„Við getum ekki beðið eftir því að kynna tíu ný ís­lensk lög fyrir þjóðinni, flytj­endur þeirra og höfunda,“ segir Ragn­hildur Steinunn Jóns­dóttir sem verður á kunnug­legum slóðum á RÚV á laugar­dags­kvöld þegar hulunni verður svipt af lögunum tíu sem koma til greina sem fram­lag Ís­lands í Euro­vision og verða kynnt í þættinum Lögin í Söngva­keppninni.

„Nú er bara um að gera að hækka í botn, hlusta á lögin og kynnast hæfi­leika­fólkinu sem hyggst heilla landann upp úr skónum þetta árið í von um að hreppa far­miðann í Euro­vision,“ heldur Ragn­hildur Steinunn á­fram öllum hnútum kunnug.

Þá ber einnig til tíðinda að hún mætir að þessu sinni til leiks með með tvo ferska ný­liða í kynna­þrí­eyki Söngva­keppninnar, þá Unn­stein Manuel og út­varps­manninn Sigurð Þorra sem er lang­best þekktur sem Siggi Gunnars.

Tón­listar­maðurinn Unn­steinn tekur undir með Ragn­hildi og segir mikla breidd í hópnum og að reynslu­boltar í bland við upp­rennandi söng­stjörnur eigi eftir að láta að sér kveða í Söngva­keppninni þetta árið.

Tryllt spenna og stuð

„Skemmti­legast finnst mér þó að stúdera lögin og fá þver­skurð af þeim pælingum sem popp­höfundar eru í árið 2023. Eina sem ég hefði viljað breyta væri að skylda alla til að taka eins og eina, jafn­vel tvær, upp­hækkanir. En ég mun bera þetta erindi upp við út­varps­stjóra fyrir næstu Söngva­keppni,“ segir Unn­steinn.

„Ég er um það bil að tryllast úr spenningi fyrir þessu verk­efni sem mig hefur dreymt um að koma að síðan ég var krakki,“ segir Siggi og virðist vart geta á sér heilum tekið af kæti.

„Lögin í ár eru mjög sterk og ég er sann­færður um að við munum standa uppi með nokkrar nýjar ís­lenskar popp­stjörnur að lokinni keppni. Það er sannur heiður að gera þetta með hinni reynslu­miklu Ragn­hildi Steinunni og ljúflingnum Unn­steini en við komum báðir nýir inn í þetta verk­efni.“

Risa­partí í Gufu­nesinu

Söngva­keppnin fer fram í febrúar og mars í Söngva­keppnis­höllinni í Gufu­nesi eftir vel lukkaða eld­skírn þar á síðasta ári. Fyrir­komu­lagið er eins og áður og undan­keppnirnar tvær fara fram 18. og 25. febrúar og úr­slita­stundin rennur síðan upp 4. mars.

„Eitt er víst að þetta verður stærsta partí Ís­lands,“ heldur Siggi á­fram fjall­brattur og minnir á að Söngva­keppnin hafi ein­mitt allt til að bera til þess að geta staðið undir því. „Ég get ekki beðið eftir því að taka af stað.“

Ragn­hildur Steinunn segir þau leggja mikið upp úr skemmtana­gildinu í allri dag­skrár­gerð í kringum Söngva­keppnina. „Keppnin sjálf er auð­vitað að vissu leyti al­var­leg og þar gilda á­kveðnar reglur en Söngva­keppnin er orðin svo miklu meira en bara keppnin.

Þetta er gleði­veisla þar sem við reynum að bjóða upp á fjöl­breytt hlað­borð af öllu mögu­legu. Kannski má segja að aðal­réttur kvöldsins sé keppnin sjálf þar sem á­kveðnar reglur gilda en í for­réttinum og eftir­réttinum gilda engar aðrar reglur en að hugsa út fyrir boxið og gleðja landann.“

Systur sigruðu eftir æsispennandi keppni í fyrra.

Leyni­gesturinn svíkur ekki

Síðustu ár hafa er­lendar stór­stjörnur úr Euro­vision komið fram á úr­slita­kvöldi Söngva­keppninnar, til dæmis má nefna Lor­een, Söndru Kim, Emily d­eF­or­est og Måns Zel­mer­löw svo nokkur séu nefnd.

Unn­steinn, Ragn­hildur Steinunn og Siggi segja að þessari stefnu verði haldið af dillandi ein­urð og festu og að enginn verði svikinn af leyni­gestinum í ár. „Það styttist ein­mitt í að við til­kynnum hvaða er­lenda Euro­vision-stjarna kemur til landsins en ég held að okkur sé ó­hætt að segja að at­riðið í ár sé ó­venju­legt,“ segir Ragn­hildur Steinunn og mælir fyrir allt þrí­eykið þegar hún segist sann­færð um að at­riðið eigi eftir að vekja mikla lukku.

Sem fyrr eiga á­köfustu Euro­vision-stuð­boltar landsins kost á því að upp­lifa stemninguna beint í æð og kaupa sig inn í salinn á alla við­burði Söngva­keppninnar en miða­sala hefst á tix.is 1. febrúar.