Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og stjórnandi Almannavarna, ávarpaði þjóðina á síðasta upplýsingafundi almannavarna sem fór fram í dag.

Þar átti Víðir lokaorðið á fundinum eins og venjan er og ákvað hann að þakka þjóðinni.

„Mig langar að senda þakklæti til þessa fjölbreytta hóps sem myndar okkar fallega samfélag. Þetta hefði ekki tekist nema þið gerðuð þetta. Takk fyrir,“ sagði Víðir í lok fundarins.

Óhætt er að segja að upplýsingafundirnir hafi orðið órjúfanlegur hluti af lífi margra Íslendinga frá því að þeir hófust nokkrum dögum áður en fyrsta smitið greindist þann 28. febrúar.

Víðir er löngu orðinn frægur fyrir fleyg og falleg lokaorð. Hann hefur leitt upplýsingafundi almannavarna um stöðuna hér á landi í kórónaveirufaraldrinum frá því í febrúar. Á þeim tíma hefur hann haldið upp á afmælið og fagnað nýju afahlutverki fyrir framan íslensku þjóðina.

Nú eru tímamót í lífi þríeykisins og var því viðeigandi að Víðir beindi orðum sínu til íslensku þjóðarinnar og þakkaði þeim fyrir samfylgdina. Hann mun eflaust fagna með starfs­fólki björg­un­ar­miðstöðvar­inn­ar í Skóg­ar­hlíð, sem ætla að halda kveðjuhóf í tilefni dagsins.