„Við getum ekki beðið eftir því að kynna tíu ný íslensk lög fyrir þjóðinni, flytjendur þeirra og höfunda,“ segir Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir sem verður á kunnuglegum slóðum á RÚV á laugardagskvöld þegar hulunni verður svipt af lögunum tíu sem koma til greina sem framlag Íslands í Eurovision og verða kynnt í þættinum Lögin í Söngvakeppninni.
„Nú er bara um að gera að hækka í botn, hlusta á lögin og kynnast hæfileikafólkinu sem hyggst heilla landann upp úr skónum þetta árið í von um að hreppa farmiðann í Eurovision,“ heldur Ragnhildur Steinunn áfram öllum hnútum kunnug.
Þá ber einnig til tíðinda að hún mætir að þessu sinni til leiks með með tvo ferska nýliða í kynnaþríeyki Söngvakeppninnar, þá Unnstein Manuel og útvarpsmanninn Sigurð Þorra sem er langbest þekktur sem Siggi Gunnars.
Tónlistarmaðurinn Unnsteinn tekur undir með Ragnhildi og segir mikla breidd í hópnum og að reynsluboltar í bland við upprennandi söngstjörnur eigi eftir að láta að sér kveða í Söngvakeppninni þetta árið.
Tryllt spenna og stuð
„Skemmtilegast finnst mér þó að stúdera lögin og fá þverskurð af þeim pælingum sem popphöfundar eru í árið 2023. Eina sem ég hefði viljað breyta væri að skylda alla til að taka eins og eina, jafnvel tvær, upphækkanir. En ég mun bera þetta erindi upp við útvarpsstjóra fyrir næstu Söngvakeppni,“ segir Unnsteinn.
„Ég er um það bil að tryllast úr spenningi fyrir þessu verkefni sem mig hefur dreymt um að koma að síðan ég var krakki,“ segir Siggi og virðist vart geta á sér heilum tekið af kæti.
„Ég get ekki beðið eftir því að taka af stað.“
„Lögin í ár eru mjög sterk og ég er sannfærður um að við munum standa uppi með nokkrar nýjar íslenskar poppstjörnur að lokinni keppni. Það er sannur heiður að gera þetta með hinni reynslumiklu Ragnhildi Steinunni og ljúflingnum Unnsteini en við komum báðir nýir inn í þetta verkefni.“
Risapartí í Gufunesinu
Söngvakeppnin fer fram í febrúar og mars í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi eftir vel lukkaða eldskírn þar á síðasta ári. Fyrirkomulagið er eins og áður og undankeppnirnar tvær fara fram 18. og 25. febrúar og úrslitastundin rennur síðan upp 4. mars.
„Eitt er víst að þetta verður stærsta partí Íslands,“ heldur Siggi áfram fjallbrattur og minnir á að Söngvakeppnin hafi einmitt allt til að bera til þess að geta staðið undir því. „Ég get ekki beðið eftir því að taka af stað.“
Ragnhildur Steinunn segir þau leggja mikið upp úr skemmtanagildinu í allri dagskrárgerð í kringum Söngvakeppnina. „Keppnin sjálf er auðvitað að vissu leyti alvarleg og þar gilda ákveðnar reglur en Söngvakeppnin er orðin svo miklu meira en bara keppnin.
Þetta er gleðiveisla þar sem við reynum að bjóða upp á fjölbreytt hlaðborð af öllu mögulegu. Kannski má segja að aðalréttur kvöldsins sé keppnin sjálf þar sem ákveðnar reglur gilda en í forréttinum og eftirréttinum gilda engar aðrar reglur en að hugsa út fyrir boxið og gleðja landann.“

Leynigesturinn svíkur ekki
Síðustu ár hafa erlendar stórstjörnur úr Eurovision komið fram á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar, til dæmis má nefna Loreen, Söndru Kim, Emily deForest og Måns Zelmerlöw svo nokkur séu nefnd.
Unnsteinn, Ragnhildur Steinunn og Siggi segja að þessari stefnu verði haldið af dillandi einurð og festu og að enginn verði svikinn af leynigestinum í ár. „Það styttist einmitt í að við tilkynnum hvaða erlenda Eurovision-stjarna kemur til landsins en ég held að okkur sé óhætt að segja að atriðið í ár sé óvenjulegt,“ segir Ragnhildur Steinunn og mælir fyrir allt þríeykið þegar hún segist sannfærð um að atriðið eigi eftir að vekja mikla lukku.
Sem fyrr eiga áköfustu Eurovision-stuðboltar landsins kost á því að upplifa stemninguna beint í æð og kaupa sig inn í salinn á alla viðburði Söngvakeppninnar en miðasala hefst á tix.is 1. febrúar.