Í tilefni dagsins er það smörrebrauð sem fær vinninginn og Marentza býður upp á gómsætar uppskriftir af þjóðhátíðar-síldarsmörrebrauði í hátíðarbúningi, sem á vel við.

„Mér datt í hug að gera síldarsmörre vegna þess að það er algengt á hinum Norðurlöndunum að bjóða upp á síld, hrökkbrauð og kartöflusalat á Jónsmessunni. Í eftirrétt eru síðan fersk jarðaber með rjóma. Þetta er skemmtilegur siður,“ segir Marentza og hefur virkilega gaman að því að halda í hefðir í tengslum við hátíðisdaga sem þessa.

Smörre með sítrusgrafinni lúðu með fennelsalati.

Klæddist færeyska þjóðbúningnum á 17. júní

„Þjóðhátíðardagurinn hjá okkur fjölskyldunni hefst nánast alltaf á Austurvelli. Maðurinn minn var einn af söngbræðrum Karlakórs Reykjavíkur og söng kórinn annað hvert ár við hátíðarhöldin. Þannig finnst mér þjóðhátíðardagurinn byrja og ég vil helst ekki missa af því,“ segir Marentza.

Marentza er frá Færeyjum og þykir ákaflega vænt um rætur sínar og bernskuárin.

„Hérna áður fyrr klæddi ég sjálfa mig og börnin upp í færeyska þjóðbúninginn, en það er til siðs að klæðast honum á Ólafsvöku í Færeyjum.“

Stórfjölskyldan hittist í bröns

„Í hádeginu á 17. júní var snæddur bröns sem oftast nær samanstóð af síld og brauð eða hangikjöt með kartöflusalati. Það allt gat ég verið búin að undirbúa deginum áður. Maður staldraði ekki lengi við heima vegna þess að það var svo mikið um að vera í bænum.“

Tímarnir hafa breyst hjá Marentzu eftir að hún fór út í veitingabransann.

„Seinni árin hefur farið minna fyrir bæjarferðunum og færeyski búningurinn er lítið viðraður, sérstaklega eftir að ég fór út í veitingabransann. Hins vegar missum við helst ekki af hátíðarhöldunum á Austurvelli fyrir hádegi og stórfjölskyldan hittist oftast nær í bröns á öðrum hvorum veitingastaðnum okkar, Flóru Bistro eða á Klömbrum Bistro. Eftir brönsinn stendur maður vaktina til klukkan sex og það er líka mjög gaman, allir í hátíðarskapi og margir hverjir í þjóðbúningum sem setur fallegan blæ á daginn.“

Smörre með sítrusgrafinni lúðu og fennelsalati

1 flak smálúða, um það bil 1 kg

1 g salt

70 g sykur

rifinn börkur af 2 sítrónum

eggjafennelsalat (uppskrift hér fyrir neðan)

brauð að eigin vali, t.d. maltbrauðssneið

Byrjið á að hreinsa og þerra fiskinn, stráið sykurblöndunni vel yfir fiskinn þannig að hún þekji hann allan. Pakkið flakinu síðan vel inn í plast og látið hvíla í 12 tíma.

Áður en grafna lúðan er skorin ofan á brauðið er flakið vel hreinsað og þerrað.

Eggjafennelsalat

2 dl mæjónes, má vera vegan

1 tsk. mulið fennel

1 msk. kapers

4 harðsoðin egg

salt og pipar, smakka til

Blandið saman majónesi, fennel, salti og pipar. Skerið eggin í teninga og blandið þeim saman við majónesblönduna ásamt kapers. Til skrauts má fínskera með skrælara eða ostaskera sellerístrimla og skrældar radísur. Skreytt með ætiblómum til dæmis hvítum fjólum.

Smörre með bláberjasíld og soðnum kartöflum.

Smörre með bláberjasíld og soðnum kartöflum

1 krukka eða flak af síld að eigin vali

síldarlögur

1 askja bláber (geyma nokkur til skrauts)

1 -2 soðnar kartöflur, fjólubláar

1 pakki danskt rúgbrauð í sneiðum

Örlítíð majónes

Hægt er að nýta sömu síldina, þ.e.a.s. úr sömu krukku eða flökum, á báða Smörre réttina. Byrjið á að sigta síldina frá síldarleginum. Merjið bláberin og blandið saman við síldina, mjög gott er að hella smá bláberjasafa yfir. Látið standa í sólahring í ísskáp.

Samsetning:

Kartöflusneiðar eru settar ofan á smurða rúgbrauðssneið og síldarbitunum er raðað þar ofan á. Smá majónes toppar settir á til að halda skrautinu. Skreytið með ferskum bláberjum, graslauk og fjólum.

Smörre með rauðrófu marineraðri síld og fjólubláfum kartöflum eða fjólubláum gulrótum.

Smörre með rauðrófu marineraðri síld og fjólubláum kartöflum eða fjólubláum gulrótum

2 soðnar kartöflur (fjólubláar eða ein stór fjólublá gulrót)

Síldarlögur (uppskrift hér fyrir neðan)

1 krukka síld að eigin vali eða síldarflök

1 pakki danskt rúgbrauð í sneiðum

Örlítið majónes

½ krukka pikklaður rauðlaukur

Ætisrósir til skrauts

Síldarlögur

1 l kryddedik

½ l rauðrófusafi

½ kg. sykur

1 msk. hvít piparkorn

1 msk. sinnepsfræ

Setjið allt í pott og látið suðuna koma upp, kælið löginn áður en honum er hellt yfir síldina.

Samsetning:

Ef notuð er síld sem keypt er marineruð má sigta hana og setja hana í þennan nýjan lög og hún látin standa í sólarhring áður en hún er notuð.

Byrjið á því að sjóða kartöflurnar eða gulræturnar. Þegar búið er að sjóða þær og kæla eru þær skornar í sneiðar og þeim raða ofan á smurða danska rúgbrauðsneið. Skerið síldarflakið í bita og raðið ofan á kartöflurnar/gulræturnar. Setjið smá majónes toppa ofan á til þess að halda skrautinu. Skreytið með pikkluðum rauðlauk og rósum sem hafa verið ræktaðar án eiturefna og má borða.

Gleðilega þjóðhátíð!