Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur er margt til lista lagt og er hún mikill matgæðingur. Hún leggur metnað í matargerðina og er þekkt fyrir að bera fram ómótstæðilegan og ljúffengan mat sem erfitt er að standast.
Þrátt fyrir mikla annir í vinnunni finnst henni skipta sköpun að laga góðan mat með fjölskyldunni og gefa sér tíma til að njóta saman. Þorbjörg er þingmaður Viðreisnar fyrir Reykjavík, situr í fjárlaganefnd og er varaformaður umhverfis-og samgöngunefndar og má því segja að verkefni hennar séu mörg og krefjandi þessa dagana. En það þurfa allir að nærast.
„Besti hluti dagsins finnst mér að setjast niður með fjölskyldunni í kvöldmat. Það er sá hluti dagsins þegar oftast er hægt að ná öllum saman. Kvöldmaturinn og morgunmatur saman um helgar eru bestu stundirnar,“ segir Þorbjörg.

„Mér finnst skemmtilegt að elda og eldamennskan er yfirleitt blanda af réttum sem við borðum aftur og aftur í bland við nýjar uppskriftir. Á virkum dögum erum við yfirleitt að elda fljótlega rétti. Vinnudagurinn á þinginu getur verið langur og hann getur þróast öðruvísi en ætlunin var í upphafi dags. Þess vegna finnst mér gaman að elda rétti um helgar sem þurfa lengri tíma. Ég er mjög matglöð manneskja held ég að megi segja. Ég er forvitin um mat og hika ekki við að biðja um uppskriftir þegar ég fæ góðan mat hjá öðrum. Þrjár af þessum uppskriftum er tilkomnar þannig að ég fékk góðan mat hjá mér kæru fólki.“
Hér er Þorbjörg búin að setja saman ómótstæðilega girnilegan vikumatseðil sem á eftir að steinliggja. Skemmtilega matarflóra sem á vel við árstíðina og veðrið sem fram undan er.
Mánudagur – Mánudagsfiskurinn
„Mér finnst fiskur á mánudögum vera dálítið eins og hangikjötið á jóladag. Þetta er bara í lögum. Staðlað stopp eftir vinnu á mánudögum er hjá Fiskikónginum á Sogaveginum þar sem ég gríp fisk í matinn. Við erum hrifin af þorskhnökkum en borðum alls konar fisk og fiskrétti. Síðustu tvo mánudaga hefur verið heiðarlegur matur á borðum. Þorskur í raspi sem er bæði einfalt að grípa í fiskbúðinni og elda. Ég sker niður einn lauk sem ég set í fat og svo fiskinn ofan á og er ónísk á smjörið ofan á. Sker svo niður kartöflur (smælki með hýði) og set í eldfast mót og grilla í ofni, kryddað með salti og pipar. Einfalt salat með af því sem til er í ísskápnum og tiltækar sósur með. Og þar með er mánudagsmaturinn klár.“

Þriðjudagur - Gul veðurviðvörun og grjónagrautur á borðum
„Þessi vetur með endalausum veðurviðvörunum hefur haft áhrif á matseldina undanfarnar vikur. Maturinn verður íslenskari fyrir vikið. Það hefur verið heiðarlegur vetrarmatur á borðum. Grjónagrautur er mjög vinsæll hjá yngstu dóttur minni. Ódýr matur og vinsæll. Hrísgrjón, nýmjólk, rúsínur og kanilsykur. Og allir ánægðir við matarborðið.“

Miðvikudagur - Penne Pomodoro með burrata osti og ferskum basil
„Ég elska Ítalíu og ég elska ítalskan mat. Kann að meta þennan einfaldleika og fá en góð hráefni. Hef verið dugleg að lesa pastauppskriftir eftir að hafa verið í sumarfríi á Ítalíu síðustu tvö sumur. Þessi uppskrift er í miklum metum. Réttur sem ég elda aftur og aftur og tekur ekki meira en hálftíma að græja. Kosturinn við þennan rétt er um leið að það þarf bara að eiga pasta og tvær dósir af tómötum. Lykilatriði hér er að vera með góða tómata, pasta og ólífuolíu. Ég kaupi San Marzano tómata í dós, heilir tómatar (fást t.d. í Krónunni).“
Penna Pomodoro með burrata osti og ferskum basil
2 msk. góð ólífuolía
1 stk. niðurskorinn laukur
10 stk. hvítlauksgeirar maukaðir
2 stk. dósir af San Marzono tómötum
3 msk. af smjöri
1 tsk. sykur
Ferskur basil eftir smekk
Salt og pipar eftir smekk

