötvuð,“ sagði hún og hló.
„Það fór ekkert á milli mála að ég ætlaði að verða heimsfræg kvikmyndaleikkona. Því ég las í blöðunum að þær væru svo ægilega ríkar.“
Bergrún Íris Sævarsdóttir, sem var fyrsti rithöfundurinn til að hljóta bókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, minnist hennar á Facebook í dag meðal annars fyrir hve hún var stolt af að vera Gaflari og hve heitt hún elskaði Hafnarfjörð.
Litrík kona, ekki skaplaus
Margir minnast stjórnmálaferils Guðrúnar sérstaklega. Meðal þeirra er Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, sem minnist hennar sem eins af eftirminnilegustu samstarfsmönnum hans í þinginu.
„Guðrún var litrík kona, ekki skaplaus, en notaði húmorinn til samskipta við félagana í þinginu. Hann gat verið beittur en skemmtilegur.“
„Guðrún var litrík kona, ekki skaplaus, en notaði húmorinn til samskipta við félagana í þinginu. Hann gat verið beittur en skemmtilegur. Eitt var áberandi með Guðrún að þegar hún komst í námunda við börn, geislaði af henni umhyggja og gleði, enda eru barnabækur hennar klassík úr daglega lífinu. Þær lifa þótt hún sé horfin af sviðinu. Það er eftirsjá að Guðrúnu, og blessuð sé minning hennar,“ skrifar Jón á Facebook.
Þegar tillaga Ólafs Ragnar setti allt á flot
Þá rifjar sagnfræðingurinn Stefán Pálsson upp skemmtilega sögu frá kosningabaráttu árið 1995, en hann segist þá hafa verið búsettur á kosningaskrifstofu Alþýðubandalagsins enda kennaraverkfall í gangi. Kosningastjórn flokksins hafði ákveðið að láta prenta bréf frá Guðrúnu og senda á eldri borgara borgarinnar. Lítil breyting á bréfinu eftir tillögu frá Ólafi Ragnari Grímssyni átti eftir að halda kosningastjórninni heldur betur upptekinni dagana á eftir.
Gunnar og Gervasoni
Þá rifjast upp fyrir fólki ýmsir minnistæðir atburðir tengdir Guðrúnu.
Til dæmis um fræga viðleitni hennar árið 1980 til að tryggja flóttamanninum Gervasoni, liðhlaupa úr franska hernum hæli hér á landi. Senda átti Gervasoni úr landi en upp reis mótmælaalda gegn því og þar var alþingiskonan Guðrún Helgadóttir í fararbroddi. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddssen hafði svo nauman meirihluta að atkvæði Guðrúnar gat skipt sköpum.
Guðrún Helgadóttir sýndi mikla staðfestu þegar hún stóð með flóttamanninum Gervasoni og hætti að styðja ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen um tíma og neyddi hann þannig til að leysa það mál í kjölfarið. Réðu þar hrein mannúðarsjónarmið för.
— Björn Reynir (@bjornreynir) March 23, 2022
Hvíl í friði Guðrún ❤️
„Okkar Astrid Lindgren“
Að lokum hafa fjölmargir rithöfundar og lesendur Guðrúnar á öllum aldri minnst hennar og bóka hennar í dag.
„Hún var svo hrein og bein, nennti engum vífilengjum og hátíðarromsum, sagði hlutina bara eins og þeir eru - bara svolítið betur en flest annað fólk, því að hún var hittin með orðin. Hún var með fyndnara fólki en það var alltaf litað hlýju og næmri tilfinningu fyrir fólki - og óbilandi réttlætiskennd,“ segir rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson um Guðrúnu á Facebook.
Guðrún Helgadóttir 💔❤️💔 pic.twitter.com/mbJAulFK9x
— Berglind Festival (@ergblind) March 23, 2022
Hitti hana í fyrsta sinn á upplestri 1981, eftir margra ára kynni af hennar bókum, pabbi var þá með okkur en þau höfðu þekkst vel í MR og þess vegna settist hún hjá okkur smástund, síðast hitti ég hana í hátíðardagskrá um hana á Seltjarnarnesi árið 2014: https://t.co/Y0e5kgepJ8
— Ármann Jakobsson (@ArmannJa) March 23, 2022
Takk Guðrún Helgadóttir fyrir öll ævintýrin, sögurnar, hugarheimana.
— Díana Sjöfn (@hnjask) March 23, 2022
Takk fyrir mig.
Jón Oddur og Jón Bjarni er ógleymanleg bók sem ég teigaði að mér sem barn. Guðrún Helgadóttir var frábær höfundur og frábær kona. Ef við stjórnvölin væru almennt no-nonsense konur eins og hún og Guðrún Ögmunds væri heimurinn miklu betri.
— 🅳🆁. 🅶🆄🅽🅽🅸 (@drgunni) March 23, 2022
Takk fyrir bækurnar og pólitíkina ❤️🧡Guðrún Helgadóttir látin | RÚV https://t.co/zjeY4rdQbY
— Sveinbjarnardóttir (@Sveinbjarnar65) March 23, 2022
Okkar Tove, okkar Astrid, já og öflug stjórnmálakona að auki.
— Björn Friðgeir Björnsson (@bjornfr) March 23, 2022
Takk fyrir allt, Guðrún Helgadóttir.
Hún ól okkur meira og minna upp þessi. Takk fyrir mig … https://t.co/0hbDL5LsBb
— Guðni Tómasson (@Gydnid) March 23, 2022
Guðrún Helgadóttir...þvílík þjóðargersemi, þvílíkur brautryðjandi, þvílík kona! Takk fyrir allt sem þú gafst okkur 🕊️
— Inga, MSc. ♀️ (@irg19) March 23, 2022
RIP barna átrúnaðargoðið mitt Guðrún Helgadóttir 🕊📖
— Anna Sig.🇺🇦🇺🇦🇺🇦❤ (@TheZumanity) March 23, 2022
elsku, elsku Guðrún Helgadóttir - takk fyrir allt sem þú hefur fært íslenskum börnum 💔
— karitas m. b. (@kaerleikurinn) March 23, 2022
Takk fyrir allt Guðrún Helgadóttir❤️
— Gústi Chef (@gustichef) March 23, 2022