Pastasósan
Bestir eru tómatar sem eru heilir í dós. Maukið tómatana fyrst í blandara þannig að tómatarnir verði að vökva. Steikið svo laukinn í nokkrar mínútur upp úr ólífuolíunni. Bætið svo hvítlauknum við og steikið í 2 mínútur í viðbót, bara rétt til að mýkja laukinn. Þá bætið þið tómötunum við og eins og teskeið af sykri. Sósan er látin malla að minnsta kosti í 20 mínútur á pönnunni/pottinum á miðlungshita og ekki verra ef hægt er að láta hana vera lengur. Sósan á að þykkna aðeins. Þá er smjörinu bætt við sósuna.
Upphaflega setti ég alltaf grein af ferskum basil út í sósuna og lét liggja í sósunni á meðan hún var að sjóða. Einhvern tímann átti ég ekki basil og setti þá grein af fersku rósmarín í sósuna, sem gaf auðvitað annað bragð en var ekkert síðra. En greinin er sem sagt látin liggja í sósunni allt þar til hún er tilbúin, þá er henni kippt upp úr. Svo má salta og pipra sósuna eftir smekk.
Penne eða pasta eftir smekk
Yfirleitt sýð ég penne um það bil mínútu styttra en leiðbeiningar segja til um þegar ég elda þennan rétt. Al dente er málið en pastað fer síðan út í sósuna þegar það er tilbúið og mallar þar í nokkrar mín til viðbótar, svo penne þarf ekki alveg fulla suðu. Ég gæti þess að kaupa gott pasta. Gott pasta, góðir tómatar og góð ólífuolía og útkoman verður einfaldlega góð.
Ég ber þennan rétt yfirleitt fram á flötum diski. Þegar það er komið á diskinn er komið að því að rífa niður heilan burrata ost og setja á miðju disksins. Burrata er ekkert ómissandi en gerir mikið. Að lokum er svo ólífuolíu hellt yfir ostinn, pipar og salt ofan á eftir smekk. Ég sker svo niður ferskan basil og dreifi yfir allan diskinn. Þetta er einfaldur réttur en sjúklega góður. Fullorðnir jafnt sem börn eru himinsæl með þennan rétt.
Fimmtudagur - Kjúklingasalat Sigurrósar
„Hvað er í matinn?“ er dagleg spurning á flestum heimilum. Þegar ég segi að það sé „góða kjúklingasalatið“ er alltaf ánægja með svarið. Góða kjúklingasalatið gæti reyndar gefið til kynna að það sé stundum vont kjúklingasalat í matinn en ég ætla ekki að taka neitt slíkt á mig. Þetta salat fékk ég einu sinni hjá Sigurrós Pálsdóttur vinkonu minni og kokki. Það var svo gott að ég bað hana um uppskriftina. Ég hef ekki tölu á því hversu oft það hefur verið í matinn síðan, bæði fyrir okkur fjölskylduna og gesti.“
Kjúklingasalat Sigurrósar
Fyrir 4-5
1 pk. kjúklingalundir
1 poki af salati eftir smekk (jafnvel einn og hálfur poki)
1 bréf af beikoni
½ rauðlaukur, sneiddur mjög þunnt
½ feta ostur (hreinn feta, ekki í olíu þó hann gangi alveg líka)
1 stk. krukka af svörtum steinlausum ólífum (eða eftir smekk)
½ mangó
Eldið kjúklinginn og kryddið eftir smekk. Ég steiki hann yfirleitt bara á pönnu. Beikonið steikt þar til það er orðið vel stökkt. Ég set það á bökunarpappír og grilla inni í ofni. Set svo pappír yfir beikonið eftir að ég tek það úr ofninum, þannig þurrkast mesta fitan af. Rauðlaukurinn skorinn niður og fetaosturinn skorinn í teninga. Ég sker kjúklingalundirnar yfirleitt í minni bita. Sker beikonið niður í litla bita. Mér finnst salöt falleg þegar þau eru borin fram á flötum diski. Byrja á því að setja salatið á diskinn, svo kjúklinginn og beikon þar ofan á, svo kemur laukurinn, ólífur og fetaostur. Mangóið síðast.

Sósan
100 ml majónes
100 ml sýrður rjómi
50 ml balsamico edik
25 ml sykur
Sósan gerir mikið fyrir þennan rétt. Þetta er einföld en mjög bragðgóð sósa. Blandið saman sýrðum rjóma og majónesi í skál, saltið aðeins og piprið. Balsamico edikið og sykur sett saman í lítinn pott og látið sjóða þar til þykknar dálítið, í um það bil 3 mínútur. Kælið þessa balsamik sykurblöndu aðeins og blandið svo smátt og smátt saman við majónesið þar til liturinn er orðinn ljósbrúnn. Þessi sósa er líka góð köld daginn eftir.
Föstudagur - Matarmikil Thai kjúklingasúpa
„Þessi súpa er betri ef hún fær smá tíma. Hún er þess vegna fínasti föstudagsmatur. Súpuna smakkaði ég fyrst hjá Maríu vinkonu minni þegar ég bjó í New York. Þessa súpu er hægt að milda fyrir börn eða gera sterkari þegar fullorðnir bragðlaukar eru að borða – magn chili er auðvitað breytan þar.“
Thai kjúklingasúpa
½ tsk. of þurrkuðum rauðum chilliflögum
2 stk. hvítlauksgeirar, fínt skornir,
Lítill biti af ferskum engifer (2 sentimetrar) fínt skorinn
1 ½ tsk. túrmerik krydd
2 stk. rautt chili (fræin tekin burt), fínt skorin,
2 stk. skartlottulaukar, fínt skornir
1 ½ msk. ólífuolía
Soðið
1 l kjúklingasoð
2 kartöflur, flysjaðar og skornar í grófa bita
1 pakki kjúklingabringur/beinlaus kjúklingalæri, skorið í bita
200 ml kókosrjómi
1 stór sæt kartafla, flysjuð og skorin í grófa bita
2 msk. fiskisósa
Graslaukur eftir smekk, skorinn niður
1 stk. lime

Kryddmauk
Chilliflögur settar í 3 matskeiðar af vatni í potti og látið malla í um 5 mínútur. Vatnið á ekki að þorna upp. Þá er hvítlaukur, túrmerik, skorið chilli sett út í þetta er steikt á miðlungshita í um 20 mínútur. Þetta mauk gefur bragðið og litinn á súpunni, sem er fallega gul á litinn.
Súpan
Kjúklingasoði er svo hellt yfir kryddmaukið og hrært vel saman og kartöflur svo settar út í. Soðið í um það bil 20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar. Þá eru sætum kartöflum, kókosrjóma og kjúklingi bætt við og soðið í um það bil 10 mínútur til viðbótar. Þá er fiskisósunni bætt við. Þar á eftir er súpan tekin af hellunni. Heil lime er þá kreist út í. Og áður en súpan er sett í skálar er skorinn graslaukur settur ofan á áður en súpan er borin fram. Þetta er matarmikil súpa og ég er yfirleitt bara með baguettur með.
Laugardagur - Svart spaghetti með risarækjum og klettasalati
Svart spaghetti með risarækjum og klettasalati
1 pk. af svörtu spaghetti
Góð ólífuolía
Chillikrydd eftir smekk (eða 2 stk. sterk chilli niðurskorin)
2 stk. hvítlauksgeirar, fínt skornir
400-500 g risarækjur
1 lítið hvítvínsglas
1 stk. krukka af sólþurrkuðum tómötum (280 g) sem er maukað í blandara/töfrasprota
1 stk. sítróna
Poki af klettasalati

Aðferð:
Spaghetti er soðið í samræmi við leiðbeiningar.
Sósan
Á meðan þá er hvítlaukurinn fínt skorinn. Ólífuolían er sett á pönnu, um það bil 3 matskeiðar. Hvítlaukurinn steiktur í olíunni. Sólþurrkaðir tómatar í olíu eru settir í blandara og maukaðir. Maukið af sólþurrkuðum tómötum er svo sett á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur við háan hita. Svo er heil sítróna kreist út á maukið. Hvítvínsglasi svo bætt við. Best er ef sósan getur legið í góðan tíma eftir það, sósan verður bragðmeiri þannig. Þess vegna ekki vitlaust að elda sósuna og leyfa henni að liggja yfir daginn. Þegar rækjunni er bætt við þá er hitinn á sósunni aftur settur á, lár hiti. Rækjunum dugar hitinn af sósunni til að eldast.
Pastað
Eftir að búið er að sjóða pastað er því hellt í sósuna. Ágætt er geyma eins og lítinn bolla af vatninu til að setja svo út í sósuna, ef þarf. Salt og pipar eftir smekk. Þegar rétturinn er borinn fram er svo góð lúka af klettasalati sett ofan á pastað. Og auðvitað vel af parmesan osti með, fyrir þá sem það vilja.
Sunnudagur – Lambalæri að hætti fjölskyldunnar
„Mánudagur segir fiskur og mér finnst sunnudagur segja lamb. Undanfarið er það lambalæri. Ýmist þannig að ég sker sætar kartöflur niður í teninga og set í ofn. Rósmarín, salt, pipar og olía og smjörbitar yfir. Með þessu er salat, þar sem mér finnst skornar perur, döðlur og fetaostur vera gott tríó. Og undanfarið höfum við verið að dunda okkur við bernaise sósugerð. Er orðin langskólagengin þar finnst mér. Sósan er glimrandi góð.
Bernaise sósa
220 g smjör
4 eggjarauður
1 – 1½ msk. bernaise essence
1 tsk. kjötkraftur (duft)
Estragon eftir auganu
Smjörið er brætt í potti á vægum hita. Smjörið á að bráðna hægt og rólega og á ekki að bráðna um of. Eggjarauðurnar eru svo hrærðar saman í stórri skál með þeytara ofan í heitu vatnsbaði. Eggjarauðurnar eiga að vera við stofuhita og hitastigið á þeim og smjörinu sé svipað. Hitastigið skiptir miklu og þarf að passa vel. Smjörið sem sagt ekki of heitt og egg ekki of köld.
Smjörinu er svo hellt hægt og rólega út í rauðurnar sem eru þeyttar á meðan þær eru enn ofan í skálinni í vatnsbaðinu. Svo er essence bætt út í sósuna og kjötkrafti. Estragonið þar á eftir. Allt þeytt saman. Og þar með er bernaise sósa fædd og allir verða glaðir.